Úrræði fyrir fatlaða

85. fundur
Fimmtudaginn 20. febrúar 1992, kl. 12:17:00 (3661)

     Fyrirspyrjandi (Guðrún J. Halldórsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Atvinnuleysi eykst nú frá viku til viku hér í Reykjavík sem og víðar á landinu. Spár eru misdökkar og sú skoðun hefur heyrst að allt að 5.000 einstaklingar verði atvinnulausir innan tíðar. Það liggur í augum uppi að í samkeppni um þau fáu störf sem losna, standa fatlaðir höllum fæti. Ekki síst vegna þess að fatlaðir hafa margir hverjir ekki fengið þá menntun sem ungu fólki almennt veitist hér á landi. Einnig er það vitað að fatlaðir geta ekki unnið hvað starf sem er. Komi að uppsögnum starfsfólks þegar vinnuveitandi verður að spara eða hagræða þá er hann oft knúinn til að segja fötluðum starfsmanni upp hversu sárt sem honum finnst það. Í hinu harða kapítalíska kerfi, sem frjálshyggjumenn í stjórninni vilja innleiða hér á landi, mun hinn fatlaði standa mjög illa verði ekki brugðist til varnar.
    Í hinu nýja frv. um málefni fatlaðra sem hv. félmrh. lagði fram í gær er rætt um fækkun verndaðra vinnustaða og tilkomu verndaðrar vinnu á almennum vinnumarkaði. Í lögum eru ákvæðin óljós og ógjörningur að sjá hvernig á að framkvæma þetta áform. En eitt er víst, nú á þessum atvinnuleysistímum verður að bregðast sérstaklega við auknum atvinnuvanda fatlaðra.
    Því hef ég leyft mér að bera fram eftirfarandi fsp. til hv. félmrh. um úrræði fyirr fatlaða í atvinnumálum:
  ,,1. Hve margir fatlaðir hafa misst atvinnu nú á síðustu atvinnuleysismánuðum?
    2. Hvað hyggst ráðherra gera til að bæta stöðu þeirra fatlaðra er standa uppi atvinnulausir og eiga

því fáar færar leiðir?``