Vegáætlun 1991--1994

88. fundur
Þriðjudaginn 25. febrúar 1992, kl. 14:36:00 (3736)

     Steingrímur J. Sigfússon (um þingsköp) :
    Ég vil helst fá orðið um þingsköp, herra forseti, ef hægt væri að veita mér það eins og gert hefur verið í níu ár þangað til þessi óvenja var tekin upp í haust að veita mönnum orðið um eitthvað sem þurfi endilega að heita athugasemd við gæslu þingskapa. Ég er að sjálfsögðu ekki að gera athugasemdir við það. Ég vil fá að ræða hér við hæstv. forseta um það sem reyndar kom hér fram í orðaskiptum okkar milli stólanna áðan að ég hafði einhvern veginn talið að það væri sjálfgefið að þegar meiri háttar framkvæmdaáætlanir væru til umræðu væri ræðutími ótakmarkaður eins og jafnan var. Ég vil leyfa mér að halda því fram að þegar ákvæði nýju þingskapanna voru afgreidd lá það í skilningi manna að jafnan yrði um það að ræða að þegar vegáætlun, flugmálaáætlun, hafnaáætlun og síðan meiri háttar þingsályktanir sem vörðuðu utanríkismál væru til umræðuu yrði ræðutími ótakmarkaður.
    Nú kann að vera að mönnum hafi verið ætlað að gera við það athugasemdir eða óska sérstaklega eftir því að umræðan færi fram skv. 55. gr. áður en hún hófst, ella sé forseta heimilt að láta hinn takmarkaða ræðutíma gilda. Ég vil þá vekja athygli hæstv. forseta á því að við erum kannski að ræða í fyrsta sinn framkvæmdaáætlun af þessu tagi með hinum nýju þingsköpum. Ég hefði þess vegna talið eðlilegt að hæstv. forseti hefði í byrjun umræðunnar upplýst okkur um það hvernig málin stæðu gagnvart hinum nýju þingsköpum. Ég hefði að sjálfsögðu óskað eftir því að umræðutíminn yrði ekki endilega takmarkaður hér við átta mínútur ef ég hefði áttað mig á því að bera þyrfti fram ósk um það í upphafi.
    Ég vil með tilliti til þessara aðstæðna spyrja hæstv. forseta hvort hann fallist ekki á að eftir sem áður skuli gilda ákvæði 55. gr. eða a.m.k. sé heimilt að koma með ósk um það nú þótt menn hafi ekki áttað sig á að það þyrfti að gera í upphafi umræðunnar. Ég hygg að mönnum hafi kannski ekki almennt verið það ljóst eða kunnað það utan að hvernig þessir hlutir stæðu gagnvart hinum nýju þingsköpum. Mér finnst það því sanngirnismál, líka með hliðsjón af því að forseti gerði mönnum ekki grein fyrir því hvernig þetta væri á grundvelli ákvæða hinna nýju þingskapa, að umræðan lokist ekki af ef svo má að orði komast miðað við takmarkaðan ræðutíma. Með því er ég ekki endilega að segja að hér muni verða einhverjar maraþonumræður. Mér finnst visst grundvallaratriði að mönnum sé ljóst undir hvaða skilmálum umræðurnar fara fram hverju sinni.