Lánasjóður íslenskra námsmanna

84. fundur
Miðvikudaginn 19. febrúar 1992, kl. 18:18:00 (3609)

     Sigríður A. Þórðardóttir :
    Virðulegi forseti. Frv. um Lánasjóð ísl. námsmanna hefur nú verið til umfjöllunar hér í þinginu í rúma viku. Mjög margir þingmenn hafa látið í ljós skoðun sína á þeim breytingum á starfsemi lánasjóðsins sem lagðar eru til í frv. Þessi umræða hefur verið gagnleg og málefnaleg. Það hefur og komið glöggt fram að skoðanir manna eru skiptar um þetta mikilvæga mál. Eitt hygg ég þó að allir séu sammála um. Það er aðgerða þörf í starfsemi sjóðsins til að tryggja tilvist hans í framtíðinni. Um þetta eru menn ekki bara sammála hér á Alþingi heldur einnig námsmennirnir sjálfir sem eiga beinna hagsmuna að gæta, svo og almenningur í landinu.
    Hver er hann svo, þessi vandi sem allir eru að tala um? Hann er fólginn í því að á liðnum árum hafa ríkisstjórnir Íslands ekki verið reiðubúnar að leggja sjóðnum til þá fjármuni sem hann hefur þurft til starfsemi sinnar á hverjum tíma, heldur hefur hann orðið að taka lán til að brúa bilið og standa við skuldbindingar sínar gagnvart námsmönnum. Það segir sig sjálft að þegar svo er komið að um 55% af ráðstöfunarfé sjóðsins er tekið að láni, þá er hætta á ferðum og ef haldið verður áfram á sömu braut endar það aðeins á einn veg, þ.e. sjóðurinn verður gjaldþrota. Þetta er ástæðan fyrir erfiðleikum sjóðsins sem er engin ný bóla heldur vandi sem menn hafa lengi ýtt á undan sér og skotið sér undan að leysa.
    Á undanförnum árum hefur námsmönnum fjölgað sem er út af fyrir sig mikið gleðiefni en að sama skapi hefur lánþegum Lánasjóðs ísl. námsmanna fjölgað jafnt og þétt. Sú spurning vaknar við að skoða málefni lánasjóðsins hvort öll þessi lán séu tekin af þörf. Ég hygg að málið horfi einfaldlega svo að það taka nánast allir námslán hvort sem þeir hafa þörf fyrir þau eða ekki vegna þess að lánin eru svo hagstæð. Það er engin hvatning í þessu kerfi til að taka ekki lán. Stór hluti lánanna er í raun styrkir vegna endurgreiðslureglna og þess að þau bera ekki vexti. Þeir sem taka hæstu lánin fá mestu styrkina. Ég hef raunar lengi talið að athuga bæri að koma upp styrkjakerfi samhliða námslánum.
    Að lokinni þessari 1. umr. fær menntmn. frv. til umfjöllunar. Mér þykir líklegt að frv. eigi eftir að taka einhverjum breytingum í meðferð nefndarinnar. Það er a.m.k. ljóst að mikil vinna er fram undan í þessu mikilvæga máli sem snertir hverja einustu fjölskyldu í landinu.
    Það hefur verið deilt á ríkisstjórn og menntmrh. í umræðum um lánasjóðinn utan þings og innan. Ýmsir hafa haldið því fram að vegið væri að jafnrétti til náms. Þá finnst mér hátt reitt til höggs því að meginmarkmið frv. er í raun að koma sjóðnum til bjargar, að tryggja áfram jafnrétti til náms og styðja við menntun í landinu sem enginn deilir lengur um að er besta fjárfesting í framtíðinni sem til er í nútímaþjóðfélagi.