Vegáætlun 1991--1994

88. fundur
Þriðjudaginn 25. febrúar 1992, kl. 14:11:00 (3734)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Ég vil fara nokkrum orðum um þá vegáætlun eða tillögu um aukaendurskoðun á gildandi vegáætlun, sem er kannski réttar að kalla þetta, fyrir árin 1991--1994. Eins og hæstv. samgrh. gerði hér grein fyrir eru svo miklar breytingar lagðar til af hálfu ríkisstjórnar á vegáætlun að ekki er annars kostur en taka hana til meðferðar hér á Alþingi á þessum vetri þó svo að reglubundin endurskoðun hefði samkvæmt lögum ekki átt að fara fram fyrr en á næsta ári. Það ber vissulega að harma að þetta skuli vera niðurstaðan, sérstaklega í því ljósi að þær breytingar, sem lagðar eru til, eru til skerðingar á framkvæmdum í vegamálum.
    Ég vil fyrst gera lítils háttar athugasemd við eitt atriði sem kom fram í máli hæstv. samgrh. Ég tel að hann hafi ekki orðað það á réttan hátt miðað við það sem lagt var upp með við afgreiðslu vegáætlunar vorið 1991. Þar var ekki meiningin eða ég tel það ekki nákvæma lýsingu að tala um að staðið hafi til að fella niður afslátt á blýlausu bensíni. Það var alls ekki ætlunin að afnema þann verðmismun sem væri á bensíni með blýi og blýlausu bensíni. Þvert á móti var meiningin að hæfilegur verðmunur yrði látinn halda sér til að hvetja til notkunar á blýlausu bensíni. Um það var mörkuð stefna í fyrri ríkisstjórn á árunum 1989--1990. Hins vegar ráku menn sig á það að ef þessi verðmunur yrði áfram búinn til með því eingöngu að veita afslátt frá fullri gjaldtöku á þeim hluta bensínsins sem seldur væri án blýs mundi það smátt og smátt rýra tekjumöguleika Vegasjóðs. Það var ekki ætlunin þegar afsláttur var innleiddur á blýlausu bensíni að það skyldi koma sérstaklega niður sem tekjuminnkun hjá Vegasjóði. Tilgangurinn var sá að hvetja til notkunar á blýlausu bensíni og búa þurfti til hæfilegan verðmun á blýlausu og blýbensíni til

þess að neytendur sneru sér í vaxandi mæli að notkun blýlauss bensíns. Þetta hefur blessunarlega gengið eftir og þessum tilgangi hefur verið náð. Hins vegar ráku menn sig á að tæknilega verður það þannig að breyta verður ákvæðum laga um innheimtu bensíngjalds með einhverjum hætti og annaðhvort lyfta því þaki sem þar er sett eða útbúa heimildir til töku bensíngjalds þannig að Vegasjóður geti þrátt fyrir þennan verðmun haldið óbreyttum tekjumöguleikum sínum að raungildi. Þetta er tæknilegt úrlausnarefni sem þarf að leysa með einhverri lítils háttar breytingu á lögum um fjáröflun til vegamála. Ætlunin var að slíkar breytingar yrðu unnar á síðasta ári og lagðar fram á þessu þingi. Þær hafa því miður ekki látið á sér kræla og ég vil þess vegna spyrja hæstv. samgrh. hvort ekki sé ætlunin að gera þessar breytingar þannig að til framtíðar litið geti Vegasjóður aflað svipaðra tekna að raungildi innan ramma laga um fjáröflun til vegamála en eftir sem áður haldi sér hæfilegur verðmunur í útsölu á bensíni með tilliti til þess hvort það inniheldur blý eða ekki. Ég hygg að um þetta mál sé enginn ágreiningur, ég trúi því ekki. Ég held að allir séu sammála um að það sé æskilegt að hvetja til notkunar á blýlausu bensíni og það hefur gengið vel eins og ég sagði en um 70% bíleigenda nota blýlaust bensín. Hins vegar þarf svo sannarlega að tryggja það að Vegasjóður hafi eftir sem áður óbreytta tekjumöguleika við álagningu þessara gjalda. Það er tæknilegt úrlausnarefni að breyta þannig lagaákvæðum um þessa innheimtu að þetta hvort tveggja geti farið saman. Ég hef vonandi skýrt það út með fullnægjandi hætti að það var ekki ætlunin að láta þennan verðmun hverfa. Hins vegar sáu menn að ráðast þyrfti í þessa breytingu til þess að unnt væri að tryggja tekjuforsendur Vegasjóðs til frambúðar eins og þær voru fyrir daga blýlauss bensíns.
