Nýr langbylgjusendir

85. fundur
Fimmtudaginn 20. febrúar 1992, kl. 12:52:00 (3671)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Herra forseti. Þann 19. apríl 1991 var nefnd skipuð til að fara yfir þá möguleika sem fyrir hendi eru um þá þjónustu sem langbylgjustöð Ríkisútvarpsins á Vatnsendahæð hefur annast og leggja fram álit um hvernig best verði að þeim málum staðið til frambúðar. Nefnd þessi var skipuð í framhaldi af því að langbylgjumastrið á Vatnsenda féll í byrjun febrúar 1991 en þá komu upp efasemdir um að réttmætt væri að byggja nýja langbylgjustöð í stað Vatnsenda. Var það hlutverk nefndarinnar að fjalla um þá kosti sem í boði eru.
    Nefndin skilaði áliti ásamt ítarlegri greinargerð hinn 9. des. sl. Athugaði hún ítarlega alla þekkta möguleika á lausn í dreifingarmálum Ríkisútvarpsins og fékk m.a. til liðs við sig erlenda ráðgjafa frá Evrópusambandi útvarpsstöðva. Niðurstöður nefndarinnar eru í meginatriðum að áfram verði notuð blönduð lausn í dreifingarmálum Ríkisútvarpsins með FM-, langbylgju- og metrabylgjustöðvum í þeim mæli sem heppilegt er talið til að þjóna settum markmiðum og ólíkum þörfum notenda á sem hagkvæmastan máta, m.a. með endurbyggingu langbylgjustöðvarinnar á Vatnsenda. Samspil þessara dreifingarkerfa geti fullnægt dreifiþörf mikils meiri hluta þjóðarinnar og á helstu fiskimiðum. Lögð verði áhersla á öflugar langbylgjusendingar og að langbylgjustöðvarnar á Vatnsenda og Eiðum verði endurnýjaðar.
    Það er mat nefndarinnar að heildarkostnaður við endurbyggingu langbylgjustöðvar með hámarksafli á Vatnsenda kosti um 800--900 millj. kr. Þá leggur nefndin enn fremur til að langbylgjustöðin á Eiðum, sem líkast til endist í 1--2 ár til viðbótar, verði endurnýjuð. Áætlaður kostnaður við þá endurnýjun er um 100--200 millj. kr. Með þessum aðgerðum telur nefndin að viðunandi þjónusta útvarpsins á einni rás nái til alls landsins og næstu fiskimiða um leið og undirstrikað er að dreifikerfi þurfi á hverju ári stöðugrar endurnýjunar og styrkingar við.
    Spurt var hvort einhver önnur áform um lausn málsins en endurbygging öflugri langbylgjusendis en var á Vatnsendahæð væri í kortunum.
    Nú liggur fyrir að lóranstöðin á Gufuskálum, sem rekin er af Pósti og síma í umboði bandarísku strandgæslunnar, verði rekin með óbreyttu sniði fram til ársins 1994 en þá mun hún verða lögð niður. Vel kemur til álita að leita eftir samningum við viðkomandi aðila um yfirtöku á þeirri aðstöðu sem þar er, þ.e. húsi, mastri sem unnt er að breyta í langbylgjuloftnet, vararafstöð og fleira. Engar viðræður hafa farið fram en ég tel rétt að athugað verði vandlega hvort ekki séu tök á því að fá þarna aðstöðu fyrir langbylgjusendingar Ríkisútvarpsins sem mundu hugsanlega hefjast síðla árs 1995. Gera má ráð fyrir því að þessi kostur kunni að vera fjárhagslega hagkvæmur. Ef af verður má ætla að þeim áfanga, að endurnýja langbylgjustöð Suðvesturlands, verði náð eins og nefndin um langbylgjuna lagði til. Fullt samráð er milli mín og samgrh. að viðræður verði hafnar af hálfu íslenskra stjórnvalda við bandarísk yfirvöld um möguleika á yfirtöku lóranstöðvarinnar í Gufuskálum.
    Eins og nú stendur mun sá möguleiki að nýta lóranmastrið í Gufuskálum vera sá kostur sem gæti tryggt uppbyggingu langbylgjukerfisins á sem skemmstum tíma. Eins og ég vék að í upphafi, þá er um gífurlega kostnaðarsamt verkefni að ræða enda þótt yfirtaka á lóranstöðinni kunni að leiða til lækkaðs heildarkostnaðar miðað við útreikninga nefndarinnar. Of snemmt er að segja til um hversu mikill fjárhagslegur ávinningur kunni að verða af því að nýta lóranstöðina á Gufuskálum til langbylgjusendinga en það er ljóst að heildarkostnaður mun verða hundruð milljóna kr. Þetta fé er ekki handbært. Samkvæmt útvarpslögum er einn af tekjustofnum Ríkisútvarpsins aðflutningsgjöld af hljóðvarps- og sjónvarpstækjum. Þessar tekjur áttu að renna í Framkvæmdasjóð Ríkisútvarpsins sem m.a. á að verja í að tryggja viðunandi tækjakost og dreifikerfi. Með lánsfjárlögum hefur á undanförnum árum verið ákveðið að þessi tekjustofn Ríkisútvarpsins renni beint í ríkissjóð. Með þessu móti hefur Ríkisútvarpið í raun orðið af 625,5 millj. kr. á árunum 1987--1989. Það fé sem hefur árlega verið til ráðstöfunar til uppbyggingar dreifikerfisins hefur verið á bilinu 15--25 millj. kr. á ári eða 1% af brúttótekjum stofnunarinnar. Framgangur þessa verkefnis, að reisa nýja langbylgjustöð á Suðvesturlandi, ræðst að sjálfsögðu af því hvort og þá með hvaða hætti unnt er að tryggja fjármagn til þess.