Staða táknmálstúlkunar

85. fundur
Fimmtudaginn 20. febrúar 1992, kl. 13:15:00 (3677)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Herra forseti. Eins og fyrirspyrjandi sagði þá samþykkti Alþingi lög um samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra haustið 1990. Hlutverk samskiptamiðstöðvar er fjórþætt: Að annast rannsóknir á táknmáli, annast kennslu táknmáls, annast túlkaþjónustu og annast aðra þjónustu sem stöðinni kann að vera falið að inna af hendi.
    Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskerta hefur tekið til starfa og verið til húsa í Heyrnleysingjaskólanum. Til starfseminnar á þessu ári eru ætlaðar 6,4 millj. kr. á fjárlögum. Mjög stutt er síðan þörfin fyrir táknmálstúlka varð ljós. Það er vegna þess að aðrar áherslur voru í málakennslu heyrnarlausra. Það var ætlast til þess af heyrnarlausum að þeir lærðu að lesa af vörum og að tala íslensku. Það er ekki fyrr en á allra síðustu árum að heyrnarlausir sjálfir ásamt sérfræðingum í málefnum heyrnarlausra hafa talið að táknmál heyrnarlausra væri það mál sem bæri að leggja áherslu á. Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra er ætlað að flýta þeirri þróun.
    Spurt var hve mörg heyrnarskert ungmenni hafa útskrifast úr grunnskóla og bíða eftir að geta komist í framhaldsskólanám en komast ekki í námið vegna skorts á táknmálstúlkun. Samkvæmt lauslegum upplýsingum sem ráðuneytið hefur aflað sér hafa bæði félög heyrnarlausra og starfsfólk Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra metið stöðuna á undanförnum árum þannig að um 30 heyrnarlausir hafi hug á að stunda nám í framhaldsskóla og telja sig ekki geta það vegna skorts á táknmálstúlkun.
    Spurt var hve margir táknmálstúlkar eru í landinu. Á þessu skólaári eru tveir táknmálstúlkar starfandi í framhaldsskólunum og túlka fyrir fimm til sex heyrnarlausa. Einnig er hálf staða túlks við Samskiptamiðstöð heyrnarlausra. Alls er menntmrh. kunnugt um átta einstaklinga sem taka að sér táknmálstúlkun fyrir heyrnarlausa.
    Spurt var: Hvað líður kennslu fyrir táknmálstúlka við Háskóla Íslands? Hefur fé verið tryggt til þess að slík kennsla komist á hið fyrsta?
    Þessa dagana standa yfir viðræður milli Háskóla Íslands og Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra um fyrirkomulag náms til BA-prófs í táknmálstúlkun. Samskiptamiðstöð gerir ráð fyrir að hægt verði að fara af stað með nám í táknmálstúlkun næsta haust fyrir fimm til átta einstaklinga sem hafa gott vald í táknmáli heyrnarlausra og hafa hug á að gera táknmálstúlkun að atvinnu.