Efling ferðaþjónustu

86. fundur
Fimmtudaginn 20. febrúar 1992, kl. 14:30:00 (3690)

     Flm. (Jón Helgason) :
    Herra forseti. Snemma á þessu þingi lagði ég fram ásamt þingmönnunum Guðmundi Bjarnasyni og Stefáni Guðmundssyni till. til þál. um eflingu ferðaþjónustu á þskj. 118. Till. hljóðar þannig, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta nú þegar gera athugun á því hvaða framkvæmdir í ferðaþjónustu eru brýnastar og skila mestum árangri til að gera kleift að taka á móti fleiri erlendum ferðamönnum og fá þannig betri nýtingu á mannvirkjum og arð af rekstri fyrirtækja sem þegar eru fyrir hendi í landinu.
    Á grundvelli þeirrar athugunar verði þeim aðilum, sem ráðast vilja í þessi verkefni, veittur nauðsynlegur stuðningur til að gera það þegar á næsta ári.`` Það er að segja á því ári sem nú er komið, árinu

1992.
    Það hefur komið skýrt fram í umræðum að undanförnu og tölur sýna það að aukin ferðaþjónusta er vænlegasti kosturinn til að styrkja íslenskt atvinnulíf miðað við reynslu síðustu ára. Þeir sem svartsýnastir eru hafa jafnvel tekið svo djúpt í árinni að segja að ferðaþjónustan sé eini vaxtarbroddurinn um þessar mundir. En úr því að svo er þá er nátturlega ekki síður mikilvægt að gera sér grein fyrir því hvað þarf að gera til þess að nýta sér þennan vaxtarbrodd sem best. Og hvað þarf að gera til að auka hann og efla og um leið gera markvissa áætlun um að hrinda því í framkvæmd sem mönnum sýnist að að gagni megi verða.
    Víða um land er aðstaða til að taka á móti fleiri ferðamönnum, bæði að hýsa þá og flytja um landið, jafnvel á aðalferðamannatímanum en með því að lengja ferðamannatímann væri unnt að nýta þessa aðstöðu mun betur. Sums staðar er þessu þveröfugt farið svo að þröskuldar myndast og kemur það í veg fyrir að ferðamannastraumur geti aukist og jafnvel er það svo að örtröð og öngþveiti skapast á einstökum stöðum, t.d. á hálendinu þar sem náttúra er viðkvæm og því horfir til vandræða.
    Það er að sjálfsögðu hin fjölbreytta og fallega náttúra ásamt öðrum landkostum sem dregur ferðamenn hingað. Á síðustu árum hefur verið unnið að mikilvægum verkefnum í ferðaþjónustunni. Þar má nefna byggingu glæsilegra hótela í Reykjavík og uppbyggingu ferðaþjónustu bænda sem nýtur sívaxandi vinsælda og viðurkenningar allra þeirra sem hennar njóta bæði innlendra og erlendra ferðamanna. Það eru slíkar framkvæmdir sem gera okkur nú kleift að auka umsvif ferðaþjónustunnar með því að styrkja veikustu hlekkina með tiltölulega litlum kostnaði. Og það er óhætt að fullyrða að aldrei hefur verið fyrir hendi meiri áhugi en nú og reyndar líka þekking um allt land til þess að hefjast handa og vinna að þessu. Vonir stóðu til að með lögum um Byggðastofnun á sl. ári mundi hún verða betur í stakk búin til að styðja við þessa þjónustugrein. Þær vonir hafa þó að sumu leyti brugðist með þeirri þróun mála sem þar hefur orðið á undanförnum mánuðum. Í fjárlögum þessa árs hefur fjármagn til hennar verið minnkað og með reglugerð hefur stjórninni verið sniðinn þrengri stakkur en áður til að taka ákvarðanir um þessi mál. En ég þekki það af eigin reynslu að það er æði þungur róður að afla hlutafjár til þessarar starfsemi jafnvel þó að rekstur fyrirtækja gangi allvel og því var efni þeirrar þáltill. sem var hér til umræðu næst á undan mikilvægt í þessu sambandi og nauðsynlegt að reyna að gera allt sem hægt er til að stuðla að því að menn vilji leggja fram fjármagn til þessarar nauðsynlegu starfsemi.
    Efling ferðaþjónustu er mikilvæg bæði til þess að taka á móti þeim sem okkur vilja heimsækja og einnig til að nýta þá atvinnumöguleika sem hún getur skapað og sannarlega veitir ekki af því nú eins og horfur eru á að þróunin verði næstu mánuði hér á landi á þessu sviði.
    Ég veit ekki hversu hratt Alþingi getur afgreitt þetta mál með athugun í nefnd og síðan afgreiðslu í þinginu né heldur hversu stjórnvöld munu bregðast fljótt við þannig að árangurinn af þessari tillögu kemur kannski ekki mikið fram á þessu ári úr því að svo langur tími hefur liðið áður en hún var tekin til umræðu. Engu að síður hygg ég að þörfin verði áfram fyrir hendi og því sé mikilvægt að vinna að þessu máli þó að það skili kannski árangri eitthvað seinna en við flm. gerðum okkur vonir um þegar við lögðum till. fram á sl. hausti.
    Ég vil svo að lokinni þessari umræðu leggja til að till. verði vísað til síðari og samgn.