Lánasjóður íslenskra námsmanna

84. fundur
Miðvikudaginn 19. febrúar 1992, kl. 18:28:00 (3611)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Herra forseti. Þessi umræða um Lánasjóð ísl. námsmanna hefur staðið alllengi hér á þingi og þarf kannski engan að undra það því að hér er slíkt stórmál á ferðinni að það þarf auðvitað mjög ítarlega umræðu. É g ímynda mér að það séu margir þingmenn sem vilji láta þetta mál til sín taka áður en það fer í nefnd því að þar eru aðeins níu þingmenn sem um það fjalla.
    Hér hefur mikið verið talað um vanda Lánasjóðs ísl. námsmanna. Ráðherra og talsmenn ríkisstjórnarinnar almennt hafa gert mikið úr þessum vanda og sagt að verði hann ekki leystur með þeim hætti sem lagt er til í þessu frv. þá muni sjóðurinn verða gjaldþrota áður en yfir lýkur og þá verði ekki hægt að tryggja neitt jafnrétti til náms vegna þess að peningarnir verða ekki til. Þetta er það sem margir hafa talað um sem fortíðarvanda og ætla ég að leyfa mér að nota það hugtak þó að það fari hugsanlega fyrir brjóstið á einhverjum þingmönnum.
    Þessi svokallaði fortíðarvandi felst í lántökum lánasjóðsins á undangengnum árum, lántökum sem sjóðurinn hefur farið út í vegna þess að ríkisvaldið hefur ekki séð honum fyrir þeim fjárframlögum sem þurfti miðað við úthlutunarreglur sjóðsins. Það segir sig auðvitað sjálft, og það hefðu menn mátt vita þegar farið var út í þessar lántökur, að þetta hlaut að enda illa. Um margra ára bil hefur Lánasjóður ísl. námsmanna verið að taka lán á markaðsvöxtum og endurlána þessa peninga vaxtalaust. Ég vil minna á það að árlega varaði Kristín Halldórsdóttir, sem þá var þingkona Kvennalistans, við því að þetta væri gert. Árlega við afgreiðslu fjárlaga varaði hún við því hér á Alþingi að þetta væri gert og benti á að þetta hlyti að fara illa. Ég held að hún hafi gert þetta öll þau ár sem hún sat á Alþingi.
    Vegna þess vanda sem talað er um varðandi lánasjóðinn og kallaður er fortíðarvandi langar mig aðeins að fara aftur í tímann, til áranna 1974--1976, og rifja upp þegar umræða átti sér stað hjá námsmönnum og hér á Alþingi um nýja tilhögun námslána, þegar vísitölutryggingu námslána var komið á hér á Alþingi. Þá stóð auðvitað mikill styrr um það mál vegna þess að námsmannahópurinn, sem hafði verið í námi á undan okkur sem þá vorum að byrja háskólanám, hafði fengið námslán á að því er mig minnir 5% vöxtum og þau lán voru ekki vísitölutryggð og þau brunnu að sjálfsögðu upp í verðbólgunni á þeim árum. Þá var okkur sagt að þarna væri fortíðarvandi á ferðinni og við yrðum að taka þetta á okkur. Við yrðum að sæta því að fá lán með öðrum kjörum og við yrðum að sæta því að greiða okkar lán að fullu til baka. Auðvitað voru menn misánægðir með það en þetta var gert og við trúðum því þá staðfastlega að við værum að fallast á það að greiða lánin okkar til baka, hverja einustu krónu, flest hver, vegna þess að þetta var vísitölutryggt og við ætluðum að greiða aftur það sem við höfðum fengið að láni. Þá óraði okkur auðvitað ekki fyrir því að farið yrði með sjóðinn eins og gert hefur verið. Okkur óraði ekki fyrir því að það yrðu tekin lán til þess að fjármagna sjóðinn á markaðsvöxtum. Það var enginn sem orðaði það. ( ÓÞÞ: Á hvaða vöxtum var gert ráð fyrir að slík lán yrðu tekin?) Það var ekki gert ráð fyrir yfirleitt að það væru lántökur sem fjármögnuðu sjóðinn heldur framlög frá ríkinu. ( ÓÞÞ: Þetta er rugl hjá ræðumanni.) Þú kemur þá hér upp og rekur það eins og þú kannt þá sögu, ég rek hana eins og ég kann hana frá námsmannahlið á þessum árum.
