Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við atvinnuleysi í landinu

83. fundur
Þriðjudaginn 18. febrúar 1992, kl. 18:37:00 (3586)

     Jón Kristjánsson (um þingsköp) :
    Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar að þegar þingflokksformenn gera samkomulag eigi að standa við það. Hins vegar eiga forsætisnefndin og þingflokksformenn að draga ályktanir af þeirri umræðu sem hefur farið fram. Það er náttúrlega algerlega ófært að ekki sé hægt að veita andsvör við lokaræðu í umræðu eins og hér fór fram.
    Ég tek þátt í umræðunni vegna þess að ég vil láta það koma fram að mér finnst einkennilegt að það sé á brattann að sækja að fá umræðu um þetta mál sem hér var á dagskrá samkvæmt síðari mgr. 50. gr. um umræður utan dagskrár en þessi utandagskrárumræða byggist á 50. gr. þingskapanna. Í síðari mgr. segir að hægt sé að leyfa utandagskrárumræður um mikilvæg og aðkallandi mál og þá mega þingmenn tala í 15 mínútur hver. Búið er að takmarka umræðuna frá því sem var frá þingsköpunum 1985 með nýjum þingsköpum. En greinileg tregða er á því að veita þessa lengri umræðu og þarf trekk í trekk að semja sig áfram. Hvað eru mikilvæg og aðkallandi mál ef ekki það hraðvaxandi atvinnuleysi í landinu sem hefur verið lýst hér? Auðvitað er það mikilvægt og aðkallandi mál og ekki á að þurfa að standa í hörkusamningum til þess að fá lengri utandagskrárumræðu um það. Ég veit ekki hvað er aðkallandi mál ef ekki það þegar þúsundir manna eru atvinnulausar í landinu.
    Þetta vildi ég láta koma fram en að öðru leyti á auðvitað að standa við samkomulag sem þingflokksformenn hafa gert og ég vona að menn dragi ályktanir af þeirri þingskapaumræðu sem hefur farið fram.