Lánasjóður íslenskra námsmanna

84. fundur
Miðvikudaginn 19. febrúar 1992, kl. 18:22:00 (3610)

     Finnur Ingólfsson :
    Þingforseti. Ég kveð mér aðeins hljóðs vegna þeirra umræðna sem nú hafa farið fram, vegna orða hv. 10. þm. Reykn. og 1. þm. Vesturl.
    Ég vil taka undir það með hv. 1. þm. Vesturl., Sturlu Böðvarssyni, að það er afskaplega mikilvægt í þessari stöðu að 3. gr. frv. verði lagfærð þannig að það sé ljóst að það eigi að taka tillit til aðstæðna námsmanna á meðan á námi stendur. Þar þarf að skilgreina hverjar þessar aðstæður eru, t.d. tekjur, búseta og fjölskyldustærð. Verði það ekki gert býður greinin upp á það eins og hún er hér orðuð að það verði hætt að taka tillit til allra þessara aðstæðna þegar stjórn sjóðsins tekur ákvörðun um hverjum skuli lánað.
    Þá kem ég að því að mér fannst gæta mikils misskilnings í orðum hv. 10. þm. Reykn. þegar hún sagði að það tækju auðvitað allir lán af því að lánin væru svo hagstæð. Það eru hins vegar þær fyrirstöður í lögunum í dag og í útlánareglunum að það fá ekki allir lán. Það er tekið tillit til aðstæðna námsmanna á meðan á námi stendur og þess vegna fá ekki allir lán. Verði 3. gr. hins vegar ekki breytt og það skilgreint hverjar aðstæður námsmanna eru, þá geta allir farið að taka lán. Og vextirnir sem eru 3% munu auðvitað engu stjórna um það hverjir taka lánin og hverjir ekki vegna þess að allir munu taka lán ef vextirnir verða 3% og allir geta fengið lán vegna þess að þeir geta ávaxtað það lán sem þeir fá úr lánasjóðnum miklu betur annars staðar og taka þess vegna lán þó þeir þurfi ekki á þeim að halda. Þannig að þetta er atriði sem verður að skilgreina.
    Mér finnst að menntmrh. þurfi að svara þeirri spurningu, og það bið ég hann um að gera, hvers vegna er verið að setja 3% vexti á námslánin? Og hvernig lítur hann á og hefur hann litið á að hafi verið tilgangurinn með vaxtaleysi námslánanna eins og þau hafa verið? Ég tel að það hafi verið skilningur manna á því að vaxtaleysi lánanna væri til komið vegna þess að menn litu svo á að það væri framlag ríkisvaldsins til menntunar í þjóðfélaginu og þess vegna bæru þessi lán ekki vexti. Ætli menn hins vegar nú að stíga það skref að leggja vexti á námslánin þá er það alveg ljóst að það er bara verið að stíga fyrsta skrefið með 3% vöxtum. Það mun síðan smátt og smátt hækka þegar ríkisstjórn og menntamálaráðherra á hverjum tíma treystir sér ekki til að standa við það ríkisframlag sem upphaflega átti að vera stór hluti af því sem lánasjóðurinn gat vænst frá ríkinu.
    Ég heyrði reyndar ekki svar hæstv. menntmrh. við þeirri fyrirspurn minni hér við umræðuna fyrr hver væri hans afstaða til þess að hafa annað endurgreiðslufyrirkomulag á lánum til þeirra sem hafa notið aðstoðar lánasjóðsins og ekki koma heim frá námi. Ef svo er litið á að vaxtaleysi námslánanna sé framlag ríkisins til menntunar í þjóðfélaginu sem síðar muni endurgreiðast með aukinni þekkingu sem kemur

inn í samfélagið með námsmönnum, þá get ég verið menntmrh. sammála og þá finnst mér vera eðlilegt að námsmenn eða þeir sem ljúka námi og hafa fengið aðstoð sjóðsins til þess en koma ekki heim og skila þar af leiðandi engu inn í íslenskt þjóðarbú, hvorki í sköttum né aukinni þekkingu, greiði vexti á sín lán og greiði þau jafnvel hraðar til baka því ef þeir gera það ekki og menn líta á vextina sem framlag ríkisins til menntunar, þá er auðvitað hægt að líta á vaxtaleysi á lánunum til þessara manna í raun og veru sem útflutningsbætur Íslendinga með námsmönnum erlendis og það er auðvitað það sem við ætlum ekki að gera.
    En ég ítreka það og tek hér undir hvert einasta orð sem hv. 1. þm. Vesturl. talaði hér um. Það sem þarf að skoða er 3. gr. um aðstæðurnar, það eru vextirnir á lánin og það er iðnmenntunin sem í raun og veru er verið að kippa fótunum undan í fjölbrautaskólunum og stuðningi almennt við iðnmenntun í landinu ef menn ætla að taka hana út úr aðstoð sjóðsins.