    Vandi lánasjóðsins, þessi svokallaði fortíðarvandi, sem mér finnst oft talað um hér sem vanda bara Lánasjóðs ísl. námsmanna og vanda námsmanna, er miklu frekar almennur útgjaldavandi ríkissjóðs sem við er að etja. Það var ekkert sjálfgefið að Lánasjóður ísl. námsmanna yrði fjármagnaður með lántökum en ekki einhver önnur starfsemi hins opinbera, þ.e. ríkisins. Það er ekkert sjálfgefið að lánasjóðurinn yrði einhvers konar afgangsstærð og menn segðu: Nú höfum við sett fjármagn í þessa þjónustu og hina og nú eigum við ekki meiri peninga til, nú verðum við að taka lán. Þetta er auðvitað almennur útgjaldavandi ríkissjóðs og verður að líta á hann sem slíkan.
    Hér hefur verið rætt um það að varðveita jafnrétti til náms með því að breyta lánasjóðnum og það hefur verið orðað m.a. að námsmenn verði að eiga aðgang að þessum fjármunum. Það verði að tryggja það að þeir eigi aðgang að þessum fjármunum. Menn hafa jafnvel sagt það á fundum, ekki hér inni á Alþingi, heldur úti í bæ, að það þurfi að reyna að komast hjá því að takmarka aðganginn í gegnum úthlutunarreglur, þá eigi menn bara að ákveða það sjálfir hvað þeir vilja taka í lán vegna þess að þeir greiða af þessu vexti. Mér finnst þetta vera dæmigerður íslenskur peningamórall, þ.e. það þarf að tryggja aðganginn að peningum og svo á það að ráðast hvernig gengur að borga af lánum, hvernig gengur að láta enda ná saman síðar meir. Þetta er þessi dæmigerði íslenski mórall. Mér finnst miklu réttara að takmarka aðganginn að peningunum með einhverjum hætti eins og námsmenn leggja reyndar sjálfir til, þeir leggja til að það verði reynt að skera niður í gegnum úthlutunarreglurnar og mér finnst miklu nær að fara þá leið, þó að ég viti líka og viti vel að það mun ekki skila því sem ráðherra hefur talað um að frv. til laga um lánasjóðinn þurfi að skila.
    Ég vil segja það að ég er í grundvallaratriðum andsnúin þessu frv. sem liggur fyrir. Ég held að ef svo illa fer að þetta frv. fari hér í gegnum Alþingi svo til óbreytt þá séum við hér á Íslandi komin með versta námslánakerfi á Norðurlöndum. Þá erum við komin hér með kerfi sem styrkir námsfólk ekki með svo mikið sem einni krónu. Ég veit að reiknimeistarar ráðuneytisins líta á málið allt öðrum augum. Í grg. með frv. reikna þeir nefnilega með að stuðningur ríkisins við námsmenn muni nema 1 milljarði á ári hverju og þeir reikna það þannig út að sjóðurinn þurfi að taka lán, fjármagna sig með lánum á markaðsvöxtum og endurlána síðan með 3% vöxtum. Mismunurinn þar á sé stuðningur við námsmenn. Vaxtaleysið á námstímanum sé líka stuðningur við námsmenn. Afsláttur á lántökugjaldi sé stuðningur við námsmenn. Þannig reikna þeir sér út 1 milljarð í stuðning við námsmenn á ári hverju. En ég segi, þeir eru ekki studdir með svo mikið sem einni krónu í gegnum þetta frv. Í rauninni þurfa námsmenn að greiða fyrir aðgang sinn að menntun með þessu kerfi.
