Úrræði fyrir fatlaða

85. fundur
Fimmtudaginn 20. febrúar 1992, kl. 12:26:00 (3663)

     Svavar Gestsson :
    Herra forseti. Það er heldur napurt í íslenska þjóðfélaginu um þessar mundir. Ekki bara vegna tíðarfarsins heldur vegna hins almenna ástands sem við búum hér við. Það var sagt frá því í gær að við því mætti búast að 4.000 framhaldsskólanemar fengju ekki atvinnu næsta sumar. Það hefur verið sagt frá því í fjölmiðlum að atvinnuleysistölur eru þær næsthæstu um þessar mundir sem verið hafa síðan 1969. Þá var sjötti eða sjöundi hver félagsmaður Alþýðusambands Íslands atvinnulaus. Og það er alveg ljóst að atvinnumál fatlaðra verður auðvitað að ræða í þessu ljósi. Veruleikinn er allt annar en hann hefur áður verið. Og það er þess vegna sem þessi fsp. frá hv. 18. þm. Reykv., Guðrúnu J. Halldórsdóttur, er mikilvæg. Vegna þess að hún hreyfir við grundvallaratriði. Í rauninni þýðir ekkert fyrir okkur, hvorki ríkisstjórn né stjórnarandstöðu, að ætla að vísa fötluðum á lög eða lagagreinar sem innihalda óljós loforð af ýmsu tagi. Frv. um málefni fatlaðra tekur í raun og veru ekkert á þeim vanda sem er við að glíma í dag. Frv. um starfsmenntun í atvinnulífinu tekur ekkert á þeim vanda sem við er að glíma í dag. Þetta fólk er að fara út af vinnustöðunum þessa dagana. Það er ljóst að útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs á þessu ári, ef svo heldur fram sem horfir, verða 2--3 milljarðar kr. Ég tel að hæstv. félmrh. þurfi að beita sér fyrir því að eitthvað af þeim fjármunum verði tekið núna til þess að tryggja betur atvinnutækifæri fatlaðra. Auðvitað á að ræða þessi mál við aðila vinnumarkaðarins. Reyndar hefur Alþýðusambandið óskað eftir því að fá allra náðarsamlegast að ræða um atvinnumál við hæstv. ríkisstjórn. Vonandi verða þá atvinnumál fatlaðra líka þar til meðferðar.