Dýravernd

87. fundur
Mánudaginn 24. febrúar 1992, kl. 14:06:00 (3701)

     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. umhvrh. fyrir að flytja frv. til laga um dýravernd þar sem í því felst endurskoðun á núgildandi lagaákvæðum um það efni. Eins og fram kom í máli ráðherra þá er nauðsynlegt og eðlilegt að við þær miklu breytingar sem orðið hafa á öllum aðstæðum að lagaákvæði séu endurskoðuð. Fyrir þá sem daglega umgangast dýr er sérstaklega mikilvægt að reglur um dýravernd séu hafðar í heiðri.
    Ráðherra taldi upp fjölmörg atriði sem frv. fjallar um og ætla ég ekki að fara út í einstakar greinar þess. Það mun verða skoðað rækilega af þeirri nefnd sem um það fjallar.
    Ráðherra minntist á að forðast bæri að taka einstakar setningar út úr og rangtúlka þær og vil ég vissulega taka undir það. Þó langar mig aðeins að minnast á 17. gr. í því sambandi að óheimilt er að nota

lifandi dýr við tilraunir, rannsóknir, framleiðslu eða prófun lyfja og sjúkdómsgreiningu og að það verði þá ekki misskilið. Við vitum að oft er verið að gera alls konar tilraunir í búrekstri á skepnum án þess að það snerti nokkuð líðan skepnanna. Það má þá ekki rangtúlka þetta þannig að það þurfi að fá leyfi ráðherra fyrir slíkum tilraunum í hvert skipti. Því er nauðsynlegt að það komi skýrt fram í nál. við hvað sé átt því það mundi æra mjög ráðherra ef hann ætti að veita undanþágu um slík atriði. Ég nefni þetta aðeins til þess að undirstrika það sem ráðherra sagði að ekki mætti misskilja ákvæði frv. og þau verði túlkuð á sem skýrastan hátt í nál. umhvrn. Að öðru leyti vil ég endurtaka stuðning minn við frv. í heild þó að einstök atriði verði að sjálfsögðu skoðuð af nefndinni og tökum við þá afstöðu til þess sem þar kemur fram.