Náttúrufræðistofnun Íslands

83. fundur
Þriðjudaginn 18. febrúar 1992, kl. 14:41:00 (3543)

     Gunnlaugur Stefánsson :
    Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. umhvrh. fyrir það að leggja þetta frv. hér fyrir þingið og mæla fyrir því. Þetta frv. kveður á um mörg nýmæli og víst er að það mun skipta sköpum fyrir náttúrurannsóknir í landinu og efla þær mjög, ef og þegar að lögum verður. Það hefur komið fram hér að náðst hefur samstaða um flest meginatriði sem áður ollu deilum í þessu frv. Það er skiljanlegt þegar tekist er á um jafnstórt og viðamikið mál og þetta að skoðanir kunni að vera skiptar og það virðist sem nokkuð gott samkomulag hafði náðst um þessi ágreiningsatriði. T.d. er eitt atriði sem rétt er að nefna í þessu sambandi og hlýtur jafnan að vera í umræðunni. Það er hvort höfuðstöðvar Náttúrufræðistofnunar Íslands eigi að vera í Reykjavík. Það er náttúrlega ekkert lögmál sem segir að höfuðstöðvar Náttúrufræðistofnunar Íslands skuli vera í Reykjavík. Hér er að vísu farið inn á nýja leið þar sem Náttúrufræðistofnun getur skipst eða getur verið samsett af fjórum öðrum setrum sem hafa aðsetur úti á landsbyggðinni, auk heimilda í II. kafla laganna um svokallaðar náttúrustofur, sem ég tel mjög merkilegt nýmæli, og getur orðið til þess að koma betra skipulagi á þær náttúrurannsóknir sem nú þegar er staðið að vítt og breitt um landið. En eins og ég segi, það getur alltaf orkað tvímælis þegar um það er að ræða hvort höfuðstöðvarnar eigi að vera í Reykjavík eða ekki. Alla vega þegar við lesum yfir 5. gr. frv. þar sem fjallað er um aðalverkefni Náttúrufræðistofnunar þá kemur manni í hug hvort höfuðstöðvar Náttúrufræðistofnunar ættu ekki betur heima úti í náttúrunni heldur en í Reykjavík. En þetta verður náttúrlega skoðað. Það hlýtur náttúrlega að vera sístætt umræðuefni hvar við setjum slíkar stofnanir niður nema við byggjum yfir þær eins og þessi nefnd, sem undirbjó þetta frv. í upphafi, gerði tillögur um, að byggja stórt náttúruhús í Reykjavík sem átti að kosta nærri einn milljarð króna. Um slíkar fyrirætlanir þarf náttúrlega að ræða þegar að ákvörðun kemur. n ég held að það hafi verið skynsamlegt hjá nefndinni að skipta þessu í tvö aðskilin verkefni. Annars vegar frv. til laga um Náttúrufræðistofnun og svo hins vegar um byggingu náttúruhúss í Reykjavík og blanda þessum tveimur málum ekki saman.
    Í þriðja lagi kemur fram hér í frv. að í skipunarbréfi nefndarinnar hafi verið gert ráð fyrir því að kannaðar yrðu hugmyndir um byggingu náttúrufræðihúss á Akureyri. Það kemur ekki fram í grg. með frv. hver niðurstaða nefndarinnar var í sambandi við athugun á byggingu náttúrufræðihúss á Akureyri en eigi að síður kemur fram í sérstöku áliti sem þessi svokallaða NNN-nefnd lagði fram að fyrirhugað væri að byggja náttúruhús í Reykjavík sem yrði stórt í sniðum og mundi fyrst og fremst hýsa Náttúrufræðistofnun og sjá um sýningarstarfsemi. En hér í þessu frv. er gert ráð fyrir því að sýningarstarfið verði ekki beint á vegum Náttúrufræðistofnunar heldur verði aðalhlutverk stofnunarinnar að efla náttúrurannsóknirnar í landinu.
    Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta að sinni. Þetta verður tekið til gaumgæfilegrar skoðunar í umhvn. og ég vona að störfin þar megi ekki tefja framgang þessa góða máls.