    Varðandi það sem hæstv. ráðherra upplýsti hér um þann slaka sem er í hinum mörkuðu tekjustofnum á innheimtu bensíngjalds og þungaskatts, þá er ekki mikið um það að segja annað en að það er pólitísk ákvörðun ríkisstjórnar að nýta ekki þessa tekjustofna til fulls. Það kemur að sjálfsögðu niður á tekjum Vegasjóðs og möguleikum þar til framkvæmda. Ég hlýt að lýsa því sem minni skoðun að æskilegast hefði verið að halda sig við áform um að ná upp fullri nýtingu á þessum tekjustofnum í áföngum eins og áformað var að gera við afgreiðslu vegáætlunar vorið 1991. Þeir væru því fullnýttir á þessu ári og til frambúðar og það væri sá grunnur sem vegáætlun og langtímaáætlun um framkvæmdir í vegamálum byggði á.
    Það hlýtur að vera nokkuð nöturlegt fyrir þá hv. þm. sem áttu þátt í því að semja tillögur um langtímaáætlun í vegamálum, þar sem þessi stefna var mörkuð í sæmilegri samstöðu, að það væri ekki raunhæft að reikna með að framkvæmdir í vegamálum á komandi árum mundu grundvallast á öðru en mörkuðum tekjustofnum Vegasjóðs. Það þarf ekki að rekja það fyrir hv. alþm. að fram til þess tíma að síðasta vegáætlun og langtímaáætlun voru afgreiddar, höfðu menn jafnan reiknað með því að til viðbótar fullri nýtingu hinna mörkuðu tekjustofna kæmu umtalsverðar beinar fjárveitingar úr ríkissjóði til að standa undir framkvæmdum í vegamálum. Þannig var hin upphaflega langtímaáætlun afgreidd á sínum tíma og allar vegáætlanir frá þeim tíma og til ársins 1991 þótt vegáætlun vorið 1989 tæki að vísu að nokkru leyti mið af þessum breytta veruleika. Hitt er svo staðreynd að allan þennan tíma létu þessar beinu fjárveitingar úr ríkissjóði á sér standa. Hver vegáætlunin á fætur annarri var endurskoðuð og samþykkt hér á Alþingi á níunda áratugnum á grundvelli þeirrar óskhyggju að á næsta ári eða þar næsta mundu menn verða svo rausnarlegir að leggja stórar fjárhæðir í formi beinna framlaga úr ríkissjóði inn í vegamálin til viðbótar hinum mörkuðu tekjum. En þetta reyndist jafnan óskhyggja. Við þetta var aldrei staðið og þess vegna var það niðurstaðan, að mínu mati alveg með réttu og á grundvelli raunsæis, að hverfa frá þessu ráði, hætta að byggja vegáætlanirnar þannig lagað séð á sandi en treysta hins vegar á pólitíska samstöðu um að fullnýta hina mörkuðu tekjustofna til framkvæmda í þessu skyni. Hér er því miður horfið frá því. Nú gefast menn upp við það þannig að þá stendur ekki einu sinni það eftir að menn ætli sér að nota til framkvæmda í vegamálum af fullu afli tekjur á grundvelli hinna mörkuðu tekjustofna. Þetta er sú afturför sem við mönnum blasir í þessum efnum. Þetta held ég að sé nauðsynlegt að rifja hér upp og þyrftu þó að vera í salnum ýmsir hv. alþm. sem hafa látið ýmislegt í sér heyra á undanförnum árum, t.d. hv. 2. þm. Norðurl. v., hv. þm. Pálmi Jónsson. Það er mikill skaði að hann skuli ekki treysta sér til að vera viðstaddur umræður um vegamál nú við þessar aðstæður, m.a. í ljósi þess hversu skörulega honum mæltist hér á árinu 1989. Þá var hv. þm. mikill hugsjónamaður í vegamálum og taldi að þeir sem þá stóðu að hlutunum slægju illilega slöku við, gott ef hæstv. núv. samgrh. gekk ekki í lið með honum við að gagnrýna frammistöðu þeirra sem stýrðu málum á þeim tíma. ( Landbrh.: Og var ástæða til.) Og var ástæða til, segir hæstv. samgrh. Hvað má þá segja núna, hæstv. samgrh.? Hvað má þá segja um garpskapinn núna? Hafi stór orð hv. þm. á árunum 1989 og 1991 átt rétt á sér, hvað má þá segja núna þegar við mönnum blasir þessi frammistaða sem ég hef hér verið að gera grein fyrir?
