Aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að greiða fyrir kjarasamningum

88. fundur
Þriðjudaginn 25. febrúar 1992, kl. 13:44:00 (3728)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Virðulegi forseti. Ég tel ekki að út úr mínum orðum hafi mátt lesa að það væri ósamhljómur milli þess sem ég sagði og þeirra orða hæstv. utanrrh. sem vitnað var til. Varðandi ríkisábyrgð á laun, þá er rétt að það kom fram í ákveðinni málsmeðferð hér í þinginu að þessir aðilar lýstu báðir andstöðu, kannski hvor með sínum hættinum þó, við þessa ákvörðun ríkisstjórnarinnar en það mál hefur ekki komið upp á borð sérstaklega vegna kjarasamninganna.
    Ég vil vekja athygli á því, vegna þess sem hv. þm. nefndi um aðgerðir ríkisstjórnarinnar sem hefðu torveldað gerð kjarasamninga, að þá hefur komið fram að aðilar vinnumarkaðarins leggja mikla áherslu á það að hér skapist skilyrði til vaxtalækkana og þær aðgerðir sem ríkisstjórnin greip til og þingmeirihluti var fyrir hér á Alþingi við lagasetningu í tengslum við fjárlög voru auðvitað til þess fallnar að skapa grundvöll til að vextir mættu lækka. Ég vek athygli á að raunvextir fara lækkandi. Nafnvextir eru nú þeir lægstu sem hér hafa verið þó raunvextir séu enn þá nokkuð háir. Vextir af spariskírteinum ríkissjóðs hafa verið lækkaðir og afföll af húsbréfum minnka. Allt eru þetta þættir sem vitað er að aðilar vinnumarkaðarins meta mikils eins og fram hefur komið í yfirlýsingum þeirra.