Lánasjóður íslenskra námsmanna

84. fundur
Miðvikudaginn 19. febrúar 1992, kl. 19:46:00 (3618)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Í dag fékk ég í hendur útreikninga sem mér finnst óhjákvæmilegt að vekja sérstaka athygli hæstv. menntmrh. á og ég hef lagt á borð til hans. Ég hef einnig afhent formanni þingflokks Alþfl. þessa útreikninga því þeir eru mjög umhugsunarverðir og ég skil það svo að þessi umræða fari fram til þess að menn reyni að skilja hlutina sameiginlegum skilningi og átta sig á því málefnalega hvað hér er á ferðinni.
    Í þessum dæmum sem ég hef látið taka saman er miðað við hjúkrunarfræðing en það er fjögurra ára nám, ekki þriggja ára nám eins og stendur í þessu skjali, það er fjögurra ára nám. Einstaklingur í leiguhúsnæði getur tekið í heildarlán 1,8 millj. kr. á öllum sínum námstíma. Þegar þessi einstaklingur hefur lokið ævistarfi sínu þá á hann eftir 643 þús. kr. Hann er búinn að borga 8% af kaupinu sínu í 42 ár og hann á eftir 643 þús. kr. þegar hann er búinn að ljúka ævistarfi sínu 67 ára.
    Ég er hérna með annan einstakling, líka hjúkrunarfræðing, einstætt foreldri með eitt barn sem á eftir að loknu ævistarfi sínu 3.753.459 kr., 67 ára, og hefur aldrei náð að lækka höfuðstólinn í raun og veru, byrjaði með 2.592.000 og endar með 3.753.000. Þetta gengur ekki, herra forseti, þetta er ekki skynsamlegt. Þetta gengur ekki upp.
    Ég er hér með einn einstakling enn sem er hjúkrunarfræðingur, einstætt foreldri með tvö börn. Þessi einstaklingur fær í lán 3,4 millj. og þegar hann er búinn að borga í 42 ár af þessu láni 67 ára gamall, þá á hann eftir 6,8 millj. kr.
    Með öðrum orðum: Þó að menn hafi varið 8% af tekjunum sínum öll þessi ár til að borga niður lánin þá er svona mikið eftir af því. Auðvitað geta menn sagt að tekjurnar séu svo lágar en menn eru væntanlega ekki að taka upp þetta nýja kerfi til þess að skapa launasprengingu hjá opinberum starfsmönnum, eins og hv. 2. þm. Vestf. hefur oft bent á hér. Ég gæti tekið auðvitað fleiri dæmi en hjúkrunarfræðinga, menn með hliðstæð laun. Ég gæti tekið presta. Guðfræði er fjögurra eða fimm ára nám í Háskóla Íslands. Laun þeirra eru svipuð og hjúkrunarfræðinga. Þegar upp væri staðið væri prestur sem hefði þjónað segjum í Heydölum í 42 ár og væri í hárri heiðurselli að yfirgefa brauðið sitt og horfði yfir Breiðdalinn, ( ÓÞÞ: Eru þá aukatekjurnar teknar með?) ( Gripið fram í: Já, þú gleymir aukatekjunum.) þá er ég auðvitað að tala um föst laun, þá ætti hann eftir 6,8 millj. kr. Og ég segi við ykkur í fullri alvöru: Er það meining ykkar að koma á svona námslánakerfi? Er það meining Alþfl. og Sjálfstfl. að koma á svona námslánakerfi? Þetta gengur ekki. Þetta getur ekki gengið. Og burt séð frá deilunni um vextina sem grundvallaratriði þar sem við höfum lýst mörg okkar sjónarmiðum, þá segi ég: Þetta er óframkvæmanlegt kerfi.
