Efling ferðaþjónustu

86. fundur
Fimmtudaginn 20. febrúar 1992, kl. 14:48:00 (3693)

     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ég vil lýsa stuðningi mínum við þá tillögu sem hér er til umræðu. Það hefur svo oft verið sagt úr þessum ræðustól að kannski er óþarfi að endurtaka það hversu mikilvæg ferðaþjónustan er, hversu mikilvæg atvinnugrein ferðaþjónustan er og mikilvæg fyrir efnahag landsmanna. Ferðaþjónusta hefur eflst mjög á undanförnum árum og gefur í aðra hönd verulega miklar gjaldeyristekjur þannig að sú ályktun sem hér er borin fram er mjög mikilvæg til þess að kanna hvað þarf að --- ( ÖS: . . .   það Kvennalistanum við?) Hvað segir hv. þm.? Við fáum að heyra það á eftir --- þannig að ferðaþjónustan geti tekið við því fólki sem vill heimsækja landið. Það er alveg rétt sem kom fram hér í máli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, 17. þm. Reykv., að fólk sækir hingað fallega náttúru. Að vísu talaði hann mikið um hversu hrein hún væri en um það má deila því við erum ekki barnanna best í umgengni við landið og þess vegna þurfum við að fara mjög varlega í því að hleypa hingað ferðamönnum ómælt án þess einmitt að skapa aðstöðu. Það hefur allt of oft vantað. Mjög nauðsynlegt er því að gera athugun á því hvaða þættir eru brýnastir og munu geta skilað mestum árangri til þess að við eyðileggjum ekki landið. Þótt við viljum fá ferðamenn hingað er ekki þar með sagt að við getum boðið þeim upp á hvað sem er. Við verðum auðvitað að hafa aðstöðu til að taka á móti fólki og gæta þess að ofbjóða ekki landinu.
    Ég vil geta þess að vorið 1986 samþykkti Alþingi tillögu um að kannaðar yrðu aðstæður fyrir móttöku ferðamanna um allt land og gerðar tillögur til úrbóta. Þetta var tillaga sem Kristín Halldórsdóttir, þáverandi þingmaður Kvennalistans, lagði fram og var samþykkt einróma á Alþingi. Könnun þessi fór fram og árið 1987 var gefin út skýrsla þar sem lýst var þeim aðstæðum sem fyrir hendi voru. Sá hluti tillögunnar sem fjallaði um úrbætur hefur ekki enn þá verið framkvæmdur. Ég vil því taka undir með þeim sem töluðu á undan mér að auðvitað er ekki nóg að samþykkja tillögur og segja að nauðsynlegt sé að fram fari úrbætur og endurbætur eða láta gera kannanir. Þó þær séu gerðar verður að fylgja þeim eftir. Ég hefði talið nauðsynlegt að í tengslum við þessa tillögu væri litið til þeirrar könnunar sem gerð var og athugað um úrbætur á þeim stöðum sem fyrir hendi eru því það er ekki síður nauðsynlegt en að koma upp nýrri og betri aðstöðu víða um land.
    Við höfum oft rætt um ferðamál á Alþingi og síðast á sl. ári þegar frv. um ferðamál var lagt fram, sem því miður hlaut ekki afgreiðslu. En auðvitað var ekki tekið á þáttum eins og fram koma í þessari tillögu og þess vegna vil ég aftur lýsa því yfir að ég tel nauðsynlegt að Alþingi samþykki þáltill. og reyni að sjá til þess að eitthvað verði framkvæmt. Í þessu sambandi minni ég enn og aftur á þá tillögu sem Alþingi samþykkti vorið 1987 og væri kannski ráð fyrir okkur að líta aðeins til baka og sjá hvernig þær tillögur sem Alþingi hefur samþykkt hafa verið framkvæmdar.