Sementsverksmiðja ríkisins

85. fundur
Fimmtudaginn 20. febrúar 1992, kl. 10:46:00 (3626)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Þessi síðasta ræða var allsérkennileg en það er ekkert óvanalegt hljóð frá hæstv. umhvrh. Hann svarar því hér til í máli sínu að bara sé verið að breyta Sementsverksmiðjunni í hlutafélag. Það sé bara mál út af fyrir sig og ekkert liggi fyrir um sölu þeirra. Hér kom þó hæstv. iðnrh. og lýsti því yfir sem markmiði ríkisstjórnarinnar, sem ekkert hefur farið leynt, að selja fyrirtækið. Þessum hæstv. ráðherrum Alþfl. sem hér tala ber ekki sérstaklega saman.
    Nú er það auðvitað svo að ekki er sama hvaða rekstur ríkið hefur með höndum. Geta gilt um það mismunandi sjónarmið hvort það er skynsamlegt. Alþb. hefur ekki nein kredduviðhorf að því er það snertir og hefur ekki haft. Alþb. hefur ekki verið talsmaður ríkisrekstrar almennt séð en hefur hins vegar ekki verið andvígt því að í vissum tilvikum stæði ríkið að atvinnurekstri og alveg sérstaklega í sambandi við þjónustufyrirtæki. En einnig þau á nú að falbjóða á almennum markaði samkvæmt stefnu núverandi ríkisstjórnar og eru þar síðast á blaði Rafmagnsveitur ríkisins. Hvað um jöfnunarsjónarmiðin, virðulegu ráðherrar? Er ekki verið að boða það í sambandi við olíusölu í landinu að gefa hana frjálsa? Hætta flutningsjöfnun þó deilur standi um það innan ríkisstjórnar nú? Ætli það geti ekki orðið upp á teningnum varðandi orkumál í landinu, varðandi sementsverð í landinu og fleira? Þeir taka þetta í áföngum.