Úrræði fyrir fatlaða

85. fundur
Fimmtudaginn 20. febrúar 1992, kl. 12:19:00 (3662)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Spurt er: Hve margir fatlaðir hafa misst atvinnuna á síðustu atvinnuleysismánuðum? Svarið er að við könnun sem gerð var á þremur fjölmennustu svæðunum, þ.e. í Reykjavík, á Reykjanesi og á Akureyri, kom í ljós að 19 fatlaðir einstaklingar hafa fengið uppsögn á síðustu fjórum mánuðum. Þeir skiptast þannig: Reykjavík átta karlar og þrjár konur, Reykjanes tveir karlar og ein kona og Akureyri fimm karlar. Samtals fimmtán karlar og fjórar konur.
    Hvað hyggst ráðherra gera til að bæta stöðu þeirra fatlaðra sem standa uppi atvinnulausir og eiga því fáar færar leiðir? Fyrir hv. Alþingi liggur nú í þriðja sinn frv. til laga um starfsmenntun í atvinnulífinu. Það er ljóst að frv. þetta, ef að lögum verður, mun ekki einungis gagnast ófötluðum á vinnumarkaði heldur einnig fötluðum þar sem starfsmenntun gæti tengst endurhæfingu.
    Hingað til hafa tiltölulega fleiri fatlaðir einstaklingar verið á vinnumarkaði hér á landi samanborið við nágrannalönd okkar sökum þess góða atvinnuástands sem við höfum búið við. Reynslan kennir okkur einnig að á samdráttartímum missa þeir hópar gjarnan fyrstir vinnu sem höllustum fæti standa á vinnumarkaðnum. Öflug og virk atvinnuleit og vinnumiðlun gegnir því margþættu lykilhlutverki í atvinnumálum fatlaðra. Í lögum og reglugerð um vinnumiðlun er að finna ótvíræð ákvæði um skyldur vinnumiðlunarskrifstofu sveitarfélaga til að veita sérstaka aðstoð við atvinnuleit fatlaðra í samvinnu við svæðisstjórnir og aðrar hlutaðeigandi stofnanir er einkum fjalla um málefni fatlaðra. Svæðisstjórnum er jafnframt gert skylt samkvæmt lögum um málefni fatlaðra að sinna atvinnuleit. Ágæt samvinna hefur tekist um þessi mál í Reykjavík og á Akureyri þar sem ríkissjóður greiðir ákveðið framlag til vinnumiðlunarskrifstofu viðkomandi bæjarfélaga.
    Í öðrum umdæmum sinna svæðisstjórnir sjálfar þessari starfsemi. Sammerkt hefur verið þessari starfsemi að hún hefur öðrum þræði beinst að því að sinna þeim hópum fatlaðra sem erfiðast hafa átt með að fá störf á almennum vinnumarkaði. Varðandi aðgerðir fyrir þessa hópa hafa svæðisstjórnir lagt aukna áherslu á úrræði eins og liðveislu og verndaða vinnu á almennum vinnustöðum en minna lagt upp úr uppbyggingu verndaðra vinnustaða. Á nokkur þessara atriða er m.a. lögð áhersla í því frv. til laga um málefni fatlaðra sem hefur verið lagt fram hér á hv. Alþingi. Í frv. er að finna ítarlegri ákvæði um atvinnumál fatlaðra en verið hefur. Jafnframt er þar að finna nýjar áherslur sem miða að því að auka möguleika fatlaðra til að starfa á almennum vinnumarkaði. Um leið er dregið úr áherslu á verndaða vinnustaði þannig að í stað þess að lög mæli fyrir um að verndaða vinnustaði skuli starfrækja á hverju svæði er nú einungis lagt til að heimilt sé að starfrækja verndaða vinnustaði fyrir fatlaða. Rökin fyrir þessum nýju áherslum eru þau að annars vegar hefur komið í ljós að verndaðir vinnustaðir eru mjög fjármagnsfrekir og líkur benda til að þeim fjármunum sé betur varið með því að stuðla að því að fatlaðir fái vinnu á óvernduðum vinnumarkaði. Hins vegar hafa margir orðið til að draga í efa raunverulegt gildi verndaðra vinnustaða til hæfingar þar sem athuganir benda til að mörgum þeirra sem útskrifast á almennan vinnumarkað vegnar ekki alltaf vel. Ljóst er þó að verndaðir vinnustaðir henta ákveðnum hópi fatlaðra sem undirbúningur undir störf á almennum vinnumarkaði og jafnframt að viss hluti fatlaðra kýs fremur að eiga kost á varanlegri atvinnu á vernduðum vinnustöðum en að reyna fyrir sér í óvernduðu starfsumhverfi.
