Sementsverksmiðja ríkisins

85. fundur
Fimmtudaginn 20. febrúar 1992, kl. 10:41:00 (3623)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegur forseti. Í fyrsta lagi vil ég láta koma fram vegna orða hv. 3. þm. Vesturl. að Sementsverksmiðja ríkisins er ekki einokunarfyrirtæki. Innflutningur á sementi er frjáls. Það er rétt eins og kom fram í máli fyrirspyrjanda að Sementsverksmiðjan hún nýtur verulegrar fjarlægðarverndar og aðstöðumunar vegna þess hvernig hún er til komin í krafti ríkisframlags og ríkisaðstöðu. Hins vegar mun fyrirtækið jafnan þurfa að starfa undir ströngu samkeppniseftirliti samkvæmt gildandi íslenskum lögum um óréttmæta viðskiptahætti bæði fyrr og síðar. Í öðru lagi vil ég nefna vegna orða 3. þm. Vesturl. að að sjálfsögðu er eðlilegt að arðkrafa sé gerð til þess fjár sem í fyrirtækið er lagt. Arður hefur fengist af fyrirtækinu m.a. í uppbyggingu þess.
    En að lokum vegna þess sem fram kom í máli hv. 2. þm. Vesturl. vil ég láta það koma fram að

Sementsverksmiðjan hefur oft og einatt verið í þörf fyrir aukið fé, stofnfé sem rekstrarfé, og hefur þá tekið það að láni. Það er að mörgu leyti óhagkvæmt og óheppilegt fyrir fyrirtæki sem stundar sveiflukenndan atvinnuveg eins og Sementsverksmiðjan gerir að eiga þess ekki kost að leita til sparifjáreigenda og sparenda með hlutfjárútboðum. Ég er alveg sannfærður um það að ef hv. fyrirspyrjandi beindi slíkum spurningum til stjórnenda fyrirtækisins, hvort þetta væri ekki æskilegt og fýsilegur kostur, yrði svarið já. Reyndar stendur einmitt svo á nú að aukins fjár er þörf vegna þess að afturkippur er í byggingarstarfseminni og rekstur fyrirtækisins því í vissum vanda. Þetta segi ég fyrst og fremst vegna þess að þetta er æskilegt hver sem á fyrirtækið og ég tek það fram að breytingin í hlutafélag hefur alveg sjálfstætt gildi, er sjálfstæð ákvörðun til þess að gera fyrirtækið öflugra, sterkara og betra fyrir Akraneskaupstað og aðra sem á því byggja.