Málefni fatlaðra

87. fundur
Mánudaginn 24. febrúar 1992, kl. 15:11:00 (3714)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Á undanförnum tveimur áratugum hefur verulega skilað áleiðis með fjárveitingar og löggjöf í þessum málaflokki. Og eðlilegt er að menn reyni að halda áfram á þeirri braut. Einn liður í framfaraátt er að fara yfir gildandi lög og reglur og leitast við að leggja fram breytingar til bóta eftir því sem menn koma sér saman um.
    Í svo viðamiklu máli sem frv. er, er að mínu viti nauðsynlegt að fara afar vandlega yfir það í nefnd og fá álit hjá þeim aðilum sem málið varða, bæði þeirra sem að frv. standa og annarra. Um það þýðingarmikið mál er að ræða að verulegu máli skiptir að vandað sé til verka við endurskoðun laganna.
    Ýmislegt í frv. þykir mér vera til bóta og tel að menn séu að stíga þar skref fram á veginn. Ég vil ekki nefna nein atriði þar að lútandi en láta hins vegar koma fram við umræðuna það sem ég hef efasemdir um á þessu stigi.
    Í fyrsta lagi vil ég nefna að mér þykir fullmikil miðstýringarárátta í frv. Það er mjög greinileg tilhneiging að fela vald og forræði beint undir félmrn. og draga það úr annarra höndum. Þeirri tilhneigingu í stjórnsýslu er ég í grundvallaratriðum andsnúinn, almennt séð og hef efasemdir um þá tilhneigingu sérstaklega í þessum málaflokki.
    Ég hef engin rök sem sannfæra mig um að rétt sé að fræðslustjórar eigi ekki lengur aðild að svæðisstjórn og ég sé heldur ekki rök fyrir því að nauðsynlegt sé að taka verkefni sem lúta að stjórn Framkvæmdasjóðs undan heilbrrn. og menntmrn. Sú nefnd hefur hingað til gert tillögur til skiptingar fjár og hefur þurft staðfestingu þriggja ráðuneyta. Nú er gert ráð fyrir að félmrh. einn staðfesti þær tillögur og ég hef ekki séð sannfærandi rök fyrir þeirri breytingu. Hins vegar er mér kunnugt um ágreining hæstv. félmrh. við

núv. stjórnarnefnd en ég tel þann ágreining ekki nægan rökstuðning fyrir þeirri breytingu sem hér er lögð fram.
    Ég tek undir það sem fram kom í máli hv. 2. þm. Austurl. að nauðsynlegt sé að skilgreina nokkuð vel hlutverk sveitarfélaga í þessum efnum, bæði til þess að ekki verði deilt um það hverjar skyldur sveitarfélaga eru og eins hygg ég nauðsynlegt að sveitarfélög átti sig á því hvað þeim sé ætlað í þessum efnum og að þau séu reiðubúin að axla þá ábyrgð og þau verkefni sem í frv. er gert ráð fyrir að þeim séu falin.
    Ég hef líka efasemdir um það sem fram kemur í 15. gr. frv. að félmrh. sé heimilt að setja það skilyrði fyrir útgáfu starfsleyfis til sjálfseignarstofnana að hann eigi fulltrúa í stjórn þeirra stofnana. Ég tel nauðsynlegt að fara rækilega yfir rökin með og móti þeirri tillögu. Eins hef ég verulegar efasemdir um það ákvæði í 39. gr. frv. að í stjórnarnefnd skuli taka sæti fulltrúi fjárln. Alþingis þegar stjórnarnefndin fjallar um málefni Framkvæmdasjóðs fatlaðra. Ef Alþingi er á annað borð er að setja lög og fela tilteknum aðilum að fara með tiltekin verkefni og komist menn að þeirri niðurstöðu að nauðsynlegt sé að hafa eftirlitsmann á þeim stað til að fylgjast með verkefnum þeirra sem þar vinna, tel ég það mun víðtækari stefnumörkun en svo að hún afmarkist eingöngu við stjórnarnefnd um málefni fatlaðra. Þau rök sem ég þykist sjá þarna á bak við segja mér að menn hljóti þá að ætla að setja fulltrúa Alþingis í stjórnir annarra stofnana um allt þjóðfélagið sem fara með fjármuni á vegum ríkisins. Ég þykist líka sjá að ef nauðsynlegt er að fulltrúi Alþingis sitji í stjórnarnefndinni við þetta verkefni þá sé jafnsjálfsagt að fulltrúi Alþingis sitji í sömu nefnd þegar fjallað er um önnur verkefni stjórnarnefndarinnar og mætti þá nefna að eðlilegt væri að fulltrúi félmn. Alþingis sæti í stjórnarnefndinni þegar hún fjallar um önnur verkefni en málefni Framkvæmdasjóðs fatlaðra. Ég tel að við verðum að ræða þetta atriði mjög rækilega í nefnd og þá almennu stefnumörkun sem felst í þessu ákvæði.
    Að svo komnu máli, virðulegi forseti, tel ég ekki rétt að bæta miklu við það sem ég hef sagt. Ég hef verið með frv. til athugunar um nokkurt skeið og hef viðað að mér áliti aðila sem eru sérfróðir um þessi mál þannig að ég mun geyma mér að fjalla rækilegar um það þar til eftir umfjöllun í nefnd. Ég vil þó segja það almennt og endurtaka það sem kom fram hjá mér áðan að ég tel nauðsynlegt að menn vandi sig mjög við þessa lagasmíð og fari rækilega yfir frv. í nefndastarfi.
    Virðulegi forseti, ég hef þá gert grein fyrir þeim atriðum sem ég hef sérstakar efasemdir um. Ég hef ekki farið þá leið að tiltaka þau atriði sem ég tel vera til bóta en þau eru vissulega býsna mörg.