Dýravernd

87. fundur
Mánudaginn 24. febrúar 1992, kl. 14:10:00 (3702)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Eflaust er ástæða til að fagna því að komið er fram frv. til laga um dýravernd, enda hefur það lengi staðið til og ég skal nú ekki tala langt mál um það. Það mál á eftir að fara í nefnd þar sem eiga sæti hv. þm. sem kunnugir eru þessum málum. En það sem ég vildi inna hæstv. ráðherra eftir er að mér finnst dálítið óljóst hvað í raun og veru hefur breyst í stjórnun dýraverndunarmála. Á bls. 6 er talað um helstu breytingarnar sem frv. gerir ráð fyrir að því er varðar stjórn og skipulag dýraverndarmála og eftirlit með framkvæmd laganna. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Sett verði á stofn sérstakt dýraverndarráð sem tekur til landsins alls. Ráðið kemur í stað dýraverndarnefndar samkvæmt núgildandi lögum. Hlutverk þess er sambærilegt hlutverki nefndarinnar.``
    Þar með get ég nú ekki séð að neitt hafi breyst frá því að dýraverndarnefnd starfaði og þar til dýraverndarráð tekur til starfa. Síðan er talað um að settar verði á stofn dýraverndarnefndir í héruðum landsins til að auka og tryggja eftirlit, eins og þar segir. Mér finnst hins vegar dálítið óljóst hvert hið raunverulega hlutverk nefndanna er, hvaða umboð þær í raun og veru hafi til eftirlits og þá á ég við raunverulegt eftirlit með meðferð dýra. Vera má að reglugerðir eigi eftir að skýra það nánar.
    Úr frv. sakna ég kannski umfram allt þess að mér þykir mjög lítið rými fyrir dýr sem eru á stórvirkum tæknibúum. Hér er meira átt við dýr sem ganga laus en ég held að ekki beri síður að hafa náið eftirlit með dýrum sem eru á búum. Nægir þar að nefna alifuglabú, refabú og önnur slík og ég hygg að ekki verði sagt að sérlega vel fari um dýrin eða að þau séu í eðlilegu umhverfi. Ég sé ekki annað um það en talað er um í síðari mgr. 4. gr. að sérstakt eftirlit skuli haft með dýrum sem haldin eru á stórvirkum tæknibúum. Þar er einnig talað um að áður en slík bú séu tekin í notkun og a.m.k. árlega eftir það skuli héraðsdýralæknir eða fulltrúi yfirdýralæknis skoða vistarverur og tæknibúnað sem ætlaður er dýrum og fullvissa sig um að hvort tveggja sé í samræmi við lög og reglugerðir. Mér þykir það ekki strangt eftirlit ef talið er nægja að yfirdýralæknir, fulltrúi hans eða héraðsdýralæknir líti þarna inn einu sinni á ári. Og ég vildi spyrja hæstv. ráðherra hvort ætlast sé til að nefndirnar í hinum einstöku héruðum taki að sér eitthvert raunverulegt eftirlitshlutverk.
    Í stórum dráttum sýnist mér dálítið óljóst hvert hlutverk dýraverndarnefndanna sé og mér þykir lítið ráð gert fyrir raunverulegu eftirliti með dýrabúum sem rekin eru í atvinnuskyni. Ég neita því ekki að ég hefði kosið að sjá miklu þykkara og efnismeira frv. um þessi mál því ég held að sannarlega sé ekki vanþörf á. En ég vil að sjálfsögðu bíða eftir því hvernig hv. umhvn. fer með málið þegar það verður tekið til umfjöllunar.