Aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að greiða fyrir kjarasamningum

88. fundur
Þriðjudaginn 25. febrúar 1992, kl. 13:40:00 (3726)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin hefur á undanförnum vikum átt óformleg samtöl við forustumenn vinnuveitenda og launþega þar sem farið hefur verið yfir stöðuna í kjaramálum. Samningar hafa verið lausir um mjög langan tíma. Það hefur komið fram af ríkisstjórnarinnar hálfu að hún telur eðlilegt að aðilar vinnumarkaðarins beini sameiginlega kröfum eða óskum um atbeina ríkisins til hennar svo að hægt sé að taka afstöðu á virkan hátt í lausn kjarasamninga með þeim hætti að sameiginlegar óskir hafi borist á borð ríkisstjórnar.

    Í þriðja lagi má nefna að Alþýðusambandið hefur ritað ríkisstjórninni bréf og beðið um viðræður sem tengjast kjarasamningum, viðræður um atvinnumál og fleira þess háttar. Ríkisstjórnin hefur þegar svarað því bréfi og lýst sig fúsa til að taka þátt í slíkum viðræðum. Það er mitt mat að enn hafi aðilar vinnumarkaðarins ekki komið sér saman um með hvaða hætti þeir kjósi að ríkisvaldið gerist aðili að samningum eða hafi afskipti af þeim en það er forsenda þess að mínu mati að ríkisstjórnin gangi til þess verks. Hins vegar hefur hún margoft látið koma fram í viðtölum við þessa aðila að hún er reiðubúin til að kanna alla þá þætti sem upp kunna að koma í nánu samráði við þessa aðila.