    Í fyrsta lagi, og það kemur kannski ekki lánasjóðsfrumvarpinu við, þurfa þeir að greiða fyrir aðgang að menntun í formi skólagjalda sem nú eru komin á á háskólastigi og eru um 19.000 kr., það er bein greiðsla fyrir aðgang að námi, og þeir þurfa að greiða meðan á námstíma stendur lántökugjald sem á að vera 1,2% samkvæmt frv. Það er í rauninni greiðsla fyrir að fá þetta fé að láni á meðan á náminu stendur og það er greiðsla fyrir aðganginn að menntuninni. Eftir að námi er lokið eru greiðslurnar fyrir þennan aðgang, sem þeir fengu kannski í þrjú ár, kannski sex ár, í formi vaxta og það er jafnvel ævina á enda sem fólk á að greiða fyrir aðgang að menntun í þrjú til fimm ár meðan það var á þrítugsaldrinum. Því það eru auðvitað reiknuð út dæmi í þessu frv. sem eru alveg með ólíkindum sem sýna okkur það að fólk sem komið er á ellilífeyrisaldur er enn að greiða til ríkisins og það er jafnvel ekki farið að greiða af höfuðstólnum, það er að greiða vexti enn þá og hefur jafnvel ekki tekist að höggva neitt í höfuðstólinn.
    Ég var að tala um aðganginn að menntun og ef við lítum á einstæða móður í námi með eitt barn, og þá er ég auðvitað að miða við úthlutunarreglurnar sem eru í dag og það er engin trygging fyrir því að þær haldi, það getur vel verið að þær verði allt aðrar ef þetta frv. verður að veruleika, slík kona greiðir í skólagjald meðan á námi stendur 17.000--19.000 kr., það fer eftir því hvernig á það er litið, hún greiðir í lántökugjald á hverju ári af námsláni um 7.800 kr., þannig að þetta eru tæp 25.000 sem hún greiðir á vetri fyrir aðganginn að náminu í þau þrjú ár sem hún er í námi og þá er ég að miða við þriggja ára háskólanám. Þegar námi lýkur þarf hún að greiða árlega um 60.000 kr. í það sem ég kalla eftirágreitt aðgangsgjald í formi vaxta. Vextirnir eru auðvitað ekkert annað en leiga sem hún þarf að greiða vegna námslánsins.
    Ég vék hér áðan að því hvernig ráðuneytið fer að því að reikna sér til styrks til námsmanna, 1--1,2 milljarða í frv. og þá vil ég geta þess að þarna er ríkið í rauninni að reikna sér fórnarkostnað vegna þess að það getur ekki ávaxtað sitt fé á áþreifanlegan og handfastan máta á fullum markaðsvöxtum. Það er þessi fórnarkostnaður sem talinn er styrkur við námsmennina. Það er hægt að meðhöndla allar opinberar fjárveitingar á þennan sama máta, það er hægt að taka fjárveitinguna til Háskóla Íslands og reikna sér út hvaða fórnarkostnaður það er að þessir peningar skuli ekki vera ávaxtaðir á markaði. Það er hægt að taka fé til rannsókna, til sjúkrahúsa, til grunnskólans, til vegaframkvæmda o.s.frv. Það er hægt að fara svona með allt opinbert fé og sjá hver er fórnarkostnaðurinn vegna þess að peningarnir gefa ekki arðsemi beinharða og útreiknanlega, því auðvitað er mikil arðsemi af námi, en það er kannski ekki hægt að reikna hana út í krónum og aurum og ekki heldur í prósentum.
    Hugmyndin um vexti er sú hugmynd sem ég set mig hvað mest upp á móti í þessu frv., mér finnst hún fráleit, því vextirnir koma þyngst niður á þeim tekjulægstu, þ.e. þeim sem þurfa að hafa peningana lengst að láni. Þeir þurfa að greiða mest í vexti. Við getum litið á dæmið sem ég var með áðan um einstæða móður sem er í hjúkrunarfræði. Hún tekur í lán á þriggja ára tímabili miðað við óbreyttar úthlutunarreglur um 1,9 millj. kr. Þegar þessi kona er 67 ára hefur hún greitt 2,5 millj. kr. í vexti frá því hún var 25 ára gömul eða svo og hún hefur greitt 500 þús. í afborganir af höfuðstól. Eftirstöðvarnar af láninu sem var upp á 1,9 millj. er 1,4 millj. 72% af höfuðstólnum stendur enn eftir og samt hefur hún í öll þessi ár greitt 8% af tekjum sínum samviskusamlega til ríkisins fyrir það að hafa verið þrjú ár í námi. Það sem er auðvitað athyglisverðast við þetta dæmi er vaxtaþátturinn, þ.e. 2,5 millj. kr. í vexti sem hún hefur greitt af þessum peningum.