    Nei, staðreyndin er auðvitað sú, hæstv. forseti, að þetta er ákaflega dapurlegt nesti sem hæstv. samgrh. leggur hér á borðið. Ég held að fáir samgrh. hafi byrjað feril sinn dapurlegar en einmitt þessi núv. hæstv. samgrh. sem varð að láta það verða eitt af sínum fyrstu verkum síðasta vor að skera niður framkvæmdir í vegamálum um 350 millj. kr. Niðurskurðurinn sem hér er lagður til frá gildandi vegáætlun er upp á 766 millj. kr. að raungildi í skerðingu á vegafé. Þessi skerðing stafar af þremur ástæðum. Í fyrsta lagi er horfið frá 250 millj. kr. lántöku til að flýta framkvæmdum við Vestfjarðagöng. Sá kostnaður er tekinn yfir á almennar vegaframkvæmdir og skerðir að sjálfsögðu framkvæmdagetuna þar sem þessu nemur. Í öðru lagi eru 265 millj. kr. gerðar upptækar í Vegasjóð og það gera samtals 515 millj. úr Vegasjóði í ríkissjóð. 265 millj. kr. eru gerðar upptækar í Vegasjóði og færðar yfir í ríkissjóð. Þeim er stolið, ef notuð

er íslenska, úr Vegasjóði. Í þriðja lagi vantar svo 251 millj. upp á að hinir mörkuðu tekjustofnar skili eins og þeim er beitt eða verður beitt á árinu því fé inn í vegamálin sem þeir ættu að gera. Og þegar þessar þrjár tölur eru lagðar saman, þá gera það 766 millj. kr. sem vantar upp á að framvæmdagildi haldi sér í vegamálum.
    Ég hlýt jafnframt að gera athugasemdir við framsetningu í fskj. með þáltill. þar sem bersýnilega er verið að gera tilraunir til að blekkja menn varðandi uppsetningu á hlutunum en ég tel það ámælisvert. Þar á ég við þær framkvæmdir árið 1991 sem settar eru upp í töflu á bls. 4 eða öftustu síðu þskj., að eingöngu eru sýnd útgjöld til vegamála á árinu 1991 eins og þau urðu eftir að hæstv. ríkisstjórn hafði ákveðið og að skera niður fjárveitingar til vegamála um 350 millj. kr. Síðan er komið og sagt að fjárveitingar aukist nokkuð milli ára og menn fá þennan snilldarlega samanburð út með því að setja eingöngu inn hina niðurskornu tölu á árinu 1991. Það er þannig sem hæstv. samgrh. og hv. stjórnarþingmenn fá þennan ánægjulega samanburð út. Þeir bera saman núverandi niðurstöðutölur þessarar till. til þál. um vegáætlun og eigin niðurskornar framkvæmdir, þá fá þeir nokkurn vöxt. Þarna þyrfti að standa a.m.k. til samanburðar samreiknuð niðurstöðutala vegáætlunar fyrir árið 1991 eins og hún var afgreidd hér á Alþingi vorið 1991 og þá mundi láta nærri að það væru um 5.770--5.780 millj. kr. Frá þeirri tölu er auðvitað um umtalsverðan niðurskurð á raungildi fjárveitinga að ræða. En þetta liggur tiltölulega ljóst fyrir, hæstv. forseti, og vonandi þarf ekki að fara út í miklar rökræður um þetta. Sú staðreynd blasir við mönnum að raungildisskerðingin er 776 millj. kr. Að nafngildi eru þetta 1.003 millj., þ.e. ef tekin er niðurstöðutala vegáætlunar fyrir árin 1991--1994, eins og hún stendur er þarna um lækkun upp á 1.003 millj. kr. að ræða. Það skýrist af því að vegáætlunin gerði ráð fyrir 8% verðlagsbreytingu milli áranna 1991 og 1992 en reyndin varð síðan 3,5%--4%. Þegar þetta er tekið inn í myndina er raungildisskerðingin ekki 1.000 millj. heldur 766 millj. Ég hef orðið var við að menn hafa svolítið verið að rugla þessu saman. Báðar tölurnar hafa verið í umferð, að niðurskurður vegafjár væri 1 milljarður eða hann væri 766 millj. kr. Báðar tölurnar eru að nokkru leyti réttar og skiljanlegt að þær séu í umferð þegar þetta er skoðað.
