Úrræði fyrir fatlaða

85. fundur
Fimmtudaginn 20. febrúar 1992, kl. 12:28:00 (3664)

     Fyrirspyrjandi (Guðrún J. Halldórsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. svör hennar við fsp. Ég hef aldrei dregið í efa góðan vilja hennar til að standa með þeim sem höllum fæti standa í þessu þjóðfélagi, síður en svo. Ég veit að hún gerir eins og hægt er og það sem hún getur gert. En hvað getur hún gert? Það kom fram í ágætu máli 9. þm. Reykv. að vandinn er stór nú og það verður að gera eitthvað núna. Það er ekki hægt að setja bara lagaákvæði, sem á að vísa þessu ágæta fólki á, um eitthvað sem muni gerast í framtíðinni. Við verðum að gera þetta núna.
    Í skýrslum um atvinnumál fatlaðra á vernduðum vinnustöðum og á almennum vinnumarkaði sem félmrn. lét gera og kom út 1990 eru margvíslegar upplýsingar og tillögur um útbætur. Þar kemur fram að tiltekinn hópur fatlaðra á auðveldara með aðgang að vinnu en aðrir, t.d. hreyfihamlaðir og heyrnarskertir. En þessi skýrsla er frá 1990. Og sannleikurinn um heyrnarskerta er allt annar í dag. Ég vil ekki fullyrða um hreyfihamlaða. Einnig vil ég fullyrða að fjölmargir koma í nám, eru kannski skráðir í nám, í kvöldnám eins og ég hef kynnst en eru í rauninni atvinnulausir. Það getur verið að þeir skrái sig í skóla en þeir eru atvinnulausir. Ég held að enginn fatlaður hafi komið í Námsflokka Reykjavíkur núna á miðjum vetri sem ekki var atvinnulaus. Þess vegna beinast augu mín kannski sérstaklega að þessu af því að ég rekst hreinlega á þetta.
    Í ljós kemur í skýrslu félmrn., sem ég efast ekkert um að félmrh. þekkir vel og hefur nýtt sér, að vinnumarkaðurinn veit lítið um vinnumiðlun og vinnuleit fatlaðra. Þannig var það árið 1990. En mér virðist að nú á undanförnum árum hafi verðið lögð áhersla á starfsemi vinnuleitarinnar og vinnumiðlunarinnar og ég tel að það sé af hinu góða og sú stofnun vinni gott verk og það átak sé gott í dag.
    Mér finnst það sem hæstv. félmrh. sagði um verndaða vinnu úti á vinnumarkaðnum nokkuð óljóst og lítið sem komið er út úr því. Ég kannast ekki við þessa vernduðu vinnu á almennum vinnumarkaði. Hún getur vel verið fyrir hendi fyrir því. Hún er að því leyti mjög athyglisverð að hún gerir tilraun til þess að rjúfa félagslega einangrun fatlaðra sem er geysimikil hjá mörgum þeirra. Því held ég að þetta sem nú er hafið sé geysimikilvægt og það þurfi að eyða miklu fé í þetta og orku.
    Verndaðir vinnustaðir verða alltaf að vera til. Hópur fólks getur aldrei verið annars staðar og því má vara sig á því að hafa ekki oftrú á hinni vernduðu vinnu úti á vinnumarkaðnum því að vernduðu vinnustaðirnir verða alltaf að vera og þangað verður stór hópur fólks að geta leitað. Við megum ekki taka trú á hin og þessi kerfi og hinar og þessar stefnur sem leiða okkur út í ófarnað fyrir þá sem mest þurfa á hjálp okkar að halda.