Veðurathuganir við strönd Austurlands

85. fundur
Fimmtudaginn 20. febrúar 1992, kl. 11:36:00 (3649)


     Fyrirspyrjandi (Halldór Ásgrímsson) :
    Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. umhvrh. fyrir svör hans og tel að þær aðgerðir sem hefur verið farið í séu að sjálfsögðu til bóta. Hitt er svo annað mál að ég fell ekki frá þeirri skoðun að það hafi verið afar bagalegt að fella niður veðurathuganir á Kambanesi og mikilvægt að fara yfir þessi mál í ljósi þeirrar reynslu sem þarna hefur átt sér stað, ekki aðeins að því er varðar Kambanes heldur önnur annes landsins. Ég minni t.d. á mikilvægi veðurathugana á Dalatanga á Austurlandi og sömu sögu má áreiðanlega segja um marga staði víðs vegar um landið.
    Ég get vel skilið að það þurfi að gæta aðhalds að því er varðar kostnað við vitavörslu og veðurathuganir en öryggi í þessum málum er svo þýðingarmikið að til þess verður að líta með mjög afgerandi hætti. Ég efast ekkert um vilja hæstv. umhvrh. í því sambandi og skilnings hans í málinu en ég tek undir að það verður að draga í efa að það svari kostnaði að fella niður slíkar veðurathuganir eins og þarna hefur verið gert ef síðan þarf að ráðast í umfangsmiklar framkvæmdir til að koma upp sjálfvirkum búnaði. Ég tel að með því að koma upp þessum sjálfvirka búnaði hafi verið fallist á þær röksemdir að nauðsynlegt sé að veðurathuganir séu á Kambanesi, sérstaklega vindmælingar. Það hefði átt að liggja ljóst fyrir þegar ákvörðun var tekin. En ég vænti þess að í ljósi reynslunnar verði staðan endurmetin og það er ekkert því til fyrirstöðu að mínu mati að hefja veðurathuganir á nýjan leik á Kambanesi sem er að allra mati betri staður og betur til þess fallinn en Núpur, jafnvel þótt aðeins sé um tiltölulega litla fjarlægð milli þessara

staða að ræða. Ég vil því hvetja hæstv. umhvrh. til þess að endurmeta málið í ljósi þeirrar reynslu sem kemur eftir að þessi sjálfvirki búnaður hefur verið tekinn í notkun og taka ákvörðun sem gæti m.a. falist í því að taka upp veðurathuganir á Kambanesi að nýju.