Vegáætlun 1991--1994

88. fundur
Þriðjudaginn 25. febrúar 1992, kl. 14:02:00 (3733)

     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Hæstv. samgrh. hefur mælt fyrir till. til þál. um breytingu á þál. um vegáætlun fyrir árin 1991--1994 af ástæðum sem hann hefur gert grein fyrir, þ.e. að ríkisstjórnin hefur ákveðið og fengið samþykkt Alþingis fyrir því að skera niður framlög til vegagerðar. Slíkt hefur gerst áður en yfirleitt hefur það verið við þær aðstæður að þensla hefur verið í þjóðfélaginu. Í baráttu við verðbólgu sem oft var býsna erfið var talið óhjákvæmilegt að reyna að draga eitthvað úr henni með því að ríkið hægði á framkvæmdum sínum þegar mikið var að gera á öðrum sviðum. Nú er þessu þveröfugt varið og því hlýtur viðhorfið að vera nokkuð annað til þessa niðurskurðar. Jafnframt er vitað að margar framkvæmdir í vegagerð eru mjög arðbærar og því hagkvæmt fyrir þjóðfélagið og ríkið að þær séu unnar á þeim tímum þegar tilboð í vinnu eru mjög lág, kannski þriðjungi og allt niður í helmingi lægri en kostnaðaráætlun gerir ráð fyrir.
     Síðan er það hin hliðin, þ.e. atvinnuþátturinn. Við þessar aðstæður þegar þeim fjölgar sífellt sem skortir atvinnu þá fer að verða lítill viðbótarkostnaðurinn sem þjóðfélagið þarf að greiða við það að nýta vinnuafl og verkfæri, verkfæri sem eru fyrir hendi hvort sem er og vinnuafl sem þarf að greiða atvinnuleysisbætur til. Því hlýtur þessi niðuskurður mjög að orka tvímælis svo ekki sé dýpra í árinni tekið. En þessi stefna var mörkuð með fjárlagagerðinni fyrir áramótin og í sjálfu sér er það því gerður hlutur og afráðinn. Hér er því aðeins verið að ræða hvernig eigi að bregðast við þessari breyttu stefnu, hvernig á að skera niður þær framkvæmdir sem búið var að setja á áætlun. Það er vissulega meira en lítið þegar almennar framkvæmdir í vegagerð dragast saman um rúmlega 19% og það hlýtur einnig að koma niður á mörgum brýnum og arðbærum framkvæmdum. Um þetta verður samgn. að fjalla og ég skal ekki fara frekar út í það hér. Hins vegar eru nokkrar spurningar sem fróðlegt væri að heyra svör við. Hver er t.d. stefna núv. ríkisstjórnar um framhaldið? Hér er aðeins tekin fyrir áætlun þessa árs og að sjálfsögðu er það mjög bagalegt þegar komið er þetta fram á árið að gera slíkar ráðstafanir og það liggur ekki enn fyrir hvað verður fyrir barðinu á niðurskurði. Því væri það mjög æskilegt að fá að vita um er stefna ríkisstjórnarinnar um framhaldið. Ætlar hún að skera niður svipað á árunum 1993 og 1994 og gert er nú og hvenær er líklegt að þjóðin og Alþingi fái að vita um þann vilja og það áform ríkisstjórnarinnar?
    Eins og ég sagði áður er niðurskurður til almennra framkvæmda um 19%, þar af líklega einna mestur til sýsluvega. Þetta verkefni var algerlega fært yfir til ríkisins fyrir nokkrum árum. Fróðlegt væri að fá upplýsingar um það frá samgrh. hve miklu nemur raungildislækkun frá því síðasta ári áður en þetta var alveg fært yfir til ríkisins og til þeirrar tölu sem nú er gert ráð fyrir að renni til þessarar starfsemi samkvæmt þessari endurskoðuðu vegáætlun. Hæstv. ráðherra drap á að gerður hefði verið samningur á sl. ári við Reykjavíkurborg til að grynna eitthvað á skuldum ríkisins við hana vegna framkvæmda á þjóðvegum í þéttbýli og vissulega er hægt að taka undir orð hæstv. ráðherra að það er æskilegt og rétt að standa við gerða samninga. En óneitanlega kom þá strax í huga minn af hverju hæstv. landbrh. telur ekki nauðsynlegt að standa við gerða samninga um bændastéttina um launagreiðslur til hennar, eins og ég hef gagnrýnt fyrr á þessu þingi og talið hægt að standa við. Af hverju telur hæstv. ráðherra að það gildi ekki það sama um alla samninga?
    Ég skal ekki tefja þessar umræður lengur nú því eins og fram kom hjá mér fyrr tel ég að það sé mjög brýnt að þetta mál verði sem fyrst tekið til skoðunar í nefnd og afgreitt frá Alþingi. Nógu slæmur er sá dráttur sem þegar er orðinn á því að fá að vita hvernig niðurskurðinum verður beitt þó að reynt verði að hraða vinnunni hér eftir. Að sjálfsögðu þarf samt að ætla nefnd þann tíma sem henni er nauðsynlegur til að fjalla um allar hliðar þess.