    Við getum svo tekið annað dæmi af manneskju sem er barnlaus og er í verkfræði sem er nám sem gefur meira í aðra hönd. Hún tekur í fjögurra ára námi 1,7 millj. kr. í lán. Þegar sú manneskja er 40 ára er hún búin að borga upp höfuðstólinn, hún er sem sagt orðin laus af þessum klafa, en hún hefur á þessu tímabili greitt 550 þús. í vexti af nánast sömu upphæð. Á þessu sést auðvitað þessi reginmunur og hvað vaxtaálagið kemur miklu harðar niður á þeim sem eru tekjulægri að námi loknu og þurfa að hafa peningana lengur að láni.
    Þessi síðari manneskja sem ég talaði hér um er 12--16 ár að greiða niður lánið og hefur ekki náð að greiða 8% af tekjum sínum til ríkisins en hin hefur alltaf gert það.

    Mér finnst sem sagt mjög óeðlilegt að námslán beri vexti, ekki síst vegna þess að þetta eru ekki fjárfestingarlán, heldur eru þetta framfærslulán. Ég þekki það ekki annars staðar frá að framfærslulán beri vexti. Það er auðvitað hægt að takmarka aðganginn að þeim lánum með ýmsum hætti. Ég vil bara benda á það fyrst við erum að tala um framfærslulán að þau eru auðvitað veitt í dag að vissu marki í gegnum félagsmálastofnanir sveitarfélaganna. Það eru ekki allir sem hafa aðgang að þeim peningum eins og þeim sjálfum sýnist. Það eru ákveðnar reglur þar um. Þannig þarf það auðvitað að vera hjá lánsjóðnum og er þannig.
    Menn hafa gjarnan vísað til þess að á hinum Norðurlöndunum öllum séu vextir á námslánum. Þetta er alveg rétt. Þar eru alls staðar vextir á námslánum, reyndar misháir og sums staðar jafnvel hærri raunvextir en hér er verið að gera ráð fyrir. En þá verðum við að hafa það í huga að alls staðar eru vextirnir á námslánum tengdir styrkjakerfi sem allir námsmenn eiga aðgang að. Og þar eiga námsmenn val um það hvort þeir taka bara styrk, sem er takmarkaður og reyna að komast af með hann og vinna síðan hugsanlega einhverja hlutavinnu með námi og taka þá ekki meira og lifa spart, eða hvort þeir vilja reyna að komast hjá því að vinna með námi og taka styrk og lán að auki, en þá eru þeir auðvitað að hnýta sér ákveðna ól að námi loknu og þeir eru meðvitaðir um það. Það er ekki gert ráð fyrir neinu slíku í þessu frv. sem hér liggur fyrir. Menn hafa hins vegar talað hér um einhvers konar styrkjakerfi og vísað þar til Vísindasjóðs og sagt að þar ætti að koma á einhverjum styrkjum. En mér finnst það alveg óviðunandi og algjörlega óábyrgt að tala um eitthvert styrkjakerfi, hugsanlega hjá Vísindasjóði, sem muni mæta þörfum margra námsmanna án þess að leggja það þá fyrir Alþingi með hvaða hætti það á að vera. Þetta tvennt verður að haldast í hendur. Ef menn eru að tala um það í einhverri einlægni og einhverri alvöru að koma hér á einhvers konar styrkjakerfi þá verður það að liggja fyrir Alþingi samhliða þessu frv. um námslán. Það er ekki hægt að taka þetta tal alvarlega nema þetta sé gert.
