Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við atvinnuleysi í landinu

83. fundur
Þriðjudaginn 18. febrúar 1992, kl. 16:06:00 (3560)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Samkvæmt upplýsingum frá félmrn. voru rúmlega 4 þús. manns atvinnulausir í janúarmánuði 1992 en það er um 3,2% af mannafla. Þetta er mesti fjöldi atvinnulausra sem verið hefur á skrá frá því að skráning atvinnuleysisdaga hófst árið 1975. Þó munar litlu á fjölda atvinnulausra nú og fjölda þeirra sem voru atvinnulausir í janúar 1990 og reyndar er það svo að 1984 í janúar var hærra hlutfall atvinnulausra að heildarmannafla en nú. Skipting atvinnuleysis eftir búsetu og kyni hefur breyst nokkuð síðustu árin. Þannig hefur hlutfall atvinnulausra á höfuðborgarsvæðinu aukist töluvert en minnkað að sama skapi á landsbyggðinni. Nú skiptist atvinnuleysið nánast jafnt milli kynja en undanfarin ár hafa töluvert fleiri konur verið atvinnulausar en karlar. Enda þótt atvinnuleysi í janúar hafi verið mun meira á landsbyggðinni stafar það fyrst og fremst af því að mörg frystihús voru ekki komin í fulla starfsemi eftir jólafrí. Það má því búast við því að talsvert dragi úr atvinnuleysi úti á landi ná næstunni.
    Þá er rétt að hafa í huga að töluvert er um útlendinga í vinnu hérlendis. Samkvæmt spá Þjóðhagsstofnunar er gert ráð fyrir að atvinnuleysi verði um 2,6% af mannafla en það samsvarar því að um 3.400 manns verði atvinnulausir allt árið. Þetta er mun meira atvinnuleysi en mælst hefur hér á landi síðustu áratugina og þarf að leita allt aftur til ársins 1969 til að finna svipaðar atvinnuleysistölur. Þá var atvinnuleysi um 2,5% af vinnuafli.
    Ríkisstjórnin hefur markað stefnu í efnahagsmálum á grundvelli stöðugs gengis sem miðar að því að draga úr ríkisútgjöldum, koma í veg fyrir skattahækkanir, stöðva hallarekstur ríkisins, minnka viðskiptahallann og hemja erlenda skuldasöfnun. Með stefnu ríkisstjórnarinnar er leitast við að skapa atvinnulífinu viðunandi rekstrargrundvöll með almennum aðgerðum. Ríkisstjórnin telur að tími sértækra styrktar- og niðurgreiðsluaðgerða sé liðinn enda ljóst að þess háttar aðgerðir leysa yfirleitt ekki vandamál heldur skjóta þeim einungis á frest. Afleiðingar styrktarstefnunnar eru stóraukin ríkisútgjöld og auknar álögur á almenning, minnkandi framleiðni og óhagræði í rekstri. Og síðast en ekki síst gjaldþrot fyrirtækja og aukið atvinnuleysi. Það er verkefni þessarar ríkisstjórnar að fást við skipbrot þessarar stefnu. Þær fjárhagsskuldbindingar sem lagðar hafa verið á ríkissjóð mörg undanfarin ár verða þungur baggi á skattgreiðendum um ókomin ár. Jafnvel má búast við því að það þurfi að afskrifa 8--10 milljarða kr. vegna lánveitinga og ábyrgða ríkissjóðs hjá ýmsum lánasjóðum. Þetta þrengir að sjálfsögðu verulega svigrúm stjórnvalda og bætist í rauninni við þær efnahagsþrengingar sem þjóðarbúið á nú við að stríða vegna aflabrests og lækkandi afurðaverðs á erlendum mörkuðum. Í samræmi við þá stefnu að stuðla að aukinni framleiðni í atvinnurekstri hefur ríkisstjórnin beitt sér fyrir margvíslegum aðgerðum til að greiða fyrir hagræðingu. M.a. má nefna breytingar sem gerðar voru á reglum Fiskveiðasjóðs sl. sumar til að gera honum kleift að veita sérstök hagræðingarlán til fyrirtækja í sjávarútvegi. Jafnframt var ákveðið að létta undir með rekstri sjávarútvegsfyrirtækja með skuldbreytingum og lánalengingu, bæði í Fiskveiðasjóði og í Byggðasjóði. Þá var ákveðið að fresta tímabundið inngreiðslum sjávarútvegsfyrirtækja í Verðjöfnunarsjóð í ljósi lækkandi afurðaverðs á mörkuðum erlendis.
