Yfirtökutilboð

86. fundur
Fimmtudaginn 20. febrúar 1992, kl. 13:56:00 (3684)

     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir undirtektir hans við þetta frv. sem hv. þm. Matthías Bjarnason var svo elskulegur að leyfa mér að flytja með sér en hann hefur borið hita og þunga af því að viða að upplýsingar og ganga frá okkar sameiginlega málflutningi. Ég þarf út af fyrir sig ekki miklu við það að bæta sem hv. þm. sagði um yfirtökutilboð. Þau hafa auðvitað verið tíðkuð um langa tíð og þá oft og tíðum í þeim tilgangi að fámennur hópur manna eða jafnvel einn maður hefur verið að reyna að tryggja sig á kostnað annarra með því að kaupa það mikið af hlutabréfum að hann geti ráðið framvindu mála og þá hefur það gerst, eins og verða vill, að misnotkun hefur átt sér stað.
    Ég leyfi mér hér að geta lítillega um þessa hlið málanna og vitna þá til lítillar bókar sem var skrifuð 1968, um hlutafélög og samanburð á hlutafélögum í Evrópulöndum og bandarískum rétti. Þar er fjallað sérstaklega um sögu hlutafélaganna en hún er orðin alllöng og er raunar runnin frá miðöldum og það þekkja þeir sem sögufróðir eru. Hér á landi reyndum við hlutafélög í ákveðinni mynd þegar það gerðist á þeim stað sem við stöndum á að Innréttingar Skúla Magnússonar risu um miðja 18. öldina. Þar var um að ræða félagastofnun með hlutabréfum. Það er því ekki nýtt af nálinni að Íslendingar hugsi sér til hreyfings með því að bindast samtökum og ekki síst í hlutafélögum. Nú eru hlutafélög í tísku en áður fyrr voru það gjarnan samvinnufélög, a.m.k. við hliðina á hlutafélögunum. Samvinnuhreyfingin, bæði hér á landi og annars staðar, hefur aftur gripið til atvinnurekstrar í formi hlutafélagaeignar og hlutabréfasölu. Það hefur þrátt fyrir allt reynst það form sem þjóðirnar hafa helst horfið til.
    Við skulum vera þess minnug að í vestrænum löndum, þeim engilsaxnesku t.d., varð slík fjármálaspilling samhliða þessu félagaformi, slík samþjöppun valdsins, að árið 1790 má segja að hlutafélög hafi verið afnumin og bönnuð í hinum engilsaxenska heimi í nærri því heila öld. Framfarir urðu áreiðanlega miklu minni þess vegna en hins vegar fóru menn að hugsa sitt mál á nýjan leik. Nú síðustu tvær aldirnar og þó einkum á þessari öld hefur meginframtak í atvinnumálum einmitt verið í formi hlutabréfaeignar og þá hafa gjarnan komið til almenningshlutafélögin.
    Óteljandi reglur hafa verið settar, ekki síst hér á Íslandi, því að við búum við mjög fullkomna hlutafélagalöggjöf sem unnið var að hér á hinu háa Alþingi árin 1977 og 1978. Allir flokkar unnu að þeirri löggjöf og það var gífurlega gaman að vinna þá í fjárhags- og viðskiptanefndunum sameinuðum að þessu mikla máli þar sem sameinað var í okkar löggjöf margt það besta úr engilsaxneskri löggjöf og hinni evrópsku. Við höfum þess vegna fulla ástæðu til þess að geta treyst á núgildandi löggjöf sem grundvöll. En hinu er ekki að leyna að enn í dag þekkist það að menn reyni að notfæra sér vankantana og það sem ekki er sagt en hægt að sniðganga í þessu félagaformi. Skal ég ekki fara lengra út í þá sálma en reynslan fyrr og síðar á þessari öld og síðustu áratugum bendir til þess að rétt hafi verið að flytja þessa þáltill. sem hér er til umræðu og þakka ég fyrri flm. fyrir það.
    Það eru mörg úrræði önnur en hann nefndi sem eru nú í íslensku hlutafélagalögunum. Þar er fyrst að geta ákvæða sem tryggja dreifingu hlutafjár þannig að ákveðnir menn eða ákveðnir hluthafar, sem taldir eru persónur að lögum, mega ekki eiga nema einhvern örlítinn hluta í viðkomandi félagi. Raunar var þetta líka í gamla Eimskipafélaginu okkar, eins og hv. þm. gat um, þar sem fjöldi hluthafa var gífurlega mikill. Nærri því allir Íslendingar tóku þátt í því mikla átaki og það var sannkallað almenningshlutafélag meðan upphafleg lög voru í gildi og þeim var ekki breytt. En síðan urðu auðvitað miklar breytingar sem að sumu leyti voru óæskilegar en út í þá sálma ætla ég ekki að fara nú.
    Í síðari tíma sögu, t.d. sögu Þýskalands þegar það var að byggja upp veldi sitt eftir styrjöldina síðari, þá komu hlutafélögin þar auðvitað fyrst til sögunnar. T.d. voru Volkswagen-verksmiðjurnar og þýski stálhringurinn almenningshlutafélög og þannig var búið um hnútana að starfsmennirnir fengu jafnvel gefins hlutabréf til þess að þeir væru allir með. Síðan urðu þetta nokkurs konar fjölskyldubætur. Stórar fjölskyldur fengu mikinn afslátt af hlutabréfakaupum ef þær skuldbundu sig til að eiga bréfin einhvern ákveðinn tíma. Það sama átti við um tekjulítið fólk. Þannig tókst Þjóðverjum að sameina þjóðina um það gífurlega átak sem gert var til endurreisnar Þýskalands sem alltaf hefur síðan verið kallað þýska undrið. Það var vegna þess að þeir höfðu vit á því að dreifa valdi, dreifa áhrifum, dreifa möguleikum fólks til þess að komast sjálft af eigin ramleik áfram í lífsbaráttunni og þess vegna eru þetta engin nýmæli sem við erum að tala um nú. Við getum hins vegar lært af því sem mistókst hér áður fyrr og fram á þennan dag, þ.e. að tryggja að valdið væri raunverulega hjá eigendunum, þ.e. fólkinu.
    Þá kem ég að þeim atriðum sem eru í núgildandi lögum en hefur ekki verið fylgt nægilega vel eftir. Það eru auðvitað hlutfallskosningar eða margfeldiskosningar. Ég tek fram aftur að þau voru einróma samþykkt af Alþingi Íslendinga 1978 og voru einhver merkustu hlutafélagalög þá. Ég hygg að útlendingar hafi sumir hverjir lært talsvert af þeirri löggjöf og veit það raunar að hún hefur vakið athygli, t.d. í nágrannalöndunum. En það er óþarft að fara lengra út í þá sálma nú. Það verður gert miklu ítarlegar síðar enda er tíminn víst búinn og lýk ég máli mínu.