Staða táknmálstúlkunar

85. fundur
Fimmtudaginn 20. febrúar 1992, kl. 13:21:00 (3681)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Herra forseti. Ég treysti mér ekki til þess að svara því með einföldu jái hvort hægt sé að treysta því. Ég hef þær upplýsingar sem ég gat um áðan að nú stæðu yfir viðræður milli Háskóla Íslands og samskiptamiðstöðvarinnar. Samskiptamiðstöðin gerir ráð fyrir samkvæmt upplýsingum sem ég hef frá henni að unnt verði að hefja þessa kennslu á hausti komanda. Annað hef ég því miður ekki í höndunum en ég mun að sjálfsögðu gera mitt til að þetta geti orðið.
    Hv. þm. Svavar Gestsson spurði hvort unnið væri að þeim rannsóknum, ég held að ég hafi tekið rétt eftir, sem ég mæti viðunandi þannig að unnt yrði að viðurkenna táknmálið sem móðurmál heyrnarlausra. Ég verð að viðurkenna að mér er ekki alveg ljóst hvernig þær rannsóknir standa en ég veit að í ráðuneytinu er vel fylgst með þessum málum og læt í ljós þann vilja minn að stutt verði við þetta eins og mögulegt er því að hér er áreiðanlega um mjög mikilvægt mál að ræða. Fyrir því er fullur skilningur í menntmrn.