    Ég hlýt að mótmæla líka og harma þennan niðurskurð með þeim rökum, sem eru gamalkunn hér á Alþingi, að ástand í samgöngumálum þjóðarinnar er auðvitað þannig að ef einhvers staðar er ástæða til þess að verja framkvæmdaflokk fyrir niðurskurði þá er það í samgöngumálum. Það eru jafnbrýnar ef ekki brýnni ástæður fyrir því að þjóðin verður að reyna til hins ýtrasta að leggja í þennan málaflokk fjármuni á næstu árum. Það er lífsnauðsynlegt ef byggð á að geta haldist í landinu nokkurn veginn í því horfi sem hún er. Það er í öðru lagi algert úrslitaatriði fyrir einstök byggðarlög að þau fái samgöngubætur vegna þess að samkeppnisstaða byggðarlaganna, fyrirtækja og sveitarfélaga, einstaklinga og atvinnulífs í öllu tilliti verður í æ ríkara mæli háð því að samgöngurnar séu greiðar. Ég hygg að flestir hv. alþm. átti sig á þessu. Þess vegna eru samgöngurnar og samgöngubæturnar og möguleikar hinna einstöku byggðarlaga til framfara og þróunar gersamlega óaðskiljanlegir hlutir. Það á að sjálfsögðu við samgöngur í almennu samhengi, ekki bara samgöngur á landi heldur einnig í lofti og á legi og með öllum öðrum hugsanlegum aðferðum.
    Í þriðja lagi vil ég nefna atvinnuástandið í landinu. Það er nokkuð þekkt að fáar framkvæmdir eru þrátt fyrir allt jafnatvinnuskapandi vítt og breitt um landið og framkvæmdir í samgöngumálum. Vinnulaunaþátturinn í slíkum framkvæmdum er umtalsverður og velta, sem við slíkar framkvæmdir kemur inn í einstök byggðarlög, er mikil. Ég hefði talið ekki síst í ljósi þeirra breyttu aðstæðna að hér verður ekkert úr þeim stórframkvæmdum í iðjumálum og orkumálum sem hæstv. ríkisstjórn hafði nánast sem einu ljóstýru sína í myrkrinu varðandi atvinnumál og efnahagsmálaþróun hér á komandi árum, þ.e. álversdrauminn mikla, þá hlyti það að vera hvað nærtækast að horfa til samgöngumálanna og vegamálanna sérstaklega sem eru þar fyrirferðarmest í framkvæmdum. Er þá ekki ástæða til að líta á þann málaflokk og reyna að afstýra þeim mikla samdrætti sem annars er fyrirsjáanlegur í umsvifum og framkvæmdum á árinu? Við höfum fengið mjög ljótar tölur á undanförnum vikum, herra forseti, um atvinnuástandið í landinu og horfurnar þar og mér finnst það allt bera að sama brunni. Þeim mun dapurlegri er þessi mikli niðurskurður í vegaframkvæmdum.
    Mér finnst enn fremur óhjákvæmilegt að nefna að þessu sinni þá ákvörðun hæstv. ríkisstjórnar, sem nú er verið að bera hér undir Alþingi með þessari þáltill. og var að nokkru leyti gert óbeint við afgreiðslu fjárlaga, að hverfa frá því samkomulagi og þeirri samþykktu stefnu Alþingis sem liggur fyrir um tilhögun framkvæmda við jarðgangagerð á Vestfjörðum. Mér virðist það gleymast að þetta er ekki bara spurning um einhverjar framkvæmdir í vegamálum sem menn geta ýtt fram og til baka eins og þeim sýnist, mér liggur við að segja að eigin geðþótta. Embættismenn Vegagerðarinnar eða öllu heldur hæstv. samgrh. ber hér alla ábyrgð. Nei, fyrir þessari tilhögun framkvæmda liggur samþykkt ályktun Alþingis. Á Alþingi var sérstök þál. afgreidd um það hvernig skyldi ráðist í þessar framkvæmdir og með hvaða hraða og hvernig sá kostnaður yrði brúaður sem af því hlytist að hraða framkvæmdum tímabundið. Sú samþykkt var alveg afdráttarlaus. Hún felur í sér að flýtingarkostnaðurinn skuli tekinn að láni og fjármagnskostnaðurinn sem hlýst af því skuli greiðast úr ríkissjóði. Því var beinlínis ætlunin að ríkissjóður legði þessum framkvæmdum til lántökukostnaðinn í formi framlags sem hlytist af hröðun framkvæmdanna. Þessa samþykkt Alþingis er verið að brjóta með þeim ákvörðunum sem hæstv. ríkisstjórn hefur tekið og ég hefði talið lágmark að leggja það fyrir Alþingi á nýjan leik í formi sérstakrar tillögu að breyta þessari fyrri samþykkt. A.m.k. finnst mér að hæstv. samgrh. eigi að gera grein fyrir þessum þætti málsins þegar hann mælir hér fyrir vegáætlun og gera hv. alþm. ljóst að þá er verið að fara fram á að Alþingi breyti fyrri afstöðu sinni og samþykki nýja og breytta tilhögun þessara mála sem er á þá leið að Vegasjóður sjálfur beri allan kostnað af framkvæmdunum án lántökunnar og án þess að ríkissjóður leggi því lið með því að greiða fjármagnskostnaðinn eins og ákveðið var.
