Staðfesting alþjóðasamþykktar um jafnrétti karla og kvenna

85. fundur
Fimmtudaginn 20. febrúar 1992, kl. 11:59:00 (3655)

     Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa mér að taka mér það bessaleyfi undir umræðum um þennan lið að þakka hæstv. félmrh. fyrir það svar sem hún gaf síðast í umræðunni um síðasta dagskrármál. Ég vona að ég verði ekki gagnrýndur fyrir það af hæstv. forseta að hlaupa þannig á milli dagskrárliða.
    Ég hef borið fram fyrir hæstv. félmrh., á þskj. 413, eftirfarandi fyrirspurnir:
  ,,1. Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um jafna möguleika og jafnrétti til handa körlum og konum verði staðfest af ríkisstjórn Íslands?
    2. Ef svo er, hvenær má vænta þess að samþykktin verði staðfest?
    3. Hvaða lögum telur ráðherra óhjákvæmilegt að breyta verði Ísland aðili að þessari samþykkt?``
    Þessi samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar er nú komin nokkuð til ára sinna. Ég hygg að hún sé frá Alþjóðavinnumálaþinginu í Genf 1981 en ástæðan til þess að þessi fsp. er borin fram nú, sem er um leið ábending um það að ég er þeirrar skoðunar að æskilegt sé að staðfesta samþykktina, er sú að fram undan er svokallað ár fjölskyldunnar, árið 1994, og sú samþykkt sem hér um ræðir snertir það ár alveg sérstaklega. Ég hefði talið að það væri eðlilegt að Ísland staðfesti þessa samþykkt þegar á þessu ári í aðdraganda að ári fjölskyldunnar.
    Í þessari samþykkt er lögð megináhersla á ábyrgð vinnumarkaðarins gagnvart því sem kallað er fjölskylduábyrgð, þ.e. að fólk geti rækt ábyrgð sína við fjölskyldu sína, börn eða aldraða eða aðra á heimilum enda þótt það hafi skyldur á vinnumarkaði. Íslenski vinnumarkaðurinn hefur í raun aldrei fengist til þess að skilja að það fólk sem vinnur á vinnumarkaðinum er líka fjölskyldufólk. Það á ekki aðeins við um konur, það á líka við um karla. Íslenska félagsmálakerfið og stjórnmálakerfið hefur ekki fengist til að viðurkenna þennan veruleika heldur, að við sem erum starfandi í stjórnmálum og félagsmálum eru líka fjölskyldufólk, eigum börn og fjölskyldu. Ég hygg að þetta hafi komið niður á báðum kynjum með býsna alvarlegum hætti í mörgum tilvikum.
    Sú samþykkt sem hér er vitnað til tekur aðeins á þessu máli. Auðvitað hefur það gerst á undanförnum árum að menn hafa tekið aðeins á þessu í kjarasamningum. Ég hygg að samningarnir sem voru gerðir við starfsmannafélagið Sókn árið 1981 eða 1982 þar sem gert var ráð fyrir heimild til þess að vera heima hjá börnum sínum í veikindum þeirra, kannski verið fyrsti samningurinn á vinnumarkaðinum af því tagi sem sýndi skilning í þessa átt. Mér er sagt að í núv. kröfum Sambands ísl. bankamanna sé gert ráð fyrir vissum möguleikum í þessa átt og líka því að foreldri, móðir, geti verið í hlutastarfi allt fram að tveggja ára aldri barnsins en gengið þá inn í fullt starf á ný og haldið öllum sínum réttindum. Þetta er auðvitað ákaflega mikilvægt atriði.
    Fyrir um það bil 20 árum var stofnað hér á landi tilraunadagheimilið Ós. Það mun vera starfrækt enn þá. Þá var tekin um það ákvörðun að þeir sem ættu þar börn yrðu að vera a.m.k. einn vinnudag í mánuði, hvort foreldri ef um tvo var að ræða, með börnum sínum inni á barnaheimilinu. Staðreyndin er sú að mörgum þótti þetta fráleitt til að byrja með en niðurstaðan varð sú að allir viðkomandi atvinnurekendur voru fúsir til þess að lokum að taka undir þessa nauðsyn og fallast á leyfi til starfsmanna sinna, sem voru að vísu við þær aðstæður, launalausir. Ég tel að hér sé um að ræða umræðu sem við þurfum að þróa talsvert mikið hér á Íslandi og við höfum ekki gert lengi. Þess vegna hef ég leyft mér að bera fram þessa fsp. til hæstv. félmrh.