Náttúrufræðistofnun Íslands

83. fundur
Þriðjudaginn 18. febrúar 1992, kl. 14:17:00 (3540)

     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þetta frv. Ég átti sæti í síðustu nefnd sem fjallaði um þetta mál og þeirri sem síðasti ræðumaður nefndi sem var undir forsæti Hjörleifs Guttormssonar. Ég hef því komið að þessu máli, á síðustu stigum þess alla vega.
    Það er alveg rétt sem hér kom fram að verkefni nefndarinnar, svokallaðrar NNN-nefndar, var mikið og nokkuð flókið. Það var ekkert auðhlaupið að leysa það verkefni sem menntmrn. fékk okkur í hendur. Við töluðum við fjölmarga, ef ég man rétt voru það hátt á annað hundrað manns sem komu nálægt málinu, og það var ekki auðvelt að taka tillit til allra sjónarmiða, sérstaklega að því er varðaði 4. gr. frv., þ.e. um stjórnunarþáttinn. Það var nokkuð erfitt en okkar mat var að ásættanlegt væri að hafa þetta mál með þeim hætti sem kemur fram í frv. og ráðherra hefur nú skýrt nokkuð vel og tel ég óþarft að fara nánar út í það. Okkar niðurstaða var sú að að engin ein stofnun ætti að vera æðri öðrum. Náttúrufræðistofnun Íslands ætti að vera á mörgum stöðum á landinu en ekki aðeins á einum stað. Hér hafa aðrir lýst þessu og ætla ég ekki að gera það en vil leggja áherslu á að með þessu móti verður auðvitað að efla mjög verulega Náttúrufræðistofnun Íslands og gefa henni aukið hlutverk varðandi umhverfisþætti, umhverfismat og rannsóknir eins og reyndar kom fram í máli hæstv. umhvrh. Ef við ætlum að dreifa þeim litlu fjármunum sem Náttúrufræðistofnun Íslands fær nú á enn fleiri staði, þá er verr af stað farið en heima setið. Auðvitað verðum við með þessu að efla Náttúrufræðistofnun Íslands verulega.
    Ég vil gera að umtalsefni það ákvæði þessara laga sem felst í 8. gr., þ.e. að Náttúrufræðistofnun Íslands geti gerst aðili að sýningarsöfnum. Jafnframt því að þessi grein er þarna er fellt niður það ákvæði úr núgildandi lögum að Náttúrufræðistofnun Íslands skuli koma upp sýningasafni, eins og segir orðrétt og er vitnað til í grg.: ,,að koma upp sýningarsafni, er veiti sem gleggst yfirlit yfir náttúru Íslands og sé opið almenningi``. Ég reikna með að flestir hv. þm. hafi farið upp á Hverfisgötu og skoðað safnið sem þar er. Það er mjög gott safn þó að það sé í þröngum húsakynnum og lítið. Ég vona að sú samvinna sem var sé enn í fullum gangi milli Reykjavíkurborgar, Háskólans og ráðuneytisins að því er varðar sýningarsafn vegna þess að það er alveg ótækt að fella þetta ákvæði úr lögum ef ekkert annað kemur í staðinn. Tillaga okkar var að þetta yrði fellt burtu til þess að það yrði ekki lengur skylda Náttúrufræðistofnunar, sem er auðvitað ákveðin kvöð og kostar peninga, að koma upp sýngarsöfnum. Jafnframt er það alveg sjálfsagt að aðilar eins og Reykjavíkurborg taki þátt í kostnaði við sýningarsöfn á sínu svæði enda stóð alls ekki á því á sínum tíma að Reykjavíkurborg vildi taka þátt í þessum kostnaði. Varla þarf að rekja það, enda gerði hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir það mjög vel, að á Akureyri hafa verið stundaðar rannsóknir og ágætt sýningarsafn er þar sem Akureyrarbær hefur einn rekið eða nánast einn. Okkur, sem þetta frv. sömdum, þótti eðlilegt að ríkið kæmi inn í rannsóknir hvort sem þær eru stundaðar í Reykjavík, á Akureyri eða annars staðar ef fleiri setur verða stofnuð sem ég ætla auðvitað að vona.
    Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta frv., virðulegur forseti. Ég vil lýsa ánægju minni með að það skuli hafa verið tekið til endurskoðunar af ráðuneytinu nú á síðari stigum því að ég var ekki ánægð með frv. eins og það kom frá ráðuneytinu á 113. þingi. Ég vona að það verði að lögum nú og mun ég hafa tækifæri til að fjalla um það enn frekar í umhvn. þar sem ég á sæti.