Ummæli menntamálaráðherra í fjölmiðlum um störf kennara

84. fundur
Miðvikudaginn 19. febrúar 1992, kl. 15:28:00 (3596)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að kveðja mér hljóðs vegna þeirra ásakana sem hæstv. menntmrh. hefur borið fram opinberlega á eina stétt landsmanna, kennarastéttina. Það má segja að ásakanir hans séu þríþættar.
    Í fyrsta lagi að kennaramenntun í landinu sé áfátt að verulegu leyti. Ég vil því spyrja hæstv. menntmrh.: Hvað er það sem er áfátt við kennaramenntun landsins og hvernig hyggst hann bæta þar úr?
    Í öðru lagi ber hann á kennara og skólastjórnendur að hafa ófrægt menntamálaráðherra persónulega og ríkisstjórnina í kennslustundum að undanförnu.
    Í þriðja lagi ber hæstv. menntmrh. það á kennara og skólastjórnendur að hafa gefið nemendum frí til að geta tekið þátt í útifundi grunnskólanema í síðustu viku á Lækjartorgi.
    Þegar maður skoðar ummæli hæstv. ráðherra er ljóst að öll þessi þrjú atriði eru ákaflega alvarleg. Þau eru alvarleg fyrir kennara, þau eru alvarleg fyrir skólastjórnendur og þau eru sérstaklega alvarleg fyrir foreldra. Ef það er svo, sem hæstv. ráðherra fullyrðir, að starfsmenn hans hafi brotið sínar starfsskyldur og farið þar út fyrir, þá ber honum að sjálfsögðu að taka þau mál upp og fylgja þeim eftir með venjulegum hætti samkvæmt lögum og samningum. Ég kæri mig ekki um það sem foreldri að þeir kennarar sem kenna mínum börnum liggi undir ámæli frá hæstv. menntmrh. um að misnota aðstöðu sína til innrætingar börnum mínum.
    Eftir stendur þegar saman eru dregin ummæli hæstv. ráðherra undanfarna daga eftirfarandi fimm atriði:

    Í fyrsta lagi. Skólastjórnendur höfðu gefið nemendum frí til að sækja fund grunnskólanemenda á Lækjartorgi. Þó tekur hæstv. ráðherra fram að honum hafi borist sú vitneskja að einhverjir skólastjórnendur muni hafa neitað því þannig að það eigi ekki við þá alla.
    Í öðru lagi. Kennarar gáfu nemendum frí í sama tilgangi og stóðu á bak við útifundinn.
    Í þriðja lagi stendur sú ásökun að samtök kennara önnur en Kennarasamband Íslands stæðu á vissan hátt á bak við fundinn.
    Í fjórða lagi. Kennarar hafa notað kennslustundir til þess að ófrægja aðgerðir ríkisstjórnarinnar og menntamálaráðherra persónulega, þó ekki sé þar öll kennarastéttin að verki, svo vitnað sé í bréf hæstv. ráðherra til Kennarasambandsins og fjölmiðla fyrir tveimur dögum.
    Í fimmta lagi stendur það eftir sem fram hefur komið hjá hæstv. ráðherra að hann geti ekki sannað mál sitt, en þeir taki það til sín sem eiga.
    Ég vil segja að það er óviðunandi að skilja málið eftir með þessum hætti því að allir sem starfa að þessum málum hljóta að liggja undir grun ef ekki er meira gert í málum eða hæstv. ráðherra dragi til baka þessar fullyrðingar sínar ef það er svo sem hann sjálfur heldur fram að hann geti ekki sannað þær.
    Ég vil segja, virðulegi forseti, að lokum að þessi áróðurslota síðustu daga af hálfu hæstv. menntmrh. og reyndar aðstoðarmanns hans í garð kennara hefur vakið mig til umhugsunar um viðbrögð ráðherra í ríkisstjórn Íslands að undanförnu. Ég skoða þessi viðbrögð í því ljósi að hæstv. heilbrrh. réðist sérstaklega að fjölmiðlum fyrir tveimur vikum. Ég skoða það í því ljósi að hæstv. menntmrh. réðist á fréttastofu útvarpsins fyrir nokkru og sakaði hana um það að vera of oft hlutdræg. Og ég skoða þau í því ljósi sem hæstv. samgrh. lét falla í blöðum fyrir nokkru að ef menn sýndu mótþróa, þá verði einfaldlega að keyra yfir þá, virðulegur forseti.