Aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að greiða fyrir kjarasamningum

88. fundur
Þriðjudaginn 25. febrúar 1992, kl. 13:41:00 (3727)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir þessi svör svo langt sem þau ná. Ég skil hæstv. forsrh. svo að það beri ekki að taka mikið mark á þeim yfirlýsingum sem hæstv. utanrrh. var með fyrir nokkrum dögum síðan, m.a. í blaðaviðtölum, að ekki kæmi til greina að bakka með neitt af þeim ráðstöfunum í efnahagsmálum og ríkisfjármálum sem ríkisstjórnin hefði ákveðið. Ég vona að það sé þannig að það beri að taka mark á hæstv. forsrh. en ekki á hæstv. utanrrh. í þessu efni.
    Ég vil jafnframt spyrja hæstv. forsrh.: Í þeim tilvikum þar sem aðilar vinnumarkaðarins hafa í raun sameiginlega óskað eftir breytingum, t.d. varðandi lagasetningu um ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota, er ríkisstjórnin þá tilbúin til þess að draga slíkar ráðstafanir til baka? Eins og hæstv. forsrh. man eflaust var það sameiginleg afstaða aðila vinnumarkaðarins, Vinnuveitendasambands, Alþýðusambands og annarra aðila, að leggjast gegn þeim breytingum sem þar voru gerðar. Að öðru leyti sýnist mér ljóst að ríkisstjórnin skjóti sér á bak við það að menn hafa ekki náð saman um sameiginlegar kröfur í þessu efni sem er ekki nema að hluta til rétt eins og ég hef hér bent á. Ég vil gjarnan að hæstv. forsrh. tjái sig aðeins nánar um þetta atriði þar sem fyrir liggur sameiginleg afstaða aðila vinnumarkaðarins. Er ríkisstjórnin tilbúin til að draga slíkar ráðstafanir til baka til að greiða fyrir því að samningaviðræður komist af stað? Augljóslega gerist ekki mikið í þessum efnum ef hver bíður eftir öðrum. Það er varla hægt að tala um að viðræður hafi komist af stað enn þá, m.a. vegna þess að ríkisstjórnin hefur ekkert lagt þar af mörkum. Þvert á móti torveldaði hún upphaf samningaviðræðna með ráðstöfunum sínum sem jafngilda 2% kjaraskerðingu á hinum almenna vinnumarkaði að mati Alþýðusambands Íslands. Og er hæstv. forsrh. ekki ljóst að e.t.v. eru ekki nema fáeinar vikur til stefnu þangað til hér kunna að verða skollin á allsherjarátök á vinnumarkaði?