Yfirtökutilboð

86. fundur
Fimmtudaginn 20. febrúar 1992, kl. 14:06:00 (3686)

     Rannveig Guðmundsdóttir :
    Virðulegi forseti. Mig langar fyrst að víkja örlítið að því sem flm. þessarar tillögu, 1. þm. Vestf., Matthías Bjarnason, nefndi í upphafi máls síns að þetta mál sé búið að vera tíu sinnum á dagskrá þingsins. Hann vék að númeri þess, 66, og hversu seint það er komið hér til umræðu. Ég minnist þess við þinglok á sl. vetri að þáv. forseti þingsins fjallaði um fjölda mála á Alþingi og ef ég man rétt, þá skerum við okkur úr með málafjölda borið saman við nágrannalöndin. Hvort það er mikið framtak ríkisvaldsins eða óvanaleg þátttaka þingmanna skal ég ekki segja. En eðli málsins samkvæmt virðast þingmannamálin vera nokkuð víkjandi og þar sem þau eru einnig víkjandi í störfum nefndanna er það nokkurt áhyggjuefni að í raun er það þannig að ef mál koma ekki fram snemma að hausti, ef þau eru að koma fram um þetta leyti vetrar, þá er eiginlega nokkuð ljóst að þau eru borin til endurflutnings. Þá eiga þau lítinn möguleika á afgreiðslu á þeim vetri. Ég held að það sé ágætt að við þingmenn hugum nokkuð að þessu og veltum fyrir okkur hvernig þetta megi bæta.
    Ég kem hér til þess að víkja stuttlega að þeirri till. til þál., sem hér er til umræðu, um yfirtökutilboð og önnur almenn tilboð í hlutafélög og vil þakka flm. fyrir að hreyfa þessu máli. Það hefur komið fram hér og í stefnuskrá ríkisstjórnarinnar að uppi eru áform um einkavæðingu. Fyrir mér er það afar brýnt, ef af því verður, að það verði mjög almenn þátttaka í hlutabréfakaupum ef ríkisfyrirtæki verða seld. Þess vegna er það mjög gott að þessi mál eru tekin til umræðu hér og þeim hreyft og ég er mjög ánægð með undirtektir iðnrh. í þessu máli. Að vísu nefnir hann að það þurfi að samræma okkar löggjöf þeirri evrópsku en jafnframt að huga að því sem líta þarf á hjá okkur sjálfum. Það hefur einmitt verið sagt af hálfu ríkisstjórnarinnar að stefna þurfi að því við sölu fyrirtækja að sett verði skýr markmið um dreifingu eignarhalds þannig t.d. að hlutabréfaeign verði sem almennust.
    Það er mjög mikilvægt, ekki síst í dag, að sporna gegn einokun og hringamyndun með sérstakri löggjöf. Margir telja að íhlutun fárra í atvinnulífinu og eignaraðild fárra að of mörgum fyrirtækjum sé jafnvel komin í hámark og að þessu þurfi að huga. Mér finnst að með því að hreyfa þessu máli um yfirtökutilboð sé einmitt verið að hreyfa anga af því sama máli. Þess vegna vel ég að koma hér og taka undir sjónarmiðið sem hér kemur fram. Sum ríkisfyrirtæki eru þess eðlis að við einkavæðingu er það lykilatriði að almenningur eignist hlutabréf og það er það sjónarmið sem ég vel að vekja hér athygli á og setja fram sem mitt.
    Ég vil aðeins að lokum koma að því sem flm. þáltill. nefndi að það hefði verðið nokkuð vel tekið á því að draga frá skatti fjárfestingu fólks í atvinnurekstri en nú væri svo komið að það hlutfall hefði lækkað á milli ára. Það er meira til gamans sem ég nefni þá einkennilegu áráttu okkar landans að þegar verið er að setja lög sem eiga í raun að vera til góðs, í þessu tilfelli fyrir atvinnulífið og til að fólk velji að setja fjármagn, jafnvel þó lítið sé, til að leggja sinn skerf til atvinnulífsins, þá gerist það alltaf hjá okkur að þetta verður eins konar leiksoppur skattskýrslunnar. Mér sýnist að það sem hafi gerst hér enn einu sinni sé að það er dregið úr þessu annars ágæta ákvæði vegna þess að það varð nærri því að reglu fremur en hitt að fólk keypti hlutabréf fyrir jól og seldi þau aftur eftir jól.