Málefni fatlaðra

87. fundur
Mánudaginn 24. febrúar 1992, kl. 14:20:00 (3707)

     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég sat í nefnd þeirri sem samdi þetta frv., þó þannig að ég kom mjög seint inn í samninguna og var því ekki stefnumótandi á þann hátt sem ég hefði getað orðið ef ég hefði komið fyrr inn í nefndina. Eins og fram hefur komið áttu Sjálfstfl. og Kvennalisti ekki aðild að nefndinni fyrr en nokkuð seint á starfsævi hennar.
    Ég lít svo á að þó ég hafi átt þátt í samningu þessa frv. þá sé eins með mig og raunar alla aðra að við getum kannski orðið örlítið vitrari eftir á. Og ég vil benda á nokkur atriði sem mér finnst að við þyrftum að gæta betur að.
    Í fyrsta lagi er í kafla II rætt um réttargæslu fatlaðra. Nefnd sú sem talað er um kallast svæðisráð og fer eftir kjördæmum svæðisstjórnar, gamla orðið yfir líka stofnun. Svæðisráð á að annast m.a. réttargæslu fatlaðra, að þeir fái þá þjónustu sem þeir eiga rétt á. Það er gott að einhver aðili skuli vera til sem sér um það. En mér finnst að í frv. vanti nokkuð á að það sé ákveðið hver hin raunverulega þjónusta sé sem fólkið á rétt á.
    Í kaflanum um almenna þjónustu er talað um að fatlaðir eigi rétt á sömu þjónustu og aðrir þegnar þjóðfélagsins. En svo er bætt við: ,,Reynist þjónustuþörf hins fatlaða meiri en svo að henni verði fullnægt innan almennrar þjónustu skal hinn fatlaði fá þjónustu samkvæmt lögum þessum.``
    Mér er ekki ljóst og mér finnst ekki koma verulega fram í þessu frv. hver borgi þá þjónustu og mér er t.d. spurn: Munu heyrnarlausir geta fengið greidda aðstoð við táknmálstúlkun þegar þeir þurfa á henni að halda? Það er meiri þjónusta en fjöldinn þarf en samt sem áður mjög réttlátt að þeir fái hana. Mér finnst sérstaða heyrnleysingja koma mjög lítið í ljós í frv. enda eru þetta almennt og kannski erfitt að kveða sérstaklega á um þetta. En mér er enn spurn: Hver á að borga þetta og hvernig er með þjónustu eins og táknmálstúlkun? Hvert getur fólkið snúið sér til þess að fá aðstoð við hana?
    Í stoðþjónustukaflanum er á sama hátt talað um að fatlaðir, sem þarfnast endurhæfingar, eigi rétt á henni. Þá kemur aftur að því hver greiði slíka aðstoð. Munu heyrnarlausir fá stoðþjónustu að þessu leyti, þ.e. þýðingu og túlkun? Vel getur verið að einhverjum detti í hug að þetta heyri fyrst og fremst undir menntmrn. Ég held að við séum þarna á mörkum menntmrn. og félmrn. vegna þess að táknmálstúlkar munu bæði vinna við túlkun í kennslu og líka í ýmsum öðrum þjónustugreinum.
    Í köflunum um þjónustustofnanir og búsetu er rætt um hinar ýmsu gerðir þjónustustofnana og bústaða, þar með talin vistheimili. Sumar stofnanir eru bæði heimili og þjónustustofnun eins og t.d. Sólheimar, sem eru mjög skýrt dæmi. Mér finnst að kveða hefði mátt nokkuð skýrar á um vistheimilin og stöðu þeirra.
    Í 13. gr., í kafla um framkvæmd þjónustunnar, er talað um að sjá til þess að fatlaðir fái sálfræðiþjónustu og félagsráðgjöf á svæðinu. Þar vantar enn á ný þjónustu eins og táknmálstúlkun. Táknmálstúlkun og viðurkenning á táknmáli er svo nýtt fyrirbrigði í samfélaginu að það er hugsanlegt að okkur sem í nefndinni vorum hafi láðst að gæta hags hennar eins og skyldi. Táknmálstúlkun er miklu meiri stuðningur en það sem gamalgróið er í kerfinu. Ég vona að hæstv. ráðherra og hv. þm. skilji hvað ég er að fara. Með frv. þurfum við að styðja sérstaklega við þetta fyrirbrigði sem við á Íslandi erum fyrir svo stuttu farin að skilja að er undirstaðan þess að heyrnarskertir og heyrnarlausir geti notið eðlilegs lífs í samfélaginu.
    Í VIII. kafla er getið um hin ýmsu hlutverk Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins. Mér finnst að þar ætti að bætast við nýr töluliður sem fjallaði um að Greiningar- og ráðgjafarmiðstöð ríkisins hefði samstarf við Samskiptamiðstöð heyrnarlausra. Það er fjöldinn allur af öðrum stofnunum sem Greiningar- og ráðgjafarstöðin þarf að hafa samstarf við. Þær stofnanir eru merkar og alls góðs maklegar. En það þarf að styrkja stöðu Samskiptamiðstöðvarinnar og viðurkenna táknmál sem mjög þýðingarmikinn hlut og þess vegna þarf sérstaklega að geta um það.
