Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við atvinnuleysi í landinu

83. fundur
Þriðjudaginn 18. febrúar 1992, kl. 17:49:00 (3573)

     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Þetta hafa á margan hátt verið fróðlegar umræður. Okkur er í fersku minni þegar ríkisstjórnin var mynduð og ráðherrar hennar riðu úr hlaði í sína örlagamiklu ferð. Þá veitti þjóðin því athygli að ráðherrarnir sátu öfugir í hnakknum þegar þeir riðu úr hlaði frá Bessastöðum. Þegar þeim var bent á mistök sín ( Gripið fram í: Þetta voru latar bikkjur, þeir þurftu að lemja í rassinn á þeim.) svöruðu þeir ábúðafullir: Hvað vitið þið hvert við erum að fara? Þannig sitja þessir heiðursmenn enn, því miður, og það sem verra er að í stað þess að halda nokkuð traustum höndum um tauminn þá sitja þeir öfugt og halda fast í reiðann. Og það er alvarlegt mál og slæmt. En við þetta má þjóðin búa.
    Vitaskuld er frammistaða ríkisstjórnarinnar í þessum málum hörmuleg og langverst er að það virðist hvergi nokkurs staðar vera glætu að sjá, nánast hvergi nokkurs staðar vonarneisti nema það sem hæstv. iðnrh. gat um. Þar er greinilega farið að birta af degi. Satt að segja datt mér í hug að kosningar væru í nánd. Auðvitað er gott að slá svona hugmyndum fram og vonandi verður eitthvað að veruleika sem þar var sagt, en við skulum fara með gát. Nógur var skaðinn þegar rætt var um álver, bæði fyrir norðan og sunnan. Það er nógur tími að telja fólkinu trú um þessa þætti þegar meira og betur hefur verið að þeim unnið.
    Hæstv. fjmrh. og núsitjandi forsrh. segja að dregið hafi úr atvinnuleysinu. Þetta er rangt og sem verra er, þetta sýnir okkur hversu lítið ríkisstjórnin hefur hugsað um þessi mál. Það er hið alvarlega í málinu. Ég vitnaði í orð formanns stjórnar Vinnuveitendasambandsins. Menn hafa vitnað í skrif hv. þm. Vilhjálms Egilssonar, hvað hann segir um málið. Menn hlustuðu á hvað hæstv. félmrh. sagði um þessi mál, vantalin í upptalningunni um 1.300 störf og ástandið verulega dökkt. Þannig veldur það mér miklum áhyggjum að hæstv. ráðherrar og hv. þm., stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar, virðast ekki tala sama mál. Er þetta allur áhuginn á því sem er að gerast í landinu?
    Ég má ekki gleyma því sem hæstv. sjútvrh. sagði, og er trúlega með því merkilegra sem komið hefur fram í umræðunni, að þær dapurlegu niðurstöður sem hæstv. sjútvrh. kom með benda til þess að ástandið sé ekki glæsilegt. En hvernig má vera að við þessi starfsskilyrði sem sjávarútveginum eru búin og kannski mestar vonir bundnar við --- og ég fullyrði að þar liggja milljarðatugir í möguleikum í sjávarútvegi ef menn hafa skilning á að taka á þeim málum og reyna að nýta þá möguleika sem þar eru fyrir hendi --- en því gengur hæstv. fjmrh. þá fram fyrir skjöldu með því að leggja fleiri milljarða í nýjum álögum á sjávarútveginn eins og gert var nú í vetur þrátt fyrir stórminnkandi afla? Ég tala ekki um þann mikla fjármagnskostnað sem fyrirtækin mega búa við. Ég nefni það að auðlindaskattur var lagður á til þess að þjónka Alþfl. og svínbeygja þá sjálfstæðismenn sem vildu berjast gegn þeirri gjaldtöku. Hvers lags stjórn er þetta sem hér situr?
    Atvinnustefna ríkisstjórnarinnar er greinilega engin og atvinnulífið er því miður á undanhaldi. Hæstv. iðnrh. gat þess áðan að verðbólgan væri lægri en fyrr og þakkaði þjóðarsátt. Ég er sammála því. Ég gat um það í mínum upphafsorðum. En ég spyr aftur á móti

