Náttúrufræðistofnun Íslands

83. fundur
Þriðjudaginn 18. febrúar 1992, kl. 14:07:00 (3539)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég kvaddi mér hljóðs fyrst og fremst til þess að þakka fyrir það að þetta frv. skuli vera flutt en ég átti dálitla aðild að undirbúiningi málsins með því að skipa nefnd til að vinna að þessu verkefni 19. júní 1989 eins og kom fram í máli hæstv. umhvrh. Nefndin var undir forustu Hjörleifs Guttormssonar sem stýrði verkum hennar af miklu öryggi og myndarskap. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hafði áður komið að þessu máli sérstaklega á hv. Alþingi með því að vera fyrsti flutningsmaður að þáltill. sem hreyfði verulega við málinu en tillöguna fluttu held ég einir tíu þingmenn úr öllum flokkum sem þá áttu fulltrúa á Alþingi. Ég tel ástæðu til þess að segja það að ég tel að þarna hafi verið unnið mjög gott starf í nefndinni á árunum 1989--1990 vegna þess að það verk að koma saman nefndaráliti á grundvelli skipunarbréfs nefndarinnar var ótrúlega flókið verk. Hlutverk nefndarinnar var í fyrsta lagi að semja drög að frv. til laga um náttúrurannsóknir og Náttúrufræðistofnun Íslands með hliðsjón af tilhögun frá fyrri árum og það frv. höfum við hér. En í öðru lagi að kanna möguleika á samkomulagi um byggingu náttúrufræðihúss á höfuðborgarsvæðinu með aðild Náttúrufræðistofnunar Íslands, Háskóla Íslands, Reykjavíkurborgar og hugsanlega fleiri aðila og í þriðja lagi að kanna aðra þætti sem tengjast þessum málum og nefndin vildi koma á framfæri. Eins og fram kom hér í máli hæstv. umhvrh. er þetta frv. afurð af starfi þeirrar nefndar sem var kölluð NNN-nefnd. Síðan fékk önnur nefnd málið í hendur undir forustu Jóns Gunnars Ottóssonar, deildarstjóra í umhvrn. Ég hygg að sú nefnd hafi verið skipuð í tíð núv. hæstv. umhvrh. en frv. var afhent umhvrn. með ákvörðun um breytta verkaskiptingu í Stjórnarráðinu. Ég hygg að það hafi verið sumarið 1990 sem umhvrn. fékk þetta mál í sínar hendur.
    Sannleikurinn er sá að þeir sem hafa ekki fjallað um þessi mál að neinu marki eiga kannski erfitt með að gera sér grein fyrir því hvað þetta er orðin ótrúlega löng vegferð. Deilur um þetta mál hafa verið mjög miklar og voru um áratugaskeið. Ég held að það sé næstum hægt að segja að hálf öld sé liðin síðan lagt var af stað með tilraunir til þess að ná samkomulagi um skipulag náttúrurannsókna hér á landi og byggingu náttúrufræðihúss. NNN-nefndin skilaði áfangaáliti til ráðuneytisins 20. sept. 1989 og helstu niðurstöður þessa álits voru kynntar í tengslum við 100 ára afmæli Hins íslenska náttúrufræðifélags 1. okt. 1989.
    Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að fara hér yfir einstök mál í frv. þessu. Ég sé að um frv. er fullt samkomulag og ég er auðvitað sérstaklega ánægður með að heyra það að menn skuli hafa náð samkomulagi. Ég er alveg viss um að þær nefndir sem að þessu hafa starfað nú og áður, bæði þessi nefnd sem starfaði síðast í málinu og eins sú nefnd, sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson veitti forstöðu, lagði á það áherslu að laða saman alla þá aðila sem hér eiga hlut að máli. Þeir eru ótrúlega margir. Það eru aðilar eins og Vísindaráð, náttúruvísindadeild Vísindaráðs, Rannsóknaráð ríkisins, Hið íslenska náttúrufræðifélag að sjálfsögðu, embætti veiðistjóra og síðan fulltrúar frá Náttúrufræðistofnun Austurlands, Náttúrugripasafninu í Neskaupstað, Fjórðungssambandi Norðlendinga, Vestmannaeyjabæ og fleiri aðilum.
    Það eitt er stórkostlega mikið fagnaðarefni að menn skuli hafa náð þetta víðtæku samkomulagi. Ég segi það fyrir mig að ég læt þá ósk í ljós og tek undir með hæstv. umhvrh. og öðrum sem hér hafa talað að ég vil að þetta frv. verði að lögum. Ef það dregst þá er hætt við að svona mál lendi í útideyfu. Það er nauðsynlegt að halda þétt utan um mál af þessu tagi og hætt er við því að gömul ágreiningsefni geti risið upp á ný ef menn halda ekki þétt utan um mál af þessum toga.
