Sementsverksmiðja ríkisins

85. fundur
Fimmtudaginn 20. febrúar 1992, kl. 10:51:00 (3629)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Það verður að segjast alveg eins og er að á ýmsu á maður von þegar hæstv. heilbrrh. stígur hér í stól. Ég vil reyndar alveg frábiðja mér það að hann taki okkur í einhverjar kennslustundir um uppbyggingu samvinnuhreyfingarinnar og þær ástæður sem liggja að baki því að þar hefur verið ákveðið að setja vissa hluti yfir í hlutafélög. Þetta sýnir ekkert annað en það að hæstv. ráðherra kann ekki að greina á milli rekstrarforma annars vegar, sem eru bara tæki til þess að vinna eftir, og hugmyndafræði hins vegar og kemur þetta ekkert á óvart miðað við málflutning hans í öðrum málum að undanförnu. Ég ber engan kvíðboga fyrir hlutafélagsforminu sem slíku. Ég ber hins vegar mikinn kvíðboga fyrir áformum, leyndum og ljósum, núv. hæstv. ríkisstjórnar um að einkavæða ýmsa þætti í okkar rekstri og þætti þar sem um er að ræða einokun og einokun verður áfram. Ég nefni þar sérstaklega óskabarn núv. hæstv. inðrh. í einkavæðingu, þ.e. Bifreiðaskoðun Íslands.
    Að lokum, virðulegi forseti, voru ummæli hæstv. heilbrrh. í garð hv. 4. þm. Austurl., eftir að hann hafði lokið sínum tíma í þessari umræðu, forkostuleg og alls ekki sæmandi ráðherra.