Innflutningur dýra

83. fundur
Þriðjudaginn 18. febrúar 1992, kl. 15:35:00 (3553)

     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta frv. en ég vil þó aðeins spyrja hvort það sé eingöngu vegna sparnaðar sem verið er að gera tillögu um þessar breytingar. Ég hélt að ekki væri nema einn sóttvarnardýralæknir til og það væri sá sem væri í Hrísey. En það getur verið að það sé misskilningur hjá mér og vildi ég spyrja að því hvort þeir séu fleiri. Mér þykir mjög mikilvægt ef frv. verður að lögum að þær reglur sem yfirdýralæknir setur verði mjög strangar ef dýr eru í sóttkví eða einangrun eins og

t.d. er gert ráð fyrir í Hrísey. Ef ég veit rétt er þar bæði búfé og eins gæludýr og fleiri dýr sem eru sett í einangrun. Mér finnst mikilvægt að mjög strangar reglur gildi um samgang á milli slíkra einangrunarstöðva og annarra staða þar sem dýr eru vegna þess að okkur er mjög mikilvægt hér á landi að ekki berist smitsjúkdómar frá innfluttum dýrum í búfé okkar.
    Ég vildi aðeins minnast á þetta við 1. umr., virðulegi forseti, og jafnframt spyrja hvort þarna sé eingöngu verið að hugsa um sparnað og hvort það sé mat t.d. yfirdýralæknis að óhætt sé að dýralæknar starfi bæði innan og utan sóttvarnarstöðva. Hefur eitthvað verið rætt um hvers konar reglur þarna verði um að ræða? Ég tel nánast nauðsynlegt að Alþingi fái hugmynd um það áður en það getur samþykkt slíka breytingu hvers konar reglur þarna eru hafðar í huga.