    Í 19. gr. höfum við, í hinni ágætu nefnd, kveðið dálítið sérkennilega að orði. Þar stendur:
    ,,Starfsmenn í heilbrigðisþjónustu, skólakerfi og félagsþjónustu skulu sérstaklega gefa gaum andlegu og líkamlegu atgervi barna.`` Sérkennilegt er að það skuli sérstaklega vera nefnt því þetta er auðvitað hlutverk þessara aðila. En þetta höfum við nú gert. Ég veit ekki af hverjum við orðum þetta svona en það stingur í augu þegar maður fer að lesa þetta upp á nýtt. Kannski mætti orða þetta öðruvísi og betur og hlutverk félmn. er að laga það til.
    Í 22. gr. í IX. kafla er talað um að fjölskyldur fatlaðra skuli eiga kost á þjónustu stuðningsfjölskyldna eftir því sem þörf krefur. Að dvöl fatlaðs einstaklings hjá stuðningsfjölskyldu skuli bundin í samningi og miðast við ákveðið tímabil o.s.frv. Þetta er allt harla gott. Stuðningsfjölskylda, sem hefur fatlað barn á heimili sínu, fær 2.300 kr. í greiðslu, eftir því sem mér er best kunnugt. Svo undarlegt sem það nú er þá er þetta allt skattskylt þótt vitað sé að mikill hluti af þessu eru útgjöld vegna þess að barnið er á heimilinu, bæði matarútgjöld og önnur útgjöld. Ég nefni þetta þó þetta sé ekki inni í frv. En þetta er hlutur sem hæstv. félmrh. og hans lið þyrftu að hlutast til um að laga.     Í 23. gr. er talað um skammtímavistun og ég spyr: Mundi eins vera farið með þær greiðslur sem fólk fengi fyrir skammtímavistun? Þetta er ekki réttlátt og það verður að laga.
    X. kafli fjallar um liðveislu og er harla góður, finnst mér. Mjög mikilvægt er að stuðla að því á allan hátt að fatlað fólk geti átt sem mest samskipti við alla aðra í samfélaginu og hefur víða tekist vel til þar sem ég þekki til. Þess vegna vil ég sérstaklega lýsa yfir því að þetta er nauðsynlegur og mikilvægur kafli.
    Í kafla XI, um félagslega hæfingu og endurhæfingu, stendur í 28. gr., um styrk til þess að standa undir endurhæfingu, að nemi geti fengið styrk til að greiða námskostnað sem ekki er greiddur samkvæmt ákvæðum annarra laga. Þá er mér enn á ný spurn: Mundi t.d. undir þessum lið vera hægt að vænta þess að táknmálstúlkun yrði greidd?
    E.t.v. þykir það undarlegt að ég skuli tala svona mikið um táknmálstúlkun. Ég hef í störfum mínum úti í samfélaginu --- en eins og hv. þm. vita þá er ég varaþingmaður sem er stödd hér næstum fyrir tilviljun --- mjög oft að rekist á að táknmálstúlkun er erfitt að fá greidda. Það eru engar stofnanir til sem álíta sér það skylt að greiða túlkunina en samt sem áður vita allir að túlkunarinnar er þörf. Því hef ég verið svo margmál um táknmálstúlkun.
    Í kaflanum um atvinnumál, XII. kafla, er rætt um ýmis störf, þ.e. störf á vernduðum vinnustöðum. Einnig er mikið er gert úr því að á hverju starfssvæði skuli fötluðum standa til boða vernduð vinna á almennum vinnumarkaði. Mér finnst þetta afskaplega góð og falleg hugsun en ég óttast, eins og ég hef raunar sagt áður í þessum stól, að við gerum okkur allt of miklar vonir um skjótan árangur í þessum málum, sérstaklega eins og ástandið er í atvinnumálum á Íslandi í dag. Hinir vernduðu vinnustaðir verða að fá að blómstra líka þrátt fyrir það að þeir hafi kannski ekki veitt fólki þá þjálfun sem vonast var eftir svo það gæti komist út í atvinnulífið. Í dag eru allt of margir fatlaðir atvinnulausir, allt of margir fatlaðir að missa atvinnu og við getum ekki vænst þess að þetta ágæta ákvæði um verndaða vinnu á almennum vinnumarkaði verði nema lítill hluti af úrræðunum fyrir fatlaða.
    Það er auðvitað dýrt að standa undir alls konar félagslegri þjónustu. En ég álít að það sé miklu dýrara að veita ekki þá þjónustu sem við getum veitt til þess að hver einstaklingur í íslensku samfélagi geti innt það af hendi sem honum er megnugt og það er allt of dýrt að stuðla ekki að því að hver einn hljóti þá lífshamingju sem möguleg er. Ég held að í heild stuðli þessi lög að því og því fagna ég frv. En allt það sem ég hef sagt hingað til og kannski hefði ég átt að segja margt fleira mætti að mínum dómi athuga vandlega í þeirri nefnd sem núna fjallar um þessi lög.