Staða táknmálstúlkunar

85. fundur
Fimmtudaginn 20. febrúar 1992, kl. 13:10:00 (3676)

     Fyrirspyrjandi (Guðrún J. Halldórsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Hinn 21. des. 1990 voru samþykkt í þinginu lög um samskiptamiðstöð heyrnarlausra. Í umfjöllun þingmanna heyrðist hvorki skætingur né dylgjur né neitt annað krassandi en samt sem áður var málið svo gott að fjölmiðlar sögðu allvel frá því. Já, það ríkti eining andans. Nú héldum við að að gera ætti verulegt átak en því miður virðast framvæmdir hafa látið á sér standa, enda stuttur tími liðinn og fjárskortur í landi. Og hver á þá að blæða? Þeir sem síst mega við því eru einmitt skjólstæðingar og viðskiptavinir samskiptamiðstöðvarinnar. Þegar skyggnst er til baka og saga fræðslu heyrnarlausra eða heyrnarskerta er skoðuð þá blasir það við að um langan aldur var sú stefna við völd að kenna heyrnarlausum að tala og lesa af vörum. Táknmál var bannfært. Fylgjendur þessarar stefnu unnu starf sitt af ósérplægni og vissu ekki betur en þeir væru að gera allt hið besta fyrir skjólstæðinga sína og nemendur. En því miður var árangurinn oft grátlega lítill. Út úr Heyrnleysingjaskólanum komu sumir ólæsir að því leyti að þeir kunnu tæknina að kveða að en skildu ekki það sem þeir lásu. Stærðfræðikunnáttan var líka oft í molum. Það lætur að líkum að á vinnumarkaði átti þetta fólk oft erfitt uppdráttar, hvað þá í öðru námi.

    Fram til 1989 áttu heyrnleysingjar möguleika á að sitja í Heyrnleysingjaskólanum eftir grunnskólanám og bæta við þekkingu sína og einnig fylgdu kennarar skólans oft nemendum inn í aðra skóla, einkum inn í Iðnskólann, og voru þeir þeim þar til leiðbeiningar og aðstoðar. Þetta fólk var þó ekki táknmálstúlkar, til þess skorti það þekkingu en ekki vilja. Nokkrir þeirra hafa síðan farið í táknmálsnám í Kennaraháskólanum en hlotið litla stoð ríkisvaldsins, hvað þá umbun fyrir það. Eftir 1989 hefur þessi þjónusta Heyrnleysingjaskólans fallið niður að því er ég best veit því að nú átti nefnilega að koma á jöfnuði, blöndun í bekki og í skóla. Allar leiðir áttu að opnast fyrir nemendur inn í framhaldsskóla og táknmálstúlkar áttu að taka við.
    Það er ekki fyrr en á allra síðustu árum að táknmál íslenskra heyrnleysingja hlaut viðurkenningu sem tungumálatjáningartæki. En samþykkt laga um samskiptamiðstöð var einmitt merkur áfangi í þeim efnum. Hlutverk hennar á að vera rannsóknir á táknmáli, kennsla í táknmáli og aðstoð og túlkun. Áætlað var að upp yrði tekið samstarf við málvísindadeild við Háskóla Íslands, um rannsóknir og er það samstarf hafið þrátt fyrir fjárskort. Einnig er fyrirhugað að koma á kennslu til BA-prófs í táknmálstúlkun, þ.e. var fyrirhugað. Nú óttast ég að töf verði á því að sú kennsla komist á en mjög brýna nauðsyn ber til að mennta fleiri táknmálstúlka.
    Nú standa mál þannig að 20--30 nemendur bíða táknmálstúlkunar og aðstoðar til að komast í framhaldsnám eftir því sem ég best veit en kannski veit menntmrh. eitthvað betur um þetta. Við þeim blasir ekkert nema biðin í dag. Aðeins þrír táknmálstúlkar eru í föstu starfi og þar af mun einn fara í barneignarfrí á næsta hausti. Vandamál þessara ungmenna og aðstandenda þeirra er því hrikalegt. Vandamálin eru bæði félagslegs og andlegs eðlis og beinlínis vegna einangrunar og eilífðarhindrana við samskipti og þess að þeir komast ekki inn í skólana.