    Rökin sem menn höfðu m.a. fyrir sér í því að láta ríkissjóð bera fjármagnskostnaðinn voru að ríkissjóður á í vændum sparnað af ýmsu tagi þegar þessar framkvæmdir koma í gagnið. Það eiga vonandi fjölmargir aðrir aðilar, þar á meðal Vegasjóður sem ætla má að spari 20--30 millj. kr. lauslega áætlað í minni snjómoksturs- og rekstrarkostnðaði vegakerfisins á þessu svæði á norðanverðum Vestfjörðum þegar göngin koma í gagnið. Mér finnst alls ekki hafa verið staðið að þessum þætti málsins með eðlilegum hætti, herra forseti, og verð að láta þá skoðun mína koma í ljós. Í raun og veru er verið að hafa að engu þál. Alþingis sem staðfesti þá ákvörðun að hraða framkvæmdum við jargangagerðina á Vestfjörðum óháð vegáætluninni án þess að það hefði nokkur bein áhrif á vegáætlunina. Það var einmitt mjög veigamikill hluti af því samkomulagi sem um þetta tókst við þingmenn allra kjördæma að flýtingin var algerlega sjálfstætt mál óháð vegáætlun og ef samþykkt Alþingis hefði verið virt hefði hún ekki haft nokkur minnstu áhrif á framkvæmdir í vegamálum í öðrum kjördæmum landsins. Á þeim grundvelli tókst að skapa algera samstöðu um málið á Alþingi. Mér finnst komið aftan að þeim þingmönnum annarra kjördæma sem studdu ákvörðunina um jarðgangagerð á Vestfjörðum með þessari málsmeðferð sem hér er viðhöfð. Því verður ekki á móti mælt að framkvæmdafé í vegamálum í öðrum kjördæmum landsins er nú skert sem nemur 250 millj. kr. lágmark vegna þess sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að leggja til.
    Herra forseti. Fróðlegt verður síðan að heyra í þeim stjórnarliðum, stuðningsmönnum hæstv. ríkisstjórnar, sem á annað borð þora að vera inni í þingsalnum þegar vegamálin eru rædd. Fjarvera manna eins og hv. 2. þm. Norðurl. v. vekur sérstaka athygli mína og reyndar mætti segja sama um hv. 3. þm. Austurl. sem ég sé allt í einu að er ekki lengur inni í þingsalnum og hvort það er nú hugsanlega þannig að þeir hafi slæma samvisku yfir því sem hæstv. ríkisstjórnin þeirra er að gera í þessum efnum. ( Gripið fram í: Þeir eru komnir út úr þinghúsinu.) Það er jafnvel upplýst hér að þeir séu lagðir á flótta út úr húsinu og er það náttúrlega skiljanlegt.
    Herra forseti. Ég verð að lýsa miklum vonbrigðum mínum með það að þessi niðurskurðaráætlun skuli vera lögð fram af hæstv. samgrh. Ég tel það í hróplegu ósamræmi við aðstæður í landinu. Ég tel það í hróplegu ósamræmi við þörfina á þessu sviði og ég tel mjög miður að með ýmsum hætti er málafylgja hæstv. ríkisstjórnar í vegamálum þannig að hún er ekki til þess fallin að varðveita eða halda utan um þá samstöðu um þennan málaflokk sem reynt hefur verið að skapa og hafa í heiðri á undanförnum árum. En ég sé á þessu stigi málsins ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta en þætti vænt um að hæstv. samgrh. svaraði spurningu minni um hin tæknilegu atriði varðandi innheimtu bensíngjaldsins og verðmun á blýlausu bensíni og blýbensíni sem ég spurði um áðan.