    Á grundvelli laga um almannatryggingar var á árinu 1979 sett reglugerð um öryrkjavinnu. Reglugerð þessi fól í sér viðleitni til að auka atvinnuþátttöku fatlaðra þar sem Tryggingastofnun ríkisins var falið að annast milligöngu um ráðningu öryrkja hjá fyrirtækjum. Reglugerð þessi hefur því miður ekki gagnast eins og vonir stóðu til. Í frv. til laga um almannatryggingar sem lagt var fram á síðasta þingi hefur ákvæði þetta verið endurskoðað og vankantar þess sniðnir af. Afar býnt er að fá þetta ákvæði lögfest þar sem það getur m.a. liðkað fyrir samningum um starfsþjálfun fatlaðra í almennum fyrirtækjum sem er eitt af áhersluatriðum varðandi atvinnumál í frv. um fatlaða.
    Til starfsþjálfunar fatlaðra eru áætlaðar 8,5 millj. kr. á fjárlögum þessa árs. Á þeim fjórum árum sem starfsþjálfun fatlaðra hefur verið rekin hafa 60 nemendur lokið vinnu við skólann. Í könnun sem gerð var á síðasta ári meðal fyrrv. nemenda kom í ljós að 54% þeirra voru útivinnandi, 25% heimavinnandi og 20% í námi. Hvort heldur er um að ræða starfsþjálfun fatlaðra eða starfsmenntun almennt er ljóst að afstaða atvinnurekenda almennt hlýtur að ráða þar miklu. Í sumum löndum hefur verið farin sú leið að skylda atvinnurekendur til að taka fatlað fólk í vinnu. Má nefna sem dæmi Þýskaland, en þar verða fyrirtæki yfir ákveðinni stærð að bjóða fötluðum ákveðið hlutfall launaðra starfa. Ef þeir sinna því ekki verða þeir að greiða sektir. Sektarfé rennur til að greiða fyrir atvinnumálum fatlaðra. Sú leið að setja kvóta á störf til að tryggja fötluðum eðlilega hlutdeild miðað við fjöldann hefur aldrei verið reynd hér á landi. Ég tel eðlilegt að við reynum til þrautar að fá atvinnurekendur, bæði opinbera og einkareksturinn, til frjálsrar þátttöku til að veita fötluðum úrlausn í atvinnumálum. Hyggst ég á næstunni taka atvinnumál fatlaðra sérstaklega upp við aðila vinnumarkaðarins.
    Það er vel hugsanlegt að hið opinbera greiði fjárhagslega fyrir þeim á sama hátt og það leggur fram bein framlög til rekstrar verndaðra vinnustaða ef um væri að ræða stuðning á almennum vinnumarkaði. Minna má á að ríki og sveitarfélög hafa sérstakar skyldur gagnvart þeim sem notið hafa endurhæfingar.
    Sumarið 1991 veitti félmrn. Landssamtökunum Þroskahjálp fjárstyrk, 1,7 millj. kr., til að vinna að

nýjungum í atvinnumálum fatlaðra. Tillögur hafa nú borist frá tíu aðilum úr öllum kjördæmum landsins og beiðni um fjárstuðning til að hrinda hugmyndum í framkvæmd frá sjö aðilum. Þær beiðnir sem borist hafa eru nú til athugunar hjá verkefnastjóra sem starfar á vegum Þroskahjálpar. Þær umsóknir sem þegar hafa borist eru til útbóta í atvinnumálum 65 öryrkja og styrkbeiðnir að upphæði 5,9 millj. kr. Er nú í athugun hjá félmrh. hvort hægt er að verða við þessari beiðni og mun ég leggja allt kapp á að af þátttöku félmrn. í þessu viðfangsefni geti orðið.