Gjafakort sem heimila líffæraflutninga

85. fundur
Fimmtudaginn 20. febrúar 1992, kl. 11:17:00 (3642)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Á sl. vori samþykkti Alþingi lög um ákvörðun dauða. Þessi lög eru nr. 15/1991. Samkvæmt þeim er nú hægt að úrskurða mann látinn þegar öll heilastarfsemi er hætt og engin ráð eru til að heilinn starfi á ný. Með þessu er dauðaskilgreiningin rýmkuð því að áður var eingöngu hægt að úrskurða mann látinn þegar hjartastarfsemi var hætt.
    Rýmkuð dauðaskilgreining samkvæmt þessum lögum opnar möguleika á brottnámi líffæra úr látnu fólki til nota við læknismeðferð annarra einstaklinga. Samhliða lögunum um ákvörðun dauða samþykkti Alþingi því önnur lög, þ.e. lög um brottnám líffæra og krufningar. Samkvæmt þeim getur hver sem orðinn er 18 ára gefið samþykki til brottnáms líffæris eða lífrænna efna úr eigin líkama til nota við læknismeðferð annars einstaklings. Liggi samþykki einstaklings fyrir má að honum látnum nema á brott líffæri eða lífræn efni úr líkama hans. Liggi samþykki ekki fyrir er heimilt að fjarlægja líffæri og lífræn efni úr líkama hans ef fyrir liggur samþykki nánasta vandamanns og slíkt er ekki talið brjóta í bága við vilja hins látna. Lögin hafa ekki að geyma nein ítarleg ákvæði um það í hvaða formi samþykki hins látna skuli vera. Af greinargerð sem fylgdi frv. má þó ráða að slíkt samþykki skuli vera skriflegt því að þar segir orðrétt:
    ,,Vottur þarf að geta staðfest munnlegt samþykki.``
    Ráðuneytið hefur nú um hríð haft til athugunar útgáfu svokallaðra gjafakorta hér á landi líkt og tíðkast víða erlendis. Ráðuneytið hefur einnig fengið óformlegar fyrirspurnir um þessi efni og svarað þeim á þá leið að í náinni framtíð sé útgáfa slíkra korta ekki fyrirhuguð en ekkert væri því til fyrirstöðu að einstaklingar og félagasamtök beittu sér fyrir dreifingu slíkra korta.
    Nýverið lauk störfum nefnd á vegum læknaráða Borgarspítala, Landakotsspítala og Landspítala um brottnám líffæra og ígræðslu. Nefndin ræddi sérstaklega hugsanlegan ávinning af gjafakortum. Í nefndarálitinu segir um þetta efni, og er það orðrétt tilvitnun, með leyfi forseta. Þar segir svo:
    ,,Það mun reynsla manna að kort þessi skili afar fáum ígræðslulíffærum. Raunin mun sú að leitað sé samþykkis ættingja hvort sem hinn látni bar kort eða ekki. Hins vegar geta kortin leitt til umræðu um þessi mál innan fjölskyldna og þannig verið til góðs. Kostnaður við dreifingu slíkra gjafakorta er verulegur en eftirtekja rýr. Nefndin [þ.e. nefnd læknaráða Borgarspítala, Landakotsspítala og Landspítala] mælir ekki með útgáfu gjafakorta af hálfu heilbrigðisyfirvalda. Hins vegar verður tæpast amast við dreifingu slíkra korta á vegum samtaka eða einstaklinga.`` Lýkur þar tilvitnun í skýrslu nefnda læknaráða þessara þriggja spítala.
    Þessi niðurstaða er í samræmi við niðurstöðu ráðuneytisins. Ráðuneytið hyggst hins vegar á næstu mánuðum beita sér fyrir ítarlegri kynningu á efni laganna um ákvörðun dauða og laganna um brottnám líffæra og krufningar.
    Virðulegi forseti. Auk þessara spurninga sem eru á þskj. 379 frá hv. þm. beindi hv. þm. til mín fyrirspurn sem ekki er á því þskj., þ.e. hvort til standi að gera samninga við erlenda líffærabanka um brottnám líffæra íslenskra aðila og þá aðgerðir í sambandi við það um flutning líffæra í íslenska sjúklinga. Læknaráðin sem um ræðir hafa verið að skoða þau mál og hafa undirbúið bráðabirgðaskýrslu til ráðuneytisins þar um. Til þess að geta rekið endahnút á þá skýrslu er nú beðið eftir svari dr. Yacobi frá Bretlandi við ákveðnum fyrirspurnum sem til þeirra aðila hefur verið beint sem hafa veitt íslenskum sjúklingum slíka þjónustu. Þar á meðal er Scandia Transplant sem er hinn skandinavíski líffærabanki sem stofnaður hefur verið. Endanleg niðurstaða þar sem læknaráðin munu þá væntanlega gefa meðmæli til heilbrrn. um hvernig þessum málum verði fyrir komið mun ekki fást fyrr en dr. Yacobi hefur svarað þeim fyrirspurnum sem hann hefur fengið ásamt hinum stofnunum sem leitað hefur verið til og hafa þegar gefið svör. Þannig að nú er beðið eftir því að hinn breski læknir sem hefur framkvæmt m.a. hjartaaðgerðir á ýmsum íslenskum sjúklingum veiti svar við þeim fyrirspurnum sem aðrir hafa svarað. Betur get ég ekki svarað þessari fsp. hv. þm. á þessari stundu.