Staðfesting alþjóðasamþykktar um jafnrétti karla og kvenna

85. fundur
Fimmtudaginn 20. febrúar 1992, kl. 12:13:00 (3660)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með þeim sem hafa talað að hér er um mjög mikilvæga samþykkt að ræða og brýnt að um hana geti tekist samstaða. Ég vil þó segja að þegar alþjóðasamþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar eru lagðar fyrir þingið þá er það mjög mikilvægt að um slíkar samþykktir náist samstaða í samstarfsnefnd ráðuneytisins og aðila vinnumarkaðarins sem fjallar um þessar samþykktir og undirbýr þær fyrir Alþingi. Árið 1988 var fjallað um þessa samþykkt og þá náðist ekki samstaða um hana. Eins og ég gat um áðan hef ég óskað á nýjan leik eftir að umrædd samþykkt sé tekin til skoðunar í þessari nefnd og fyrir mig verði lagðar ákveðnar breytingar sem þarf að gera á lögunum ef við fullgildum samþykktina.
    Ég vona að þessi málsmeðferð geti leitt til þess að við sjáum þessa samþykkt á Alþingi. Ég tek undir mikilvægi hennar sem hefur komið fram í máli þeirra sem hér hafa talað.
    Varðandi fjölskyldunefndina þá hefur hún mjög víðtækt verksvið að vinna eftir samkvæmt skipunarbréfi og ég tel sjálfsagt að skoða það að Alþingi geti á einhverju stigi málsins fjallað um áfangaskýrslu þessarar nefndar og áform hennar. Ég á þó ekki von á því að starf nefndarinnar verði komið það langt á þessu ári að hægt sé að leggja það fyrir þingið en þegar á næsta ári mundi ég leggja áherslu á að slík áfangaskýrsla væri til og þá fyrr en seinna á því ári. Alþingi gæti þá haft yfirlit yfir það hvað þessi nefnd er að fjalla um, áform nefndarinnar, lagabreytingar og reglugerðir sem hún er að fjalla um og snerta málefni fjölskyldunnar. Ég mun beita mér fyrir því að slík áfangaskýsla komi eins fljótt og auðið er inn í þingið en ég á ekki von á að það geti orðið fyrr en í byrjun næsta árs.