Náttúrufræðistofnun Íslands

83. fundur
Þriðjudaginn 18. febrúar 1992, kl. 15:12:00 (3546)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. einstaklega jákvæðar undirtektir við frv. Hv. þm. Guðrún Helgadóttir undraðist þá samstöðu sem hefði tekist um þetta mál. Ég undrast hana raunar ekki, ég fagna henni og þakka hana. Hún er árangur mjög mikillar vinnu. Eins og komið hefur fram t.d. hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni þá á þetta mál sér mjög langan aðdraganda. Erfitt hefur verið að ná samkomulagi vegna þess að ólík sjónarmið hafa verið um ýmsa meginþætti málsins. Það hefur tekist og ég veit að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefur átt drjúgan þátt í að það samkomulag tókst og ég færi honum þakkir fyrir, vegna þess að hann er mikill áhugamaður um þessi mál. Ég ítreka þakkir fyrir hinar einstaklega jákvæðu undirtektir og ég trúi því að þær muni tryggja þessu máli framgang í þinginu.
    Mig langar að víkja örfáum orðum að nokkrum athugasemdum úr ræðum einstakra þingmanna og skal, virðulegi forseti, vera stuttorður.

    Hv. þm. Jóhannes Geir gerði Landgræðsluna að umtalsefni. Ég ætla ekki að fara langt út í þá sálma enda þótt það sé skylt mál er það kannski ekki einn af meginþáttum þessa máls. Það er vissulega rétt að samband Landgræðslunnar og bænda er mikilvægt. Mikilvægara er samband Landgræðslunnar og almennings í landinu vegna þess að það er auðvitað hlutverk Landgræðslunnar að bæta götin á gróðurkápunni en ekki fyrst og fremst að rækta land til beitar. Það er a.m.k. mitt grundvallarsjónarmið. Ég ætla síðan ekki að hafa fleiri orð um það.
    Vikið var að því hvort höfuðstöðvar ættu að vera í Reykjavík. Þær væru betur komnar úti í náttúrunni en í Reykjavík, sagði hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson. Ég ætla nú með fullri virðingu að benda honum á að í Reykjavík er líka náttúra og merkileg fyrir margra hluta sakir þótt ævinlega megi deila um það hvar eigi að hafa höfuðstöðvar slíkrar starfsemi. Þó hygg ég að með frv. sé gengið lengra til dreifingar og víðtækrar starfsemi víðs vegar um landið en gert hefur verið í mörgum málum. Ég hygg að þetta mál hafi nokkra sérstöðu fyrir það hversu langt er gengið í því einmitt að hafa starfsemina dreifða um landið og dreifa henni um náttúru landsins, ef menn vilja orða það svo, og meðal fólksins í landinu.
    Hv. þm. Guðrún Helgadóttir spurði hvort horfið væri frá hugmyndinni um myndarlegt safn í Reykjavík. Það er ekki. Því er að nokkru svarað á bls. 9 í grg. með frv. En samkvæmt frv. er greint fjárhagslega og rekstrarlega milli rannsóknastarfsemi og varðveislu rannsóknagagna og náttúrugripa til vísindalegra nota annars vegar og sýninga hins vegar. Ég held að þetta sé alveg rétt og eðlileg stefna. Eðlilega hefur sérstaklega verið spurt um náttúrufræðihús í Reykjavík. Hv. þm. Svavar Gestsson beindi til mín spurningum um það og rakti réttilega að í fjárlagafrv. á sínum tíma hefði verið lítilsháttar framlag til náttúruhúss í Reykjavík sem síðan náði ekki fram að ganga og harma ég það.
    Ég vil skýra frá að samstarfshópur, þar sem í eru fulltrúar ríkisins, Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands, hefur unnið að þessu máli og kom saman til fundar á skrifstofu minni 10. febr. sl. þar sem einmitt var rætt um framhald málsins. Niðurstaðan varð sú að litið er á það að ekki var veitt fé í fjárlögum yfirstandandi árs til framhaldsframkvæmda í málinu, sem frestun frekar en höfnun málsins í heild. Um það held ég að ekki sé neinn ágreiningur. Í samstarfshópunum hefur tekist mjög gott samstarf og tekið sérstaklega fram að fyrrverandi borgarstjóri, Davíð Oddsson núv. forsrh., hefði stutt málið vel og dyggilega. Á það skortir heldur ekki frá hendi núverandi borgarstjóra í Reykjavík, Markúsar Arnar Antonssonar. Á þeim fundi sem haldinn var á skrifstofu umhvrh. 10. febr. sl. varð það sammæli að halda undirbúningi málsins áfram þó kannski á nokkuð hægari ferð en gert var fram að áramótum. Til umráða er enn nokkurt fjármagn, ekki mikið að vísu, sem nægir þó til þess að halda áfram að vinna að ítarlegri forsögn um þetta hús þannig að auðnast megi að hafa um það samkeppni eins og ákveðið hefur verið þó að framkvæmdir færist eitthvað lengra inn í framtíðina. Það er auðvitað alveg rétt sem hefur komið fram að við erum með býsna mikið undir í þessum efnum. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum ekki að hefjast handa um byggingu þessa húss fyrr en í samstarfi við samstarfsaðila, Reykjavíkurborg og Háskólann, að við sjáum til lands um að geta lokið verkefninu. En undirbúningsvinnunni verður haldið áfram. Samstarfshópurinn mun starfa áfram, það er vilji allra aðila sem að þessu máli hafa komið. Ég undirstrika mikilvægi þessa samstarfs sem tekist hefur með þremur aðilum, ríkinu, Reykjavíkurborg og Háskólanum, og tel afar brýnt að varðveita það samstarf í góðum anda þannig að þetta mál geti vakað áfram þó þrengingar þessara tíma valdi því að það hefur ekki eins greiðan gang og við hefðum kosið.
    Ég held ekki að ástæða sé til að tíunda hér fleiri atriði. Þau voru raunar ekki svo mörg sem athugasemdir voru gerðar við. Ég tek undir þau orð hv. þm. Tómasar Inga Olrich sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sagði raunar einnig, að slíkt náttúrufræðihús er mjög mikilvægt fyrir margra hluta sakir. Ef við héldum rétt á málum gæti það orðið eins konar musteri hins íslenska umhverfis og umhverfismála á Íslandi vegna þess að náttúrugripasöfn eins og við, sem nú erum á miðjum aldri og þar um kring, þekktum þau í gamla

Náttúrugripasafninu í Safnahúsinu við Hverfisgötu heyra sögunni til. Þessar stofnanir hafa öðlast miklu meiri vídd, breidd og hæð, ef þannig má til orða taka, og gegna miklu víðtækara hlutverki en þær gerðu áður, bæði varðandi fræðslu, boðskap og varðveislu. Þetta hvort tveggja. Ég held, hvernig sem menn líta á málin, að eðlilegt og óraunhæft sé að tala um annað en að slík stofnun rísi á því landshorninu þar sem fólkið er flest og þangað sem flestir koma. Þessi mál eru í rauninni aðskilin með frv. Það var skynsamleg stefna og ég, virðulegi forseti, ætla ekki að hafa orð mín fleiri. Ég ítreka og undirstrika þakkir fyrir þá miklu samstöðu sem hefur tekist um málið og gefur til kynna að það muni eiga greiðan gang í gegnum þingið enda er nú tími til kominn.