Sementsverksmiðja ríkisins

85. fundur
Fimmtudaginn 20. febrúar 1992, kl. 10:49:00 (3628)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Sá aðili sem stórtækastur hefur verið að breyta rekstrarformi yfir í hutafélagaform heitir Samband ísl. samvinnufélaga. Ég efast um að það sé sérstakt trúaratriði hjá Sambandi ísl. samvinnufélaga. Ég er alveg viss um að hv. þm. Framsfl. gætu fengið upplýst hjá Sambandi ísl. samvinnufélaga hvernig stendur á því að þeir tóku þá ákvörðun að breyta öllum sínum rekstri yfir í það form. Það vafðist ekkert fyrir þeim heldur að gera ráð fyrir því að hver sem vildi gæti keypt hlutabréf í þeim rekstri þannig að ég mundi vísa hv. þm., sem talaði hér áðan, í skóla hjá samvinnuhreyfingunni, hann hefur verið þar áður.
    Ég vil hins vegar segja alveg hreint eins og er að ég bíð alltaf með nokkurri óþreyju í hvert skipti sem hv. 4. þm. Austurl. biður um orðið um skipulagsbreytingar í atvinnulífi einfaldlega vegna þess að nú er mikil eftirspurn eftir mönnum með þekkingu á því kerfi sem verið er að leggja niður í Austur-Evrópu. Fáir menn á Íslandi hafa eins mikla þekkingu á því kerfi og hann og ég er alltaf að vonast til að hann ausi úr viskubrunni sínum og upplýsi þjóðina sem bíður í ofvæni.