    Ég hef auðvitað notað ýmis orð til þess að hvetja stjórnarliða hér til að átta sig á þessum málum. En mér liggur við að segja að ég sé tilbúinn til að fara bónarveg að þeim að þeir reyni að nota það vit sem þeim er gefið til að skilja að þetta gengur ekki upp. ( Gripið fram í: Össur veit þetta.) Þetta gengur ekki upp. ( ÖS: Það kallaðirðu hráskinnsleik í síðustu ræðu þinni, þegar við vorum ýmsir að skilja að ýmislegt væri að.) Mér þykir vænt um ef hv. þm. hefur skilið eitthvað nýjum skilningi og mér þykir vænt um það ef umræðan hér hefur orðið til þess að hann hafi áttað sig á einhverjum atriðum í þessu máli. En það er alveg greinilegt að það frv. sem hann samþykkti að leggja fram hér á Alþingi Íslendinga hefur þetta í för með sér.
    Hæstv. menntmrh. hefur opnað fyrir það að þetta verði tekið til endurskoðunar. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson og hv. þm. Sturla Böðvarsson hafa í raun og veru krafist endurskoðunar á þessu líka. Hér er staddur í salnum hv. formaður menntmn. og ég tel að það sé mjög mikilvægt að fólk athugi það í fullri alvöru að þetta kerfi eins og það er gengur ekki upp. Og hvað er það í kerfinu sem gengur ekki upp? Það sem gengur ekki upp í þessu kerfi eins og það er hér er vaxtatakan. Ef menn skoða dæmin nákvæmlega þá kemur það í ljós að það er vaxtatakan sem í raun og veru gengur alls ekki upp.
    Lítum á öftustu opnuna í þessu þskj., töflu C, þar sem birt er yfirlit yfir greiðslur inn í sjóðinn á tilteknu árabili. Þar kemur það fram að ríkisframlag fram til ársins 2036 er 190 milljarðar. Það kemur fram að heildarlækkun á ríkisframlagi á þessum tíma er 163 milljarðar. Það kemur fram að í lok þessa tíma er sjóðurinn farinn að taka inn tekjur af námsmönnum umfram það sem ríkið borgar í sjóðinn, á síðasta árinu upp á 1,2 milljarða. Ég hygg að það sé hægt að halda því fram með mjög skýrum rökum að með þessu kerfi sé verið að afnema raunverulegt námsaðstoðarkerfi ríkisins við íslenska námsmenn, (Gripið fram í.) afnema þetta kerfi og tekjuöflunin sem þarna er um að ræða fari fyrst og fremst til þess að borga niður vanda liðsins tíma sem við höfum áður rætt hér um og ég tel að eigi ekki að leggja á námsmenn framtíðarinnar heldur eigi að leggja það á okkur öll, þ.e. ríkissjóð Íslands og þá sem í hann greiða, þjóðina.
    Hæstv. menntmrh. sagði hér áðan afar athyglisverða hluti og ég þakka honum fyrir þátttöku hans í þessum umræðum yfirleitt þó að ég sé ósammála mjög mörgu sem hann sagði en ég ætla ekkert að fara að rekja það hér, það tekur því ekki. Eitt af því sem hann sagði mjög athyglisvert var það að stjórn LÍN getur þá gefið eftir með tilliti til eignastöðu. Þá vil ég benda hæstv. menntmrh. á það og hv. þm. sem hér eru en þá að það þyrfti að reikna það út hversu miklum afföllum má búast við í hinu nýja kerfi. Það er hvergi reiknað út og ég sé í raun hvergi reiknaðan út Lánasjóð ísl. námsmanna ár fyrir ár sem slíkan. Það þyrfti að gera vegna þess að það sem reiknað er út í þessum stóru töflum aftast í þingskjalinu eru áhrif breytinganna á þörf fyrir ríkisframlög en ekki lántökur og vextir sem þarf að greiða af bæði nýjum og eldri lánum. Í raun og veru þyrfti að gera upp sjóðinn sem slíkan ár fyrir ár til þess að menn gætu áttað sig á því hvað er hérna á ferðinni. Ég er viss um að í því kerfi sem menn eru hér að taka upp eru meiri afföll en í gamla kerfinu af því að það stendur svo mikið út af þegar menn hætta sínu ævistarfi. Þessir útreikningar fylgja ekki frv. og auðvitað munum við leita eftir þeim í menntmn.
