Úrræði fyrir vegalaus börn

85. fundur
Fimmtudaginn 20. febrúar 1992, kl. 11:57:00 (3654)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það með fyrirspyrjanda að það er mjög slæmt að frv. um vernd barna og ungmenna sé ekki komið inn í þingið. Ég hef leitað eftir því við menntmrh. hvort þess sé ekki að vænta fljótlega. Ég hef orð menntmrh. fyrir því að frv. muni verða lagt fram á næstu dögum. Töluvert hafði verið unnið í þessu máli í þinginu þegar hv. fyrirspyrjandi, sem fyrrv. menntmrh., lagði það fram

hér á Alþingi. Það var komið úr nefnd og hafði fengið vinnu þar svo að ég tel að það ætti að vera tiltölulega auðvelt að ná samstöðu um þetta mál hér í þinginu og það þurfi ekki langa meðferð. En ég legg áherslu á að þetta mál komi sem fyrst inn í þingið.
    Varðandi þá spurningu hv. fyrirspyrjanda hvort ríkisstjórnin muni með einum eða öðrum hætti styðja við bakið á því söfnunarátaki sem fyrirhugað er og hv. fyrirspyrjandi nefndi, þá hefur þetta mál ekki verið tekið sérstaklega upp í ríkisstjórninni. En ég mun athuga málið og væntanlega færa það inn í ríkisstjórnina eftir að ég hef kannað það og skoðað.