    Þessar aðgerðir miða að því að auka hagræðingu í sjávarútvegi enda er vandi þeirrar atvinnugreinar ekki einungis minnkandi afli og lækkandi afurðaverð heldur einnig skipulagsvandi sem kallar á sérhæfingu, samvinnu eða sameiningu fyrirtækja og betri nýtingu hráefnis. Það er nauðsynlegt að greiða fyrir þessum breytingum þannig að ekki komi til röskunar á byggð landsins.
    Í tengslum við framtíðarhorfur í atvinnumálum er rétt að benda á mikilvægi þess að samningar um Evrópska efnahagssvæðið takist þar sem þeir munu opna ýmsa möguleika á Evrópumarkaðnum, bæði fyrir sjávarafurðir og reyndar eins og ekki síður fyrir ýmsar aðrar atvinnugreinar og starfsemi eins og t.d. á sviði menntunar og rannsókna sem geta komið atvinnulífinu til góða. Í því sambandi er rétt að geta þess að framtíð íslensks útflutnings og framleiðni í atvinnulífinu hlýtur að byggjast á því fyrst og fremst að við aukum gæði framleiðslunnar því að varla verður um miklu meira magn að ræða, sérstaklega ekki þegar um sjávarfang er talað.
    Þá má einnig minna á að ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir aðgerðum á öðrum sviðum til þess að liðka fyrir frjálsri atvinnustarfsemi í landinu, svo sem um þróun svonefndra pappírslausra viðskipta og opnun frísvæða. Niðurstaðan er því sú að með stefnu ríkisstjórnarinnar er lagður grunnur að stöðugleika og bættum rekstrarskilyrðum atvinnulífs og heimila. Með gengisfestu er stuðlað að lækkun verðbólgunnar, með minni hallarekstri ríkisins og minni lántökum opinberra aðila er lagður grundvöllur að lækkun vaxta á fjármagnsmarkaði. Þetta er ekki auðvelt verk. Ytri aðstæður eru erfiðar og því reynir enn frekar á efnahagsstjórnina.
    Ríkisstjórnin hefur þurft að grípa til óvinsælla aðhaldsaðgerða. Á síðustu vikum hefur árangur stefnunnar hins vegar verið að koma í ljós. Verðbólgan hefur lækkað verulega og sama máli gegnir um nafnvexti. Verðlagsþróunin það sem af er árinu er hagstæðari en gert var ráð fyrir í fjárlögum. Samkvæmt síðustu tölum er árshraði verðbólgunnar kominn niður í 2,5% ef tekið er mið af meðalhækkun vísitölunnar síðustu þrjá mánuði. Það liggur fyrir að gjaldskrárbreytingar ríkisfyrirtækja eru að mestu leyti komnar fram og fram til áramóta má gera ráð fyrir að áhrif þeirra á verðlag verði nálægt núlli vegna niðurfellingar jöfnunargjalds. Miðað við þessa þróun og launaforsendur fjárlaga gæti hækkunin frá upphafi til loka ársins orðið nokkuð minni en áður var áætlað eða innan við 2,5% og meðalhækkunin milli ára gæti orðið um 4,5%. Til samanburðar má nefna að í síðustu spám OECD, sem eru frá því í desember 1991, er gert ráð fyrir að verðbólgan verði að meðaltali 5% í Evrópuríkjum OECD á árinu. Miðað við þessar tölur er Ísland því komið í hóp þeirra Evrópuþjóða sem hafa lægsta verðbólgu. Þetta er auðvitað verulegur árangur.