og spurði um það í mínum upphafsorðum: Hvað hefur ríkisstjórnin og hæstv. ráðherrar gert til þess að reyna að tryggja nýja þjóðarsátt? Ekkert hefur komið fram í umræðunni sem bendir til þess nema orð hæstv. fjmrh. áðan að vextir verði lítillega lækkaðir á morgun. Eftir að hafa hækkað vextina á atvinnuveginn, sjávarútveginn, ekki um hundrað milljónir heldur um hundruð milljóna, trúlega milljarða, koma þessir menn og gorta af því að á morgun eigi lítillega að lækka vexti.
    Hæstv. iðnrh. segir að atvinnulífið muni trúlega skila litlum bata. Það er eftir því, hæstv. ráðherra, hvernig menn snúa sér að þessum málum og vinna að þeim. Ég fullyrði, og sagði það rétt áðan, að í möguleikum í sjávarútveginum einum liggja milljarðar. En það þarf að vinna að og nýta þá möguleika.
    Hæstv. iðnrh. nefndi einnig skipasmíðaiðnaðinn og að því þurfi að vinna að endurreisa hann. Hver eru afrekin þar? Trúlega er verið að byggja 3 eða 4 ný skip í dag fyrir Íslendinga og a.m.k. tvo báta. Allt eru þetta verksmiðjuskip sem eiga að fullvinna aflann úti á sjó. Slippstöðin sem var með 300 manns í vinnu er nú með rétt um 100 manns. Getur það hafa verið tilviljun að Fiskveiðasjóður samþykkti þessa samninga alla eftir síðustu kosningar? Er þetta viljinn til þess að styrkja íslenskan skipaiðnað? Öll nýsmíðin er flutt úr landi. Og ég spyr: Hver er stefna ríkisstjórnarinnar varðandi endurnýjun togaraflotans sem allir sjáandi menn hljóta að sjá að er á næsta leiti? Hvar hefur sú umræða farið fram? Hvergi. Hún hefur hvergi farið fram. Er það virkilega atvinnustefna þessarar ríkisstjórnar að skera niður framkvæmdafé til Byggðastofnunar stórlega, skera niður Framleiðnisjóð landbúnaðarins um 340 millj. kr. sem átti þó að verða til þess að auka atvinnutækifæri í sveitum landsins? Nei, virðulegi forseti. Hægt væri að halda lengi áfram og skeggræða við þessa ríkisstjórn um atvinnukostina og ráðaleysið sem hér hefur ríkt um of langan tíma.
    Ég vil segja að lokum, virðulegi forseti, að þótt tíma mínum sé lokið, hefði ég haft áhuga á því að fá að ræða aðeins við hæstv. sjútvrh. um þá stórmerkilegu ræðu sem hann flutti hér. Ég sé ekki annað, eftir að hafa hlýtt á þau orð, en að við séum tilneyddir til þess. Við berum ábyrgð og umræða um þann vanda sem þar liggur fyrir verður að fara hér fram. Hún á að fara hér fram en ekki í einhverri nefnd úti í bæ. Hér er um svo mikið og stórt alvörumál að ræða að alþingismenn geta ekki látið það líða hjá.
    Það sem út úr þessari umræðu kemur er vissulega dapurlegt. Það eru engin svör við því hvernig ríkisstjórnin hyggst bregðast við því atvinnuleysi sem orðið er í landinu. Það sem hefur komið upp er að atvinnuleysið er meira en birt hefur verið, það er staðfest af ráðherra. Og til viðbótar: Spá ráðherra ríkisstjórnarinnar er um það að atvinnuleysið eigi eftir að vaxa verulega enn. Þrátt fyrir það sýna ráðherrar enga tilburði til þess að bregðast hér við.
    Virðulegi forseti. Ég skal nú ljúka máli mínu. Þessi ríkisstjórn á hins vegar ekki um marga kosti að velja. En versti kosturinn fyrir þjóðina er örugglega sá að hún sitji mikið lengur. Það er versti kosturinn.