    Ég vil, um leið og ég þakka fyrir sem þingmaður hér, leyfa mér að inna hæstv. umhvrh. eftir því hvað sé að frétta af öðrum þætti í starfsemi þeirrar nefndar, sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson veitti forstöðu á sínum tíma, en það var að kanna möguleika á samkomulagi um byggingu náttúfræðihúss á höfuðborgarsvæðinu með aðild Náttúrufræðistofnunar, Háskóla Íslands, Reykjavíkurborgar og hugsanlega fleiri aðila. Ég tók ekki eftir því að hæstv. umhvrh. nefndi stöðu þess máls sérstaklega í sinni ræðu en við undirbúning málsins kynnti NNN-nefndin sér sérstaklega hvernig slíkum söfnum og slíkri starfsemi er háttað erlendis, m.a. með heimsókn í Heureka-safnið í bænum Vanda rétt fyrir utan Helsinki í Finnlandi og forstöðumaður Heureka-safnsins, Hannu Miettinen, kom hingað til lands og ræddi við forustumenn Hins íslenska náttúrufræðifélags, Náttúrufræðistofnunar og nefndarmenn sem þá áttu hlut að máli og reyndar ræddi hann við fleiri aðila. Það varð til samkomulag á milli menntmrn., staðfest af ríkisstjórninni, Háskóla Íslands og borgarstjóranum í Reykjavík, Davíð Oddssyni, um það hvernig staðið yrði að uppbyggingu náttúrufræðihúss. Mig minnir að þegar fjárlagafrv. var lagt fyrir sl. haust hafi verið gert ráð fyrir því að setja einhverja upphæð í þetta hús á árinu 1992. Í fjárlögum ársins 1991 var smá upphæð inni í undirbúningi þessa verkefnis og hún var á forræði umhvrn. þó að tillaga um þá fjármuni hafi upphaflega verið flutt, eins og við var að búast, af menntmrn. Við meðferð fjárlaganna varð niðurstaðan sú að þetta var ein af þeim upphæðum sem var felld út eða lækkuð mjög verulega. Ég held að hún hafi verið felld út. Ég minnist þess að hv. þm. Margrét Frímannsdóttir flutti litla brtt. við fjárlagafrv. fyrir árið 1992 þar sem gert var ráð fyrir fjármunum inn í þetta verkefni. Sú tillaga náði ekki fram að ganga frekar en aðrar brtt. minni hlutans. En ég tel ástæðu til þess að inna hæstv. umhvrh. eftir því hvernig hann hefur hugsað sér að halda á því máli sem lýtur að byggingu náttúrufræðihúss. Á sama hátt og lagafrv. er viðkvæmt verk sem margir aðilar hafa verið kallaðir að, margir aðilar með mjög ákveðnar skoðanir á hlutunum svo að ekki sé nú meira sagt, þá er hitt líka alveg ljóst að það eru mjög ólíkar áherslur að sumu leyti sem þeir hafa sem þarf að tengja saman í kringum náttúrufræðihús, þ.e. Reykjavíkurborg, Háskóli Íslands og ríkið í þessu tilviki. Þess vegna er nauðsynlegt að halda áfram að framkvæma það samkomulag sem tókst um uppbyggingu náttúrufræðihúss á sínum tíma, lítið eða ekki breytt eftir atvikum. Þess vegna vil ég inna hæstv. umhvrh. eftir því. Ég hlýt að segja það hér að þegar menntmrn. átti viðræður við þáv. borgarstjóra í Reykjavík, Davíð Oddsson, þá fékk málið mjög góðar undirtektir Reykjavíkurborgar, mjög góðar undirtektir. Og ég er sannfærður um að í hópi starfsmanna Reykjavíkurborgar, þeirra sem þar eru enn --- sumir eru nú komnir í Stjórnarráðið eins og kunnugt er --- eru margir, menn eins og Jóhann Pálsson grasafræðingur, sem hafa sýnt þessu máli mjög mikinn áhuga, skilning og velvilja. Ég er fyrir mitt leyti alveg sannfærður um það eftir þeirri þekkingu sem ég hef á innviðum Reykjavíkurborgar að þar er mikill áhugi á að vinna að þessu verki. Ég hlýt því að leyfa mér, um leið og ég þakka fyrir frv. og óska því velgengni hér, að spyrja hæstv. umhvrh. hvar það mál er á vegi statt.