Efling ferðaþjónustu

86. fundur
Fimmtudaginn 20. febrúar 1992, kl. 15:10:00 (3696)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ekki hefur farið ýkja mikið fyrir umræðu um ferðaþjónustu og málefni sem tengjast henni á þessu þingi. Því er flutningur þessarar þáltill. af hálfu þriggja þingmanna Framsfl. góðra gjalda verður enda þótt væri ekki til annars en að minna á þá atvinnugrein og hvetja til þess, eins og er efni tillögunnar, að gerð verði athugun á því hvaða framkvæmdir í ferðaþjónustu eru brýnastar og fleira sem segir þar í texta tillögunnar. Ég tel að tillagan sé góðra gjalda verð og verður kannski aðeins til að minna hæstv. ríkisstjórn á málefni atvinnugreinarinnar sem hefur legið óbætt hjá garði frá því að hún settist að völdum sl. vor. Ég teldi að samþykkt þessarar þáltill. hugsanlega með breytingum og frekari áherslum væri þörf til þess að minna stjórnvöld á þennan atvinnuveg. Ég hef haft mjög litlar spurnir af því hvað hæstv. núv. samgönguráðherra er að bauka í sambandi við málefni ferðaþjónustunnar að svo miklu leyti sem stjórnvöld hafa af henni afskipti. Nú fer að verða tilefni til þess að spyrja frétta ofan úr Stjórnarráði um það mál.
    Hér er ekki margt af flokksbræðrum hæstv. samgrh. í þingsal, einhverja sá ég hilla undir í hliðarsölum. Að vísu er hér hv. 5. þm. Reykv. viðstaddur umræðuna en af valdamönnum og bjarghellum ríkisstjórnarinnar er þó einn hér staddur sem hefur þegar tekið þátt í umræðunni, hv. 17. þm. Reykv., formaður þingflokks Alþfl. Ég vil leyfa mér að beina máli mínu til hans í ósk um að hann upplýsi þingheim um hvað líði frumvarpi eða frumvörpum sem hæstv. ríkisstjórn boðaði um málefni ferðaþjónustunnar í fylgiskjali með stefnuræðu forsrh. sl. haust. Nú er að koma góa og skammt í einmánuð og ekki langt til þingloka þannig að tími fer að styttast ef ríkisstjórnin og stuðningslið hennar ætlar að efna það sem heitið hefur verið af hennar hálfu að bera fram stefnu sína í málefnum ferðaþjónustunnar á þessu þingi. Ég óska því eftir því að hv. stjórnarliðar sem hér viðstaddir umræðuna greini okkur frá því hvað líði þeirri vinnu.
    Ég held að ég segi engin tíðindi þó ég upplýsi það litla sem ég veit um þessi mál, þ.e. að mjög lítið hefur farið fyrir sjálfstæðri vinnu að þessu máli nema þá mjög lokað í kontórum hjá hæstv. samgrh. Ég hef a.m.k. þær spurnir að ferðamálaráð hafi ekki fengið að heyra hósta eða stunu um væntanlega stefnu ríkisstjórnarinnar í þeirri atvinnugrein og er það þó sá stjórnskipaður vettvangur sem er ætlað að fjalla um málefni ferðaþjónustunnar og vera stjórnvöldum til ráðgjafar um þau efni og tengiliður milli stjórnvalda og atvinnugreinarinnar.
    Það er alveg rétt sem segir í greinargerð með tillögunni að ferðaþjónusta hefur skilað íslensku þjóðarbúi síauknum tekjum og er auðvitað snar þáttur í daglegu lífi fólks í landinu og vaxandi þáttur fyrir utan það að heimsóknir erlendra ferðamanna hingað til lands eru alltaf að aukast. En hinu er ekki að leyna að vandkvæðin í málefnum atvinnuvegarins eru mörg og þau verða tæpast leyst svo vel sé nema fyrir forustu ríkisvaldsins. Ég á við eina meginundirstöðu ferðamennsku í landinu sem er hin ósnortna náttúra landsins, ekki vegna þess að það sé hún ein sem menn eigi að njóta á ferðum sínum heldur líka hið manngerða umhverfi og það sem varðar menningu fólks vítt um land. Á fjölsóttum ferðamannastöðum er ástandið þannig að vart telst boðlegt nema með undantekningum og víða er slík örtröð og átroðsla og bágborin heilbrigðisaðstaða að í rauninni bæri stjórnvöldum skylda til að hindra aðkomu ferðamanna þar.
    Ég ætla ekki að lýsa þeim tillögum sem lágu fyrir á síðasta þingi. Það var gert þegar þær voru til umræðu og hefur aðeins verið að því vikið í umræðunni. Ég ætla ekki að fara að ræða þau efni og þau orð sem féllu um það heldur aðeins minna á að hér var samþykkt úr neðri deild þingsins fyrrverandi þetta frv. með góðu samkomulagi flestra. Ég man ekki nákvæmlega hvernig atkvæði féllu við afgreiðslu þegar málinu var vísað til efri deildar á síðasta þingi með nál. sem undir rituðu allir fulltrúar í þáverandi samgn. neðri deildar, jafnt stjórnarliðar sem stjórnarandstæðingar. Í efri deild fór svo að fjallað var um málið í nefnd og afgreitt úr nefnd af fulltrúum þingflokka sem þar áttu sæti nema fulltrúa sjálfstæðismanna sem var sá eini, sá flokkur og þingmenn hans í efri deild vel að merkja, sem brá fæti fyrir afgreiðslu þessa máls rétt fyrir þinglok í fyrravetur. Auðvitað hvíla enn meiri skyldur á núv. hæstv. samgrh. að bera fram stefnu sína og standa þjóðinni skil á því hvað það í rauninni var sem hann greindi á við meiri hluta þingheims á síðasta ári í þessum efnum, að hann láti það koma fram á Alþingi með flutningi mála á þessu sviði eins og hann hefur boðað. Vonandi gefst tækifæri til að eiga orðaskipti við hæstv. ráðherra um þetta efni á grundvelli frv. þessara plagga sem mér skilst að hafi verið unnið að á kontórum í ráðuneyti hæstv. samgrh. en með mikilli leynd gagnvart samtökum í ferðaþjónustu bæði hér á höfuðborgarsvæðinu og annars staðar að því er ég best veit. Auðvitað er þetta engin skrautfjöður í hatt núv. ríkisstjórnar, ef hún hefur þá eitthvað á höfðinu lengur, og er mál til komið að við förum að sjá eitthvað af þeim fjöðrum sem hún ætlar að tjalda til í málefni greinarinnar.
    Ég vil, virðulegur forseti, ljúka máli mínu með því að þakka fyrir flutning málsins hér. Ég tel að

beri að athuga það af gaumgæfni í nefnd og hafi menn ekki þá skoðun að tillöguna beri að afgreiða umsvifalaust þá hefur hún a.m.k. nú þegar gert nokkurt gagn með því að minna á greinina og brýn málefni sem snerta hana á þinginu.