Veðurathuganir við strönd Austurlands

85. fundur
Fimmtudaginn 20. febrúar 1992, kl. 11:26:00 (3645)

     Fyrirspyrjandi (Halldór Ásgrímsson) :
    Herra forseti. Á þskj. 395 hef ég leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. umhvrh. um veðurathuganir við strönd Austurlands.
    Á sl. ári var ákveðið að hætta veðurathugunum á Kambanesi, m.a. vegna þess að ekki þótti fært af kostnaðarástæðum að ráðast í endurbætur sem voru nauðsynlegar til þess að starfsemi gæti haldið þar áfram. Veðurathuganir á Kambanesi eru afar mikilvægar, sérstaklega fyrir sjófarendur við allt Austurland. Það er reynsla sjómanna að mælingar þar skipti mestu máli að því er varðar sjóveður og öryggi sjófarenda þar um slóðir. Það voru því afar slæmar fréttir þegar fréttin um þessa ákvörðun barst og hún olli mikilli óvissu og óöryggi hjá mörgum sjómönnum þar um slóðir.
    Mér er fullkomlega ljóst að síðan hefur verið athugað með hvaða hætti þetta mál verður leyst en mér er ekki ljóst hvort þar er um fullnægjandi lausnir að ræða. Þess vegna vildi ég spyrja hæstv. umhvrh.: Með hvaða hætti verði staðið að fullnægjandi veðurathugunum við strönd Austurlands þannig að öryggi þeirra, sem sjómennsku stunda þar um slóðir, verði fullnægjandi eftir því sem hægt er? Eins og öllum er ljóst eru veðurathuganir mikilvægastar fyrir sjófarendur og það hefur einmitt komið í ljós á þessum vetri að þótt veður hafi verið gott til lands oft og tíðum, þá hefur sjóveður verið með versta móti í ár og valdið því að miklir erfiðleikar hafa komið upp í sjávarútvegi. Þess vegna hefur þessi vetur leitt enn betur í ljós en oft áður hversu mikilvægt það er að veðurathuganir með strönd landsins séu með fullnægjandi hætti.