    Það var afar mikilvægt sem fram kom í ræðu hæstv. menntmrh. líka að þó að við strikuðum út skuldir fortíðarinnar þá dugir það ekki til. Þetta er alveg hárrétt hjá honum. Þetta er alveg hárrétt hjá hæstv. ráðherra vegna þess að vandinn sem menn eru hér að fjalla um er ekki margumtalaður fortíðarvandi --- sem ég má örugglega tala um þó að hv. 2. þm. Vestf. vilji banna öðrum að tala um hann --- vandinn er vaxtamunurinn í þjóðfélaginu sem þarna er bersýnilega verið að láta menn borga. Þegar þetta dæmi er gert upp og fortíðarvandinn lagður til hliðar, þá er nettóniðurstaðan sú að það er ekki til eftir þetta neitt raunverulegt námsstuðningskerfi af hálfu ríkisins af því að námsmen borga það allt og rúmlega það. Það er verið að fella það niður. Þetta munu menn sjá þegar þeir skoða þessa útreikninga vandlega og bera tölurnar saman.
    Ég hvatti hæstv. menntmrh. í fyrri ræðu minni við umræðuna til að taka nokkur atriði út úr frv. Ég ætla ekki að endurtaka það. En ég ætla að endurtaka þau atriði sem ég skora á hann að sjá um að verði breytt.
    Í fyrsta lagi varðandi 3. gr., að jafnrétti til náms og áherslan á það og fjölskyldutillit komi þar inn, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson og Sturla Böðvarsson hafa tekið undir.
    Í öðru lagi ætla ég að skora á ráðherrann að breyta ábyrgðarmannaákvæðinu. Það gengur ekki eins og það er með rökum sem hv. 10. þm. Reykv. hefur flutt hér mjög skýrt.
    Í þriðja lagi ætla ég að hvetja hæstv. ráðherra til þess að athuga frumvarpsákvæðin um lántökugjald því að mér finnst það ekki við hæfi að stjórn sjóðs ákveði lántökugjald. Ég tel að það eigi ráðherrann að gera sem fulltrúi Alþingis, sem framkvæmdarvaldshafinn og það sé óeðlilegt að stjórn geri þetta.
    Ég vil enn fremur --- ef menn ætla sér að halda inni vöxtum á annað borð, sem ég skora á meiri hlutann að endurskoða vegna þess að ég tel að þetta 3% vaxtastig gangi alls ekki, en ef menn ætla að vera með það --- hvetja menn til þess að segja a.m.k. í lögunum að 3% vextir séu hámark og þetta séu allt að

3% vextir þannig að þá verði hægt að lækka ef markaðsvextir fara niður fyrir 3%.
    Þá vil ég enn fremur hvetja ráðherrann og þá sem um þetta fjalla af hálfu stjórnarmeirihlutans, fyrir utan aðra hluti sem hér hafa verið ræddir, að fara núna í raunverulegar samningaviðræður við námsmenn. Námsmenn lögðu fram frv. Það liggur frammi í þessum fylgiskjölum. Ráðherrann sagði áðan að það frv. dygði ekki til þess að koma til móts við þau fjárhagslegu markmið sem hann setti. Ég sé það út af fyrir sig reikningslega að það er rétt hvað sem innihaldi málsins líður að öðru leyti. En þrátt fyrir það vil ég benda á að í greinargerð námsmanna kemur fram að þetta sé þeirra fyrsta tillaga. Það stendur í greinargerðinni að þetta sé þeirra fyrsta tillaga og þeir séu tilbúnir til þess að skoða ýmsa aðra þætti og viðurkenna að endurgreiðsluvandi núverandi kerfis upp á 10--15% --- það geti vel komið til greina að þeir séu til samkomulags um að þeir taki þann þátt á sig. Og það er auðvitað æðimikill munur á því eða öllum þeim ósköpum sem þeim er ætlað að borga í þessu sambandi.