    Ríkisstjórnin einsetti sér strax í upphafi ferils síns að draga úr beinni fjárþörf hins opinbera og skapa þannig skilyrði til lækkunar vaxta samhliða stöðugleika í efnahagsmálum. Á þeim tíma sem liðinn er hefur tekist að ná fram miklum breytingum á lánamarkaði. Á árinu 1991 er talið að hrein lánsfjárþörf opinberra aðila hafi orðið um það bil 40 milljarðar kr. í stað 24,4 milljarða samkvæmt lánsfjáráætlun. Nú er hins vegar áætlað að hrein lánsfjárþörf opinberra aðila verði innan við 20 milljarðar kr. eða helmingi minni en á síðasta ári. Með auknum stöðugleika í efnahagsmálum og lækkandi verðbólgu hefur tekist að ná fram verulegri lækkun nafnvaxta. Þannig hafa forvextir víxla lækkað úr tæplega 21% í ágúst niður í 12,5--15% nú í byrjun febrúar. Hvað raunvexti varðar þá er ljóst að áhrif þessara umskipta á lánsfjárþörf hins opinbera eru þegar farin að koma fram á lánamarkaði. Þannig hefur verulega dregið úr eftirspurn eftir húsbréfum, bæði vegna fasteignaviðskipta og nýbygginga. Fyrirgreiðsla Seðlabanka vegna ríkissjóðs er nú um miðjan febrúar um 2,8 milljarðar en nam 8,3 milljörðum á síðasta ári á sama tíma. Þá hefur lausafjárstaða viðskiptabankanna verið að batna og er lausafjárhlutfall nú um 13,1% samanborið við tæp 10% á sama tíma í fyrra. Áhrif þeirrar stefnu ríkisstjórnarinnar að draga úr útgjaldaþörf ríkisins á eftirspurn opinberra aðila eftir lánsfé eru þannig farin að skila sér. Þetta gefur tilefni til þess að stíga fyrsta skrefið í átt til lækkunar raunvaxta. Því hefur ríkisstjórnin ákveðið að ríða á vaðið og lækka vexti á spariskírteinum um tæplega 0,5% frá og með morgundeginum, úr 7,9% í 7,5%. Þessi ákvörðun er tekin í ljósi markaðsaðstæðna og stöðu lánamarkaðarins og í trausti þess að henni fylgi lækkun hjá bönkum og verðbréfafyrirtækjum. Jafnframt ætti þessi lækkun að gefa tilefni til enn frekari lækkunar nafnvaxta á næstunni. Þessi vaxtalækkun sýnir hve mikilvægt það er að ríkisstjórnin haldi fast við þá stefnu að draga úr lánsfjárþörf hins opinbera og skapa þannig aukið svigrúm fyrir atvinnulíf og heimilin í landinu. Ríkisstjórnin mun því áfram leggja kapp á að viðhalda þeim stöðugleika sem náðst hefur og skapa atvinnulífinu betri starfsskilyrði í skjóli lægri vaxta. Það er mikilvægt að þessu jafnvægi verði ekki raskað í komandi kjarasamningum þannig að það takist að lækka vexti enn frekar á árinu.
    Brýnustu verkefnin á næstunni eru mörg. Meginmarkmiðið hlýtur þó ekki síst að vera í komandi kjarasamningum að verjast þeim áföllum sem við blasa á þessu ári, sérstaklega gagnvart þeim sem búa við kröppust kjör. Besta ráðið er að tryggja sem mestan stöðugleika í verðlagsmálum. Þjóðarsáttarsamningarnir skiluðu íslensku þjóðinni ótvírætt meiri kjarabótum en hefðbundnir verðbólgusamningar hefðu gert. Þess vegna þarf að byggja ofan á þjóðarsáttarsamningana með raunsæjum kjarabótum. Varanlegustu kjarabæturnar felast í stöðugu verðlagi og lægri vöxtum. Þannig er einnig hægt að tryggja atvinnulífinu öruggan restrargrundvöll og koma í veg fyrir atvinnuleysi.
    Ríkisstjórnin hefur á fundum sínum rætt atvinnuástandið ítarlega. Ríkisstjórnin mun á næstunni halda áfram að kanna horfur í atvinnumálum í samvinnu við sveitarfélög og aðila á vinnumarkaði. Það verk verður unnið undir stjórn félmrh. í samráði við ráðherra einstakra atvinnugreina. Brýnasta verkefnið hlýtur þó að vera að laga útgjöld þjóðarinnar að minnkandi tekjum og draga þannig úr skuldasöfnun hennar. Takist okkur að halda verðlagi í skefjum, lækka vexti og örva atvinnulífið til ábatasamra verkefna sköpum við á nýjan leik skilyrði fyrir hagvöxt og batnandi lífskjör. Því fyrr sem víðtæk samstaða næst um þetta markmið ríkisstjórnarinnar, þeim mun auðveldara verður fyrir þjóðina að vinna sig út úr vandanum.