Vegáætlun 1991--1994

88. fundur
Þriðjudaginn 25. febrúar 1992, kl. 14:48:00 (3740)

     Steingrímur J. Sigfússon (um þingsköp) :
    Virðulegur forseti. Ég vil í fyrsta lagi þakka forseta fyrir úrskurðinn varðandi ræðutímann. Ég fagna honum og tel hann réttlátan úrskurð og forseti vaxi af því að fella þann úrskurð. Ég er sannfærður um að hv. alþm. munu sýna þakklæti sitt m.a. í verki með því að umræðan gangi greiðlega fyrir sig.
    Í öðru lagi vil ég segja varðandi þá málvenju sem er áratugagömul það ég best veit að biðja um orðið um þingsköp og ég held jafnframt málvenja að veita orðið um þingsköp er það að sönnu örugglega rétt hjá forseta að samkvæmt ákvæðum þingskapalaganna er talað um að gera athugasemdir við gæslu þingskapa. En það sem ég var að vísa til var sú málvenja sem ég vandist í þinginu að menn báðu um orðið um þingsköp og fengu orðið um þingsköp. Spurningin er sú og það er rannsóknarefni út af fyrir sig hvort það hefur bara ekki staðið þannig áratugum saman að ekki hafi farið þarna nákvæmlega saman annars vegar ákvæði þingskapanna og hins vegar málvenjan sem notuð hefur verið í þinginu. Það er sem sagt málvenjan sem ég sé eftir, hæstv. forseti.