    Ég á kost á því að fjalla um þetta mál í hv. menntmn. og ætla þess vegna ekki að eyða í þetta mikið fleiri orðum núna, en mér fannst nauðsynlegt að koma þessum mikilvægu upplýsingum á framfæri sem ég rakti hér áðan sem sýna að kerfið gengur ekki upp af því að það er svo mikið eftir af lánunum þegar starfstíma fólks er lokið og þessir útreikningar sýna að afföllin eru svo mikil að þetta gengur ekki upp.
    Ég vil einnig vekja athygli á því, virðulegi forseti, sem hæstv. menntmrh. sagði hér áðan um húsnæðismálin. Þar kom fram að námsmaður sem er með greiðslugetu upp á 5--6 millj. kr. íbúð í dag færi í 4--5 millj. kr. íbúð eftir að þetta kerfi hefði verið sett á. Og ég geri ekki ráð fyrir því að okkur, mér og hæstv. menntmrh., hefði þótt það góður kostur sem ungum mönnum að vera vísað á 40, 50, 60 fermetra íbúð fyrir okkur og fjölskyldu okkar eftir að hefðu lokið einhverju háskólanámi sem hæstv. menntmrh. gerði á sínum tíma og margir fleiri hér í þessum sal. Ég held því satt best að segja að staðreyndin sé sú að þessar tillögur eins og þær eru ganga ekki upp og þeim þarf að breyta í grundvallaratriðum, bara tæknilega, burt séð frá öllu öðru og þess vegna væri skynsamlegast fyrir meiri hlutann að láta semja nýtt frv., kalla þetta frv. til baka vegna þess að það er óframkvæmanlegt eins og það lítur út nú. Algjörlega óframkvæmanlegt. Ég tel að þessar nýju upplýsingar sem ég lagði á borð þingmanna núna fyrir nokkrum mínútum sanni þetta. Þetta gengur engan veginn upp.
    Ég ætla ekki í þessari umræðu, virðulegi forseti, að fara út í almennar umræður um hlutina út og suður með svipuðum hætti og hér hefur dálítið gerst. Ég ætla t.d. ekki að fara að svara fyrir eiginmenn fortíðarinnar, sem ég gæti svo sem rætt við tækifæri, en ég ætla að ræða það við annað tækifæri við hv. 10. þm. Reykv. En ég vil aðeins vekja athygli á því að 8. jan. sl. skrifaði ég Hagfræðistofnun Háskólans og óskaði eftir útreikningum á mjög mikilvægum þáttum í sambandi við þetta frv. Í fyrsta lagi óskaði ég eftir útreikningum á því hvað þurfi að gera, hverju þurfi að breyta til að ríkisframlagi verði haldið óbreyttu allan útreikningstímann til ársins 2036 og hversu mikil vaxtabreyting þyrfti þá að eiga sér stað. Hvernig lítur dæmið út um sjóðinn ef vaxtabreytingin er 1%? spyr ég. Ef hún er 2%? Og ef hún er 1,5%? Ég spyr hér um afskriftir og ég spyr hér um ýmsa fleiri þætti sem er mjög mikilvægt að verði teknir til athugunar. Ég tel, herra forseti, að umræðan sem hér hefur farið fram hafi verið góð, hún hafi verið gagnleg, en ég segi alveg eins og er að ég treysti engu fyrr en ég sé það. Ég treysti engu fyrr en ég sé það í hendi að ríkisstjórnin ætli í raun og veru að breyta frv. í grundvallaratriðum. Og þó að hæstv. menntmrh. hafi góðan vilja og hv. 17. þm. Reykv. og hv. 1. þm. Vesturl., þá sé ég víða fjandmenn á fleti fyrir, fremstan í þeim flokki auðvitað hæstv. utanrrh. Ef þeim félögum tekst að komast yfir þann þröskuld sem heitir Jón Baldvin Hannibalsson, þá eru þeir meiri afreksmenn en ég hélt þeir væru.