Lánasjóður íslenskra námsmanna

84. fundur
Miðvikudaginn 19. febrúar 1992, kl. 18:53:00 (3612)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Virðulegur forseti. Ég vildi flytja hér nokkrar athugasemdir við síaukna umræðu um fortíðarvanda og loforð um að lánasjóðurinn ætti aldrei að taka lán. Mér kemur það mjög á óvart ef löggjafarsamkoma íslenskrar þjóðar hefur gefið slíkt loforð. Ég veit ekki hvenær það hefur verið og hvar það er að finna í þingskjölum. Og hafi verið að semja út í bæ þá vildi ég gjarnan vita hverjir hafa það vald að þeir séu orðnir prókúruhafar fyrir Alþingi Íslendinga til að afgreiða lagatexta. Það er náttúrlega alveg út úr kortinu að halda því fram að fyrri kynslóðir hafi átt að leggja af ríkisins fé inn í þennan sjóð alla þá fjárhæð sem sjóðurinn hafði þörf fyrir hverju sinni, vitandi það að búið var að setja inn ákvæði um endurgreiðslur bundnar vísitölu. Það hefði aldeilis verið uppsöfnun á fjármunum sem hefði orðið í sjóðnum ef þetta hefði verið gert. Ég veit ekki hvaða nafn menn hefðu haft yfir það fyrirbrigði ef þannig hefði verið staðið að málum. Og hvers vegna átti sú kynslóð bæði að kosta sjálfa sig til náms og einnig að sjá um það að skilja eftir milljarða, tugi milljarða fyrir þá næstu? Á hverju byggist það réttlæti?
    Það er orðið dálítið þreytandi að hlusta á það að menn tala alltaf um þær skuldir sem Íslendingar búi við á efnahagsreikningnum. Það er aldrei talað um eignirnar sem eru á móti. Eignirnar sem fyrrverandi kynslóðir hafa verið að skilja eftir sem arf handa þeim sem taka við. Er svo komið að stærilætið sé slíkt að ef menn fengju hús að arfi með 100 þús. kr. í skuld, þá neituðu þeir að taka við því nema það væri fyrst gengið frá þessu láni? Eru það viðhorfin sem hafa tekið yfir?
    Ég man ekki eftir því þegar þessi mál voru tekin fyrir á þeim tíma sem ég hef setið á þingi, 1982 var þetta mál til umræðu og afgreiðslu hér, ég man ekki annað en það hafi verið fullur skilningur á því að þessi sjóður þyrfti að taka lán, m.a. vegna þess að það er hárrétt sem fram hefur komið að það voru sett inn þung ákvæði um endurgreiðslur, vegna þess að vísitölubinding er þung ákvæði. Og þá ætla ég að víkja að hinu atriðinu.
    Það þýðir ekkert að segja að í Danmörku séu vextir svona og svona miklir og segja að á Íslandi séu engir vextir. Það er algjörlega út úr kortinu. Er ekki verðbólga í Danmörku? Hefur þar verið alveg kyrrstætt verðlag? Ekki kannast ég nú við það. Það hefur ekki verið sama verðbólga og hér en hún hefur örugglega verið meiri en 4%. Hverjar hafa orðið hækkanirnar á lánunum hér á landi? Það er ekki svo lítið sem þau hafa hækkað vegna vísitölubindingarinnar. Og vísitölubindingin er harður húsbóndi ef það er skoðað. Vísitölubindingin tekur allt með. Bifreiðaskoðun Íslands hf. hefur aukið skuldir landsmanna, þeirra sem skulda og eru með vísitölutryggð lán, svo einfalt er það mál. Það er allt tekið inn.
    Ég held þess vegna að þegar það er skoðað hver styrkurinn er á Norðurlöndum, hverjir vextirnir eru og miðað við að þá er verið að tala um óverðtryggð lán, þá komi það í ljós að þar eru í reynd engir vextir. Þar eru í reynd engir vextir. Þessar fjárhæðir, styrkurinn og verðbólgan þar koma algjörlega á móti þessum vaxtagreiðslum.
    Hæstv. ráðherra ætti auðveldan leik að labba til námsmanna og segja: Gott og vel nú tökum við

vísitöluna af og bjóðum ykkur danska kerfið, 4% vexti og 9,5% eftir að þið hafið lokið námi. Það væru þá eitthvað skrýtnir menn í Háskólanum ef þeir hefðu ekki vit á að skrifa undir strax og fá styrkina að sjálfsögðu líka. Það þýðir ekkert að halda því fram að það sé eitthvert aukaatriði í þessu og eigi ekki að ræða það í samhengi að vísitölubindingin er komin á. Hún er ekki erlendis og það er verðbólga í þessum löndum.
    Þegar menn hafa verið að skoða hvað vísitölubindingin þýðir þá deilir vísitölukrónan við japanska jenið sem sterkasti gjaldmiðill í heimi, hvorki meira né minna. Hún kemur næst á eftir japanska jeninu sem sterkasti gjaldmiðill í heimi. Það er sko ekki nein ruslkróna sem verið er að skila til baka.
    Ég held þess vegna að þessi samanburður eins og hann hefur verið settur upp sé greinilega út í hött. Og ég vil líka bæta því við að mér leiðist að heyra þá umræðu sem hér hefur dunið að Lánasjóður ísl. námsmanna hafi verið sparifé eiginkvenna þeirra. Mér er ljóst að margar konur studdu sína námsmenn. En ætli þeir sem vilja nú vera heiðarlegir viti það ekki líka að foreldrar studdu sína námsmenn? Og er það ekki það sem verið er að ræða hér? Er ekki verið að tala um það að jafnréttið til náms hrynji ef lánasjóðurinn fari út vegna þess að þá verði þeir eignaminni ekki í aðstöðu til að stunda nám? Ef þetta væri svo einfalt að þetta væri bara spurning um giftingu þá mundu þeir sennilega ná sér í eina tælenska strax og fara svo bara í háskólann og gera hana út. Ég held að þó menn vilji blanda einhverri baráttupólitík á milli kynjanna inn í þetta þá held ég að það sé sanngjarnara og heiðarlegra að horfa á þetta þeim augum af hreinskilni að hvort heldur sem það eru stúlkur eða drengir sem búa við það að þurfa að berjast áfram á eigin kröftum án stuðnings sinna foreldra, þá geta þau það ekki ef lánasjóðurinn er ekki til staðar. Og þá á ég við lánasjóð sem er þjóðfélagslegt jöfnunartæki.
    Ég vil halda því fram, og segi það enn og aftur og það hefur komið hér fram einnig hjá hv. 14. þm. Reykv. mjög ákveðið: Lánasjóður ísl. námsmanna á fyrir skuldum, það vita allir. En hann á ekki fyrir þeirri ævintýrasiglingu ef menn halda áfram að halda uppi jafnháum vöxtum og verið hafa í landinu og menn halda áfram að líta svo á að það sé hæpið að leggja fjármagn á fjárlögum til sjóðsins í eðlilegu hlutfalli. Mér finnst nefnilega að þessir fórnarútreikningar sem hér er verið að tala um það stórmerkilegasta sem er í þessu frv. sem upplýsingar um andlega líðan þeirra sem sömdu þetta. Það er eins og þeim hafi sumum hverjum liðið álíka illa og Abraham þegar hann fór með einkasoninn og ætlaði að fórna honum. Þeir hafi séð eftir hverri krónu sem hefur farið til þessara hluta miðað við það að koma þessu einhvers staðar á framfæri erlendis í bönkum. Þessir fórnarútreikningar eru nefnilega, eins og kom fram hjá hv. 10. þm. Reykv., útreikningar sem eru náttúrlega út úr kortinu. Það eru útreikningar sem eru út úr kortinu.
    En ég vara við því að stilla þessu þannig upp, og það skulu vera mín lokaorð, ég vara við því að stilla þessu þannig upp að það sé eitthvað í fortíðinni sem valdi því að nú þurfi að grípa til þessara aðgerða. Menn eru að fást við nútíðina og framtíðina en fortíðin stendur fyrir sér í þessum efnum. Þessi sjóður á fullkomlega fyrir skuldum.