    Ég var að tala um norræna kerfið og ég vil benda á það að ef við hefðum danska kerfið þá hefði íslenska ríkið þurft að greiða á árinu 1988--1989 rúman milljarð í styrk til námsmanna, þetta er auðvitað afrúnnuð tala, en það hefði bara verið beint framlag til námsmanna í formi styrkja. Þar að auki hefði ríkið auðvitað þurft að brúa þarna bil vegna þess að í danska kerfinu eru, ef ég man rétt, námslánin vaxtalaus á meðan á námi stendur, þannig að þar er ákveðið bil sem þyrfti líka að brúa og þyrfti þá að gerast með framlögum úr ríkissjóði. Ég get því ekki séð kostina þegar menn eru að vísa í þetta danska kerfi því ef þeir vildu hafa það að fyrirmynd mundi það þýða aukin útgjöld fyrir ríkissjóð frá því sem þetta frv. sem hér liggur fyrir gerir ráð fyrir.
    Ég hef talað hér mikið um vexti en það er fleira sem ég er ósátt við í þessu frv. Ég hef reyndar bent á það hér fyrr að ég tel að sú tilhögun á skuldabréfi sem gert er ráð fyrir í frv. orki mjög tvímælis, þ.e. að sameina námslánið allt, að safna því upp og sameina það allt á eitt skuldabréf sem tveir sjálfskuldarábyrgðarmenn eigi síðan að standa í ábyrgð fyrir að lokum. Ég held það geti skapað námsmönnum talsverðan vanda að fá slíka sjálfskuldarábyrgðarmenn. Þeir geta hugsanlega fengið einn, þ.e. annað hvort foreldri sitt, en að fá hinn sjálfskuldarábyrgðarmanninn hlýtur að reynast mörgum þeirra mjög erfitt. Ég veit það bara nú þegar í dag með það námslánakerfi sem við höfum, sem er þó ekki með vöxtum heldur einungis vísitölutryggt, reynist þetta mörgum erfitt því það er ekkert gaman að fara jafnvel til óskyldra aðila og biðja þá að skrifa undir hundruðir þúsunda ef ekki milljónir. Þess vegna held ég að það væri ráð að gefa fólki kost á því að hafa bara eitt skuldabréf fyrir hvert ár, fyrir hvert námsár, og þessi skuldabréf verði ekki sameinuð.
    Þá vil ég líka nefna 20 ára aldurstakmarkið sem gert er ráð fyrir í frv. Það hefur reyndar verið kynnt þannig að þarna væri um eitthvert réttlætismál að ræða að fólk eða námsmenn sem sætu hlið við hlið í sama skóla ættu ekki að una því að annar ætti kost á námsláni en hinn ekki, þ.e. sá sem væri á bóknámsbraut ætti ekki kost en hinn sem væri á verknámsbraut gæti fengið námslán. Ég get ekki séð að það sé eitthvert sérstakt réttlætismál í því sambandi að svipta þann sem nú hefur rétt á námsláni og er í verknámi þeim rétti. Þeir sem eru í verknámi eru að sækja sér starfsmenntun, þeir eru í sérnámi sem gefur þeim ákveðna starfsmöguleika þegar þeir koma út á vinnumarkað og reynslan sýnir okkur að þetta er fólk sem kemur fljótt út í atvinnulífið, hefur tekið lán í stuttan tíma og greiðir það mjög hratt upp, þannig að þetta er ekki vandamál að því leytinu til. Þarna væri heldur ekki um sparnað að ræða heldur einungis frestun vegna þess að sumt af þessu fólki tekur það námslán sem það þarf á að halda á þessum árum, jafnvel frá 18 ára aldri til 20 eða 21 árs og síðan ekki söguna meir. Ef þetta fólk ætti ekki kost á námsláni þá mundi það væntanlega fresta þessu námi og koma síðar út í atvinnulífið með sína starfsmenntun. Það mundi fresta náminu og taka lánið síðar þannig að þetta er ekki sparnaður fyrir ríkið.
    Þá vil ég nefna 8% hlutfall af tekjum sem endurgreiðsluhlutfall. Mér finnst það of hátt og ekki síst fyrir hina tekjulægri. Ég vil nefna hér dæmi af hjónum sem hafa verið í námi, annað í hjúkrunarfræði og hitt varð framhaldsskólakennari að námi loknu. Við getum gefið okkur það að við 40 ára aldur, ef við tökum bara dæmin og tölurnar úr frv., hefðu þessi hjón 2,1 millj. í árstekjur. Af þessum tekjum, hafi þau tekið námslán bæði, bara sem einstaklingar --- það skiptir reyndar ekki máli hvort þau hafa tekið lán sem einstaklingar eða með framfærslu á sínum snærum --- ættu þau að greiða 30% í skatt, 8% í námslán og þau þyrftu væntanlega að greiða svona um 25% af tekjunum sínum í húsnæðiskostnað. Eftirstöðvarnar hjá þessum hjónum væru, að gefnum þessum tekjum sem ég nefndi í upphafi, um 66.000 kr. á mánuði sem ættu

þá að fara í fæði, klæði, rafmagn, ljós, hita, rekstur á bíl, barnagæslu o.s.frv. Það segir sig náttúrlega sjálft að þetta eru ekki upphæðir sem auðvelt er að lifa af.
    Að lokum, hæstv. forseti, áður en ég fer héðan úr pontu þá finnst mér mjög mikilvægt að fá einhver svör við því frá menntmrh. hvernig hann sér fyrir sér það félagslega tillit sem tryggt er með óyggjandi hætti í núgildandi lögum en á að taka út úr lögunum samkvæmt þessu frv. og sem jafnframt er tryggt í úthlutunarreglum Lánasjóðs ísl. námsmanna. Nú er ekkert sem segir að það sé ekki hægt að viðhalda því tilliti í gegnum úthlutunarreglurnar þó að ekki sé skýrt kveðið á um það í lögunum þó auðvitað væri miklu æskilegra að námsmenn þekktu sinn rétt í því efni, að þeir vissu að það ætti að taka félagslegt tillit og lögin kvæðu á um það. En spurningin er sú hvernig úthlutunarreglurnar verða og hvernig ráðherra sér það fyrir sér. Ég hef fulla ástæðu til að óttast um þetta mál ekki síst vegna þess sem haft hefur verið eftir, og reyndar hæstv. utanrrh. hefur sagt á fundi með námsmönnum að það sé hans skoðun að það eigi að taka þetta félagslega tillit út úr Lánasjóði ísl. námsmanna. Það séu önnur kerfi í landinu sem styðji fjölskyldur, styðji við bakið á fjölskyldum og barnafólki. (Gripið fram í.) Nei, hæstv. utanrrh. sagði þetta. Þess vegna ber ég ákveðinn ugg í brjósti yfir þessu máli vegna þess að hann er formaður hins stjórnarflokksins og ég vænti þess að hann hafi eitthvað um það að segja hvað út úr þessari vinnu kemur.
    Mér finnst mjög mikilvægt að námsmenn fái einhver svör við því hvort þetta félagslega tillit verði tryggt áfram í úthlutunarreglunum. Þetta er sérstaklega mikilvægt, og ég nefni það af því að ég hef oft talað hér um einstæðar mæður, þetta er sérstaklega mikilvægt vegna þeirra. Námslánakerfið eins og það er í dag hefur gert mjög mörgum þeirra kleift að mennta sig og það hefur að mörgu leyti gert það fýsilegt fyrir þær að fara í nám. Konur sem eru einar og með börn á framfæri hafa haft ekki minna á milli handanna í námi heldur en ef þær væru á lágum launum á vinnumarkaði og þetta hefur auðvitað gefið þeim kost að mennta sig til starfa sem seinna meir gerir þær kannski enn betur sjálfbjarga, þannig að þetta er mjög mikilvægur þáttur. Fyrir utan það að ég held að sem námsmenn, sem eru ekki alveg bundnir á klafa vinnumarkaðarins eins og svo margt fólk er og margar einstæðar mæður, eigi þær meiri kost á að vera með og sinna börnum sínum en ef þær væru á vinnumarkaði. Þannig að þetta er mjög mikilvægt atriði og nauðsynlegt að fá svar við því. Ég legg áherslu á það að fá svar við þessu og eins varðandi styrkjakerfið.