Lánasjóður íslenskra námsmanna

84. fundur
Miðvikudaginn 19. febrúar 1992, kl. 19:44:00 (3617)

     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég gat um það að ég teldi að um 50% þeirra sem útskrifast úr háskóla mundu stunda nám hjá hinu opinbera, um 90% af nýjum störfum verða til í þjónustu, mikill meiri hluti, 60--70%, verður til hjá hinu opinbera.
    Fjárveitingavaldið hefur vissulega lagt lánasjóðnum til mikið fé. Frá 1987 hefur ekki verið um þann hagvöxt að ræða í landinu sem við höfum vænst og á því tímabili hefðu menn gjarnan viljað leggja lánasjóðnum til meira fé en gert hefur verið. Það er rétt. Ég vil trúa því að við komumst út úr þessari kreppu og að nýtt hagvaxtarskeið taki við. En það var sérstaklega eitt atriði sem ég vildi koma á framfæri hér við hæstv. ráðherra og biðja hann að hugleiða. Við höfum leitað eftir því mjög ákveðið að það sé ekki um eitt skuldabréf að ræða. Hæstv. ráðherra bauð upp á það að ábyrgðarmenn skyldu þá verða fleiri. Nú er það svo að þó maður skrifi undir sjálfskuldarábyrgð og sé einn af tíu sem ábyrgðarmaður, þá getur sá sem rukkar tekið sig til og heimtað allt af einum þannig að það er ekki sú lögfræðilega vörn í þessu sem sýnist við fyrstu sýn. Þess vegna bið ég hæstv. ráðherra að hugleiða það hvort óeðlilegt væri að leyfa að bréfin yrðu fleiri.