Veðurathuganir við strönd Austurlands

85. fundur
Fimmtudaginn 20. febrúar 1992, kl. 11:34:00 (3648)

     Gunnlaugur Stefánsson :
    Herra forseti. Mig langar fyrst til að leiðrétta það sem fram hefur komið að búseta hafi breyst á Kambanesi. Hún hefur ekki breyst, þar búa enn sömu ábúendur og bjuggu þar fyrir áramót og mörg undanfarin ár og hafa þjónað veðurathugunum og vitavarðarvörslu mjög vel mörg undanfarin ár.
    Fram hefur komið að það á að reyna að leysa þessi mál með veðurathugunarþjónustu fyrst og fremst frá Núpi og frá Kambanesi þó í takmörkuðum mæli og með sjálfvirkum búnaði. Það eru kannski innan við 15 km í beinni sjónlínu á milli Núps á Berufjarðarströnd og Kambaness en þess ber þó að gæta að veðurlag á þessari stuttu sjónlínu getur verið mjög mismunandi, sérstaklega hvað varðar vindáttir og þoku, eins og kom fram hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni.
    En ég spyr hæstv. umhvrh.: Ef þetta var gert til þess að spara, verður ekki af þessu kostnaðarauki ef hinn sjálfvirki búnaður og rekstur hans kostar um 800 þús. kr. til viðbótar við